141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

vextir af lánum frá Norðurlöndum.

[13:46]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að byrja á því að rekja að vorið 2009 var mikið reynt til þess að ná þessum vöxtum niður. Ég fór í sérstaka ferð til Norðurlandanna, hitti marga af kollegum mínum og talaði við hina til þess að reyna að semja um hagstæðari kjör en þau sem áformuð höfðu verið. Það má kannski segja að upp úr því krafsi hafi hafst 25 punkta lækkun eða svo. En það var allt og sumt sem mögulegt var að þoka þessu niður þarna á þessum vordögum.

Þá var staðan vissulega önnur en hún er á Íslandi í dag. Áhættuálagið á okkur var þá í hæstu hæðum, næstum í grískum hæðum, og óvissan miklu meiri um það hvernig okkar staða yrði til að endurgreiða þau lán sem við vorum þarna að taka.

Næst má segja að það hafi borið til í þessum efnum að á síðari hluta árs 2011 óskuðum við eftir því við Norðurlöndin að fá að geyma lántökuréttinn og breyta þessu í lánalínur því að það var augljóst mál að það mundi ekki kosta okkur mikið að eiga þarna upp á að hlaupa lántökumöguleika ef á þyrfti að halda. Þessu var því miður líka neitað. Þess vegna drógum við á lánin í lokin en tókum svo þann kost að endurgreiða þau hratt nú í byrjun þessa árs í tveimur skömmtum. Er svo komið að við höfum endurgreitt rúmlega helminginn.

Í því ljósi séð — og ég held að enginn efist lengur um getu Íslands til að endurgreiða svo þessi lán þegar þar að kemur, við erum búin að borga afborganir fram til 2018 — teldi ég fullkomlega eðlilegt að ræða við Norðurlöndin um að við færum núna aftur yfir kostnaðinn af þessari lántöku. Það er augljóst mál til dæmis í tilviki Noregs, sem hefur eitthvert besta lánstraust í heiminum, er kannski með 15–20 punkta álag á Euribor- eða Libor-vexti, er 275 punkta álag býsna mikið af lánveitingum af þessu tagi til vinaþjóðar. Ég er því þeirrar skoðunar, já, að það sé ágætt að þessi umræða er komin af stað og að full ástæða sé til að fylgja henni eftir.