141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

opinberir háskólar.

319. mál
[16:08]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil halda áfram með þá umræðu sem hefur farið af stað um samstarfsnetið. Ég skal ekki segja hvar sú þróun muni enda, hvort samstarfsnet þetta sé fyrsta skrefið í átt að því að sameina í raun og veru opinberu háskólana undir einni regnhlíf ef svo má segja þar sem um væri að ræða mismunandi skóla en þó einn skóla að forminu til. En þetta er áhugavert skref og mikilvægt og að mínu mati ágæt lausn virðist vera, í það minnsta við fyrstu sýn, á nokkuð flóknu vandamáli, þ.e. hvernig skuli halda á með opinberu háskólana.

Það sem mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra um er samspilið á milli samstarfsnetsins annars vegar og háskólaráðanna hins vegar. Ég tek eftir því að í niðurlagi 6. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal setja nánari starfsreglur um samstarfsnet opinberra háskóla og skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda.“

Það mun nokkru varða tel ég hvernig þessu verður háttað, hvert valdsvið ef svo má segja þessa samstarfsnets verður. Getur það gripið inn í ákvarðanir háskólaráðanna þegar þær liggja fyrir og hversu langt inn í starfsemi viðkomandi skóla getur samstarfsnetið í raun og veru seilst? Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra hvað það varðar.