141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[18:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna því að þetta frumvarp sé komið til 2. umr. eftir ítarlega yfirferð í velferðarnefnd sem hefur skoðað þetta mál á allnokkrum fundum, fengið til sín fjölda gesta og leitað eftir umsögnum eins og vera ber um mál af þessu taginu. Í meginatriðum voru umsagnirnar jákvæðar, með einni undantekningu þó sem ég kem að á eftir. Stóra málið í þessu frumvarpi er að það er verið að lögfesta hlutverk og stöðu Fjölmenningarsetursins sem hefur starfað í um það bil áratug á Ísafirði með mjög góðum árangri. Þetta er að sönnu lítil stofnun en vel rekin og með lítilli yfirbyggingu eins og kemur fram í nefndarálitinu og hefur á þessum tíma í raun sannað tilverurétt sinn og þar með að það var full þörf fyrir starfsemi af þessu taginu.

Sannleikurinn er sá að þetta setur hefur töluvert þurft að berjast fyrir lífi sínu alveg frá því að það var sett á laggirnar. Ekki hafa gilt um það sérstök lög, hins vegar hefur það haft sérstakan fjárlagalið sem stundum hefur þurft að sæta verulegum niðurskurðaráformum, m.a. á síðustu árum, en sem betur fer hefur tekist að afstýra því. Ef það hefði gengið eftir eins og í stefndi fyrir einu eða tveimur árum hefði þessi starfsemi hvorki orðið fugl né fiskur og þess hefði auðvitað verið skammt að bíða að starfsemin yrði lögð niður. Þegar þessi mál eru rædd er hins vegar nauðsynlegt að setja þetta í sögulegt samhengi. Frumvarpið spratt ekki fram fullskapað úr engu umhverfi. Þessi mál hafa þróast býsna mikið á undanförnum árum og áratugum. Íslenska samfélagið hefur breyst mjög hratt. Við vorum lengst af tiltölulega einsleitt samfélag. Við nutum að vísu góðs af ýmsum innflytjendum sem komu hingað til lands og auðguðu menningarlíf okkar og atvinnulíf á margan hátt. Fjölmargir komu hér á fyrri hluta síðustu aldar, tónlistarmenn og aðrir listamenn á þeim tíma sem listsköpun í landinu var mun skemmra á veg komin en hún er núna. Þetta fólk flutti með sér mikla og góða menningarstrauma sem gerði það að verkum að ýmislegt af því sem við höfum síðar séð gerast í menningarlífinu á rætur sínar einmitt að rekja til þessa fólks.

Svo farið sé hratt yfir sögu getum við sömuleiðis rifjað það upp að erlendir starfsmenn hafa líka komið til liðs við okkur í ýmsum starfsgreinum sem örðugt hefur verið að manna með íslensku vinnuafli. Þegar íslenska hagkerfið stækkaði sem mest var ein forsendan sú að við höfðum tiltölulega opið samfélag sem gerði það að verkum að fólk gat komið meðal annars frá Evrópu, tekið upp vinnu hérna og sinnt þeim verkefnum sem íslenska samfélagið á þeim tíma var að takast á við. Við sjáum það líka gerast, það hefur verið að gerast og er staðreynd í dag, að mjög margar atvinnugreinar eru að miklu leyti mannaðar erlendu starfsfólki. Fiskvinnslan kemur augljóslega fljótt upp í huga manns. Þannig hefur það verið þar áratugum saman.

Hið sama má segja um margs konar iðnaðarstarfsemi. Við tökum eftir því þegar við komum á byggingarstaði, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, að þar er íslenska ekki endilega mest talaða tungumálið. Það á líka við um ýmsar aðrar starfsgreinar. Ferðaþjónustan sem er í miklum vexti núna er mikið mönnuð erlendum starfsmönnum. Við komum á veitingastaði um landið þar sem varla er töluð íslensk tunga. Auðvitað finnst ýmsum þetta óþægilegt en þannig er veruleikinn og þetta er veruleiki sem aðrar þjóðir búa svo sem við líka.

