141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[12:42]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var ekki að fara yfir mínar prívatskýringar á fjáraukalögum eða fjárlögum. Það sem ég fór hér yfir stendur klárt og kvitt í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2012. Það voru ekki mínar prívatskýringar. Þarna stendur nákvæmlega hvernig láðst hefur í ráðuneytum að gera ráð fyrir þeim fjármunum í fjárlögum sem nú er verið að óska eftir í fjáraukalögum. Það heitir ekki að það sé eitthvað ófyrirséð sem menn hafi þurft að mæta. Hv. þm. Lúðvík Geirsson nefndi mín fyrri störf og hann hefur sjálfur verið bæjarstjóri í sveitarfélögum og veit að á tíma var heimilt að endurskoða fjárhagsáætlanir sveitarfélaga.

Ég fór yfir það sem stendur í frumvarpinu og það er ekki til að mæta ófyrirséðum atvikum í fjárlögum ríkisins heldur vegna þess að ráðuneytinu láðist að gera ráð fyrir einhverju, sinnti því ekki. Þó að starfshópar hefðu verið starfandi og ljóst var að taka þyrfti á verkefnunum í fjárlögunum 2012 var það ekki gert. Þetta eru ekki mínar prívatskýringar, virðulegur forseti.

Hvað það varðar að Alþingi eigi jafnt að gera grein fyrir sínum fjárlögum og standast þau er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég gerði hins vegar athugasemdir við að meiri hluti fjárlaganefndar tók þegjandi á móti aukatillögum ríkisstjórnarinnar við fjáraukalögin en sagði nei við tillögum Alþingis. Það var það sem ég gerði athugasemdir við, ég átti ekki við að þingið ætti ekki eins og aðrir að standa við gerð fjárlög og samþykkt fjárlög.