141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

stefna ASÍ vegna skattlagningar lífeyrisréttinda.

[10:47]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nú mikilvægt að þeir sem taka undir gagnrýni Alþýðusambands Íslands á þátt þeirra í þessum vaxtaniðurgreiðslum hafi heildarmyndina alla undir.

Forsagan er að í desember 2011 var samþykkt viljayfirlýsing þar sem lífeyrissjóðirnir skuldbundu sig til að taka þátt í fjármögnun útgjalda vegna hækkunar á vaxtabótum sem áttu að nema um 18 milljörðum kr. Spurningin er því: Hver er að brjóta samkomulag ef í það er horft?

Síðan var fallist á að draga úr þessum greiðslum, þ.e. hlut lífeyrissjóðanna í þeim, sem áttu að vera 6 milljarðar með bönkunum, skipt á milli bankanna og lífeyrissjóðanna á ári í tvö ár, þannig að 6 milljarðar áttu að koma í hlut lífeyrissjóðanna, og verulega hefur verið dregið úr þessu. Sett voru lög um það að lífeyrissjóðirnir skyldu greiða þessar greiðslur en þetta hefur verið lækkað verulega og fallist á að það yrði skoðað hvort þeir gætu mætt sínum hluta með því sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. hagnaði af gjaldeyrisútboðunum.

Það var reynt en útkoman var langt undir væntingum þannig að þar var aðeins um 400 millj. kr. að ræða sem kom út úr útboðum af þessum 6 milljörðum sem þeir áttu að greiða á tveimur árum. Ríkisstjórnin féllst á að falla frá seinni greiðslunni — þetta átti að koma á tveimur árum — þannig að eftir stóðu 2 milljarðar af þeim 6 milljörðum sem lífeyrissjóðirnir áttu að greiða. Það var nú allt og sumt. Menn skyldu athuga það að það eru ekki síst þeirra félagar sem höfðu ávinning af þeirri leið sem ríkisstjórnin fór í, þ.e. að fara í víðtækar vaxtaniðurgreiðslur sem náðu til þorra fólks sem var með skuldir.

Mér finnst það því skjóta skökku við að ASÍ og lífeyrissjóðirnir ætli að fara í mál við ríkið út af þessu máli sem hefur haft (Forseti hringir.) hag lífeyrissjóðanna verulega til hliðsjónar, fallið hefur verið frá því að þeir greiddu stærstan hluta af því sem þeir áttu að greiða, þ.e. einungis 2 milljarða af 6.