Við getum sagt að þegar við breytumst úr þessu einsleita samfélagi í fjölmenningarlegra samfélag sé vandinn sá að þá kunna að rísa upp alls konar fordómar. Fordómar eru yfirleitt nærðir af þekkingarleysi. Þess vegna er svo gríðarlega brýnt að bregðast við þessu með því að miðla út í samfélagið upplýsingum um gildi þess að njóta erlendra menningarstrauma án þess að við viljum ganga á okkar íslensku rætur. Síðan er ekki síður brýnt að það fólk sem hefur komið hingað í þúsunda- og tugþúsundavís upplifi sig velkomið hér og því sé líka gerð grein fyrir réttindum sínum og þeim skyldum sem á því hvíla við það að gerast þegnar á Íslandi.

Ég rifja þetta upp vegna þess að það er nauðsynlegt að halda þessu til haga og líka er vert að rifja upp að þau mál sem við erum hér að ræða eiga forsögu í ýmsum ákvörðunum sem Alþingi hefur þegar tekið. Árið 2003 skipaði til dæmis þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra starfshóp sem hafði það hlutverk að fjalla um þjónustu við innflytjendur á Íslandi. Þessi starfshópur skilaði greinargerð í mars 2004. Megininntak þeirrar greinargerðar var að þjónusta við innflytjendur yrði samræmd í einni miðstöð sem næði til landsins alls. Það er í raun og veru lýsing á því sem við höfum í dag kallað fjölmenningarsetur og sem er vonandi núna á góðri leið með að verða lögfest. Það styrkir þar með í sessi starfsemi sem þegar fyrir heilum áratug var lagður grundvöllur að með þessu áliti starfshópsins.

Áfram var þetta síðan unnið. Önnur nefnd var skipuð til að útfæra tillögurnar nánar og skilgreina verkefni þessarar miðstöðvar. Sú nefnd skilaði skýrslu í apríl 2005. Í janúar 2006 var síðan samþykkt fyrsta opinbera stefna ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda. Þar var meðal annars kveðið á um ýmsa þá þætti sem við erum núna að fjalla um. Árið 2008 var síðan samþykkt fyrsta þingsályktunartillagan um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og var hún byggð á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá árinu 2007.

Það sem ég er að reyna að leiða fram er að þetta frumvarp er að mínu mati rökrétt framhald af þeirri stefnumótun sem fjölmargar ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og nú Samfylkingar og Vinstri grænna hafa reynt að þoka áfram. Þess vegna er fagnaðarefni að við séum komin á þann stað í þessu þróunarferli að við erum um það bil að fara að lögfesta og búa til lagalegan ramma utan um þá hugmynd sem vaknaði á sínum tíma, annars vegar í tillögum þeirrar nefndar sem ég var að tala um og síðan hinu, að Alþingi sjálft samþykkti á sínum tíma þingsályktunartillögu okkar þáverandi þingmanna Vestfjarða um að setja á laggirnar það sem þá var kallað nýbúamiðstöð en er núna kallað fjölmenningarsetur og segir ákveðna sögu um hvernig orðfærið og tungutakið breytist á þessu sviði eins og mörgum öðrum. Þess vegna má segja sem svo að það sé verið að reka eins konar endahnút á þessa miklu starfsemi sem Fjölmenningarsetrið hefur með höndum.

