141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þm. Mörð Árnason til að líta sér nær þegar hann ræðir Íbúðalánasjóð. Hann ætti kannski sérstaklega að skoða útlán sjóðsins árið 2008 og hvaða afleiðingar þau höfðu. Það er einfalt fyrir hann á flokksstjórnarfundi eða í þingflokki Samfylkingarinnar að fara yfir þau mál, í júlí 2008 var sett útlánamet sem aldrei skyldi verið hafa. (MÁ: Hvað með SpKef?) Það hafði afskaplega alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir skattgreiðendur og þá sem tóku þau lán.

Hv. þingmaður kallar: Hvað með SpKef? Það er væntanlega vegna þess að hv. þingmaður er skyggn, en ég er búinn að fá upplýsingar frá Samtökum lánþega, upplýsingar sem eru ekki góðar. Þar eru dæmi um einstaklinga sem gerðu eins og hvatt var til, skrifuðu undir skilmála og skilmálabreytingar á þeim forsendum að ef það myndaðist betri réttur fengju þeir að njóta hans. Þetta gerðu tugþúsundir Íslendinga í góðri trú.

Núna hefur komið í ljós, ef eitthvað er að marka þau gögn sem ég hef undir höndum, að ríkisbankinn sem yfirtók SpKef mun ekki láta fólk njóta betri réttar. Hann segir þessu fólki að fara bara með sínar beiðnir í þrotabú SpKef. Við erum að tala um að stjórnvöld hafa ómeðvitað, eða meðvitað, ekki hugað að því að gæta jafnræðis. Þetta mun koma mjög illa við þá sem eru með þessi lán, fólk sem fór í skilmálabreytingar með þeim formerkjum að það fengi að njóta betri réttar. (Forseti hringir.) Hér er um að ræða hóp sem mun ekki fá hann og ég tel að hv. efnahags- og viðskiptanefnd verði (Forseti hringir.) að fara strax yfir þetta mál.