141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

133. mál
[17:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit er það alvanalegt að umsagnaraðili komi oftar en einu sinni fyrir nefndir þegar verið er að fjalla um viðurhlutamikil mál. Það kann vel að vera að á einhverjum tímapunkti hafi þeir aðilar sem ég nefndi komið að málinu, t.d. í undirbúningi eða við meðferð málsins á fyrri stigum. Það breytir ekki því að málið var statt með ákveðnum hætti í nefndinni áður en það var afgreitt. Það er mjög óvanalegt satt að segja að því sé neitað, þegar verið er að fjalla um mál, að kalla fyrir einstaka umsagnaraðila. Ég geri mér grein fyrir því að þegar menn eru í miklu tímahraki kann það að vera erfitt, en það átti ekki við um þetta mál. Þetta mál er afgreitt úr nefndinni 24. október. Það kemur ekki hingað til umræðu fyrr en nú um miðjan nóvember og verður ekki gert að lögum fyrr en um miðjan nóvember, þannig að það var nægur tími í sjálfu sér til þess að skella á fundi til að kalla fram þau viðhorf sem mögulega hefðu getað breytt afstöðu manna í þessum efnum eða hugsanlega haft einhver áhrif á hina efnislegu niðurstöðu.

Ég gagnrýni það harðlega að þetta skuli hafa verið keyrt áfram með þessum hætti. Ég veit ekki hvort það hefði haft áhrif á hina efnislegu niðurstöðu, en það hefði þó verið þess virði fyrir nefndarmenn að fá fram viðhorf fyrrverandi flugmálastjóra og þessa stóra flugfélags sem þarf að búa við þetta nýja skipulag. Þetta kann hugsanlega að hafa einhver áhrif á rekstur og stöðu þessa fyrirtækis. Það veit ég ekki nákvæmlega, vegna þess að þær upplýsingar koma ekki þarna fram.

Mér finnst það ekki frambærileg rök að á einhverjum öðrum tímapunkti í því langa ferli sem sannarlega var til staðar kunni þessir aðilar að hafa haft möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það hefði að sjálfsögðu átt að verða við hinni sjálfsögðu og frómu ósk sem kom fram frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgöngunefnd að kalla þessa aðila fyrir og heyra viðhorf þeirra til þessa máls.