Þrátt fyrir að þessi starfsemi hafi að mínu mati sannað mjög tilverugrundvöll sinn er engu að síður stöðugt verið að reka hornin í hana. Hver er ástæðan? Hún er ekki sú að menn telji ekki nauðsynlegt að hafa starfsemi á borð við fjölmenningarsetur. Það er ekki að það lykti af einhvers konar fordómum í garð útlendinga sem hingað hafa komið. Ástæðan fyrir því að menn hafa rekið hornin í þessa starfsemi er staðsetning stofnunarinnar. Þannig hefur það verið frá upphafi. Alveg frá því að við þingmenn Vestfjarðakjördæmisins hreyfðum þessu á sínum tíma hefur verið rekinn harður áróður gegn því að Fjölmenningarsetrið væri á Ísafirði, flóknara er það ekki. Ég rakti það við 1. umr. þessa máls, vegna þess að ég kynntist þessu ákaflega vel sem 1. flutningsmaður þess og áhugamaður um að koma því á laggirnar, hvernig þessi trippi voru rekin af ótrúlegri hörku. Ég hélt samt sem áður að deilurnar hefðu að einhverju leyti hljóðnað vegna þess að starfsemi setursins hefði einfaldlega sannað að það væri vel gerlegt að reka það með þeim hætti sem gert hefur verið og frumvarpið kveður á um, frá Ísafirði. Þá gerðist það sem ég harma, einn umsagnaraðili, Reykjavíkurborg, sá ástæðu til að leggja fram tillögur um að þessi starfsemi yrði lögð niður á Ísafirði og flutt til Reykjavíkur. Það var kjarni umsagnar Reykjavíkurborgar, höfuðborgarinnar okkar, að svo illa væri komið fyrir þessari stofnun upp á 3,5 stöðugildi vestur á Ísafirði að ástæða væri til að flytja hana með manni og mús suður til Reykjavíkur og leggja niður starfsemina fyrir vestan. Flóknara var það ekki, og stórmannlegt er það ekki.

Sem betur fer kom það sjónarmið líka fram hjá þeim sem gleggst þekkja til, þar vísa ég ekki síst til fulltrúa innflytjendaráðs sem komu fyrir nefndina, að þetta væri fráleitt af hálfu Reykjavíkurborgar og að starfsemin gæti mjög vel átt heima á Ísafirði, reynslan hefði nú þegar sannað það. Þegar skoðað væri það hlutverk sem Fjölmenningarsetrinu væri ætlað samkvæmt þessu frumvarpi leiddi það að einu að þessi starfsemi ætti fullvel heima á Ísafirði.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur, framsögumanns þessa máls sem við gerum vonandi að lögum í þessari viku, passar þessi starfsemi ákaflega vel og er þannig samansett að það má fullvel sinna frá Ísafirði þeim verkefnum sem þessari stofnun verður ætlað að sinna þegar lögin hafa verið samþykkt. Þess vegna gæti starfsemin líka verið einhvers staðar annars staðar á landinu.

Kjarni málsins er sá, eins og kemur fram í nefndarálitinu um þetta frumvarp, að helsta hlutverk fjölmenningarseturs er að vera upplýsingaveita fyrir alla þá sem þurfa á upplýsingum um málefni innflytjenda að halda. Ekki er um að ræða starfsemi þar sem gert er ráð fyrir því að inn af götunni komi einstaklingar sem kalli eftir þessari þjónustu. Slíkri þjónustu hlýtur eðli málsins samkvæmt alltaf að vera sinnt af sveitarfélögum. Þar samtvinnast líka og samþættist margs konar þjónusta sem er á hendi sveitarfélaga, nærþjónusta af mörgu tagi, sem hlýtur þá hvort tveggja að eiga við um þá sem eru kallaðir innflytjendur og hina sem hafa hér rótfestu og hafa búið hér lengur. Fjölmenningarsetrinu er sem sagt ætlað að vera upplýsingaveita, einhver svona samræmingaraðili. Þaðan er hægt að miðla upplýsingum til þeirra sem síðan koma þeim á framfæri í beinum samskiptum við þá sem kalla eftir þeim, fyrir utan það að margs konar upplýsingar af þessu tagi sækir fólk sér ekki með því að fara í heimsóknir inn á gólf í tilteknum stofnunum. Það vitum við líka. Þetta er reynslan hjá okkur af annars konar starfsemi sem á sér stað. Við erum ekki endalaust að fara að heimsækja stofnanir og veltum því sjaldnast fyrir okkur í sjálfu sér við hvaða götu þær standa í Reykjavík, þar eru þessar stofnanir yfirleitt, heldur sækjum við þessar upplýsingar rafrænt og fyrir vikið er okkur nánast algjörlega sama hvar þær hafa bólfestu. Þessi stofnun er engin undantekning frá þessu.

