141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég sé ástæðu til að fagna þessari afgreiðslu hér í dag af tveimur ástæðum. Þetta frumvarp er tiltölulega snemma á ferð, fylgt hefur verið starfsáætlun og vinna við það hefur gengið vel og, eins og hv. formaður fjárlaganefndar nefndi, þá fara sífellt minni fjárveitingar í fjáraukann sem ber vott um betri áætlanagerð og er það gott.

Ég sakna þess hins vegar að ekki sé gert ráð fyrir því að ljúka uppgjöri vegna fornleifauppgraftrar á vegum Alþingis á alþingisreitnum. Sérstök fjárveiting var á þessu ári sett í þetta verk vegna þess að nauðsynlegt var að ljúka uppgreftrinum því að fornminjarnar lágu undir skemmdum ella. Það tókst en það er alltaf ákveðin óvissa við verk eins og þetta og verkið fór einhverjum milljónum fram úr áætlun. Ég treysti því að þetta mál verði skoðað sérstaklega á milli 2. og 3. umr. um fjáraukann í hv. fjárlaganefnd.