Þegar við skoðum þann frumvarpstexta þar sem fjallað er um hlutverk stofnunarinnar er það býsna fjölþætt. Í því felst að veita stjórnvöldum og fleiri aðilum upplýsingar og ráðgjöf í tengslum við málefni innflytjenda, vera sveitarfélögum til ráðgjafar við að taka á móti innflytjendum, miðla upplýsingum til innflytjenda um réttindi þeirra og skyldur o.s.frv. Það er að vísu búið að gera breytingu á þessu með breytingartillögu okkar í velferðarnefnd.

Við erum að lögfesta heilmikið verkefni fyrir hið litla fjölmenningarsetur sem við gerum kröfu til að það uppfylli.

Þá vil ég í því sambandi segja að við verðum að láta hug fylgja máli. Þá verður að gera ráð fyrir því að fjárhagslegur rammi þessarar litlu stofnunar sé þannig skorinn að henni sé unnt að sinna þessum verkefnum. Það gengur auðvitað ekki fyrir okkur að hafa háleit markmið í markmiðsgrein laga án þess að gera ráð fyrir því að stofnunin geti sinnt hlutverkinu. Ég trúi því að með því að samþykkja þetta lýsi Alþingi um leið yfir þeim vilja sínum að ætla sér að standa myndarlega að rekstri stofnunarinnar þannig að hún sé ekki hér undir brot og slit á hverju hausti eins og hefur verið hátturinn undanfarin ár. Menn hafa verið að vísa til samdráttaraðgerða og aðhaldsaðgerða sem hefur verið gripið til í ríkisfjármálum, það þekkjum við, en þær hugmyndir sem komu fram í einhverju fjárlagafrumvarpinu, ég er búinn að gleyma í nákvæmlega hverju þeirra, hefðu því miður haft í för með sér að þessi starfsemi hefði meira og minna lagst af. Því var hins vegar afstýrt. Það var skilningur meiri hluta Alþingis á því að þetta gæti ekki gengið. Sá skilningur verður vonandi lögfestur með því að við erum um það bil að ganga frá lagasetningu um Fjölmenningarsetrið.

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég undirstrika bara að ég tel að með samþykkt þessa frumvarps séum við að ljúka tiltekinni vegferð sem hófst fyrir að minnsta kosti áratug, annars vegar með því að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu okkar þingmanna Vestfirðinga um nýbúamiðstöð sem nú er orðið fjölmenningarsetur og hins vegar að halda áfram þeirri stefnumörkun sem birtist í nefnd þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra frá árinu 2003 sem skilaði áliti í mars 2004 þar sem hvatt var til þess að þjónusta við innflytjendur yrði samræmd í einni miðstöð sem næði til alls landsins. Það er verið að gera núna lögformlega þegar þetta mál verður orðið að lögum. Þá er verið að segja og ákveða að þessi þjónusta sem hvatt var til á árinu 2004 að yrði samræmd í einni miðstöð verði samræmd og það undir hatti Fjölmenningarsetursins sem verði á Ísafirði eins og það hefur verið.

Með öðrum orðum fagna ég þessu frumvarpi. Ég tel að það sé gott skref. Þrátt fyrir að menn hafi haft áhyggjur af því að þetta sé lítil stofnun bendi ég líka á að hún gæti tekið að sér ýmis önnur verkefni sem nú er verið að sinna af hálfu ríkisins í öðrum stofnunum, jafnvel í ráðuneytum. (Gripið fram í.) Það eru ýmsir möguleikar í því að reyna að nýta fjármuni, þekkingu, vinnuafl og aðstöðu sem Fjölmenningarsetrið býr að. Ég tel að það væri þess vegna verðugt viðfangsefni eftir að þetta hefur verið gert að lögum að skoða einmitt möguleika á því að færa til þessarar stofnunar frekari verkefni sem nú er sinnt með öðrum hætti á vegum hins opinbera, gera það þannig með skilvirkari, markvissari og ódýrari hætti en gert er.

Ég geri það að lokaorðum mínum að hvetja til þess núna, þegar þessi mál verða gerð að lögum, að næsta vers verði að hyggja að því með hvaða hætti megi færa slík verkefni til Fjölmenningarsetursins hins nýja.