141. löggjafarþing — 35. fundur,  15. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[13:30]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég nefndi áðan í andsvari við hv. þm. Björn Val Gíslason að Ísland væri því miður sett á sama stað og Ungverjaland þegar kæmi að mismun milli fjárlaga og ríkisreiknings. Ég fékk þessar upplýsingar í fjárlaganefnd frá ráðuneytisstjóra. Ég spurði reyndar ritara fjárlaganefndar hvort ég myndi þetta ekki rétt, þetta hefði verið fullyrt á fundi nefndarinnar, og hann staðfesti það. Við höfum báðir skrifað þetta hjá okkur.

Formaður fjárlaganefndar vildi meina að þetta hefði breyst. Það er jákvætt ef svo er frá þeim fundi sem átti sér stað fyrir skömmu en þetta lýsir kannski því vandamáli sem Alþingi á við að glíma. Því miður fjöllum við oft og títt um eitthvað sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig er. Við höfum ekki allar staðreyndir og þá verður afskaplega lítið úr hinni efnislegu umræðu.

Ég skrifa undir nefndarálit með félögum mínum í minni hluta fjárlaganefndar þar sem við fjöllum um það agaleysi sem því miður virðist enn ríkja við fjárlagagerð Alþingis. Menn í meiri hlutanum vilja meina að þetta sé allt að batna og horfi til betri vegar en þá mundi ég vilja fá staðreyndir og rök á bak við þær fullyrðingar. Ég held að sé mjög mikilvægt að við stöndum ekki hér uppi og fullyrðum eitthvað sem engin gögn og engin rök eru á bak við.

Við höfum gagnrýnt það mjög harkalega að ekki hafi verið leitað álits frá Ríkisendurskoðun á því fjáraukalagafrumvarp sem hér er til umræðu. Í rauninni er algjörlega galið að svo sé ekki en það er því miður til marks um vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð á Alþingi. Ég get tekið sem dæmi að við fjárlagagerð síðasta árs kom ekkert álit frá efnahags- og viðskiptanefnd um tekjuhlið frumvarpsins. Mér skilst að það hafi verið í fyrsta skipti en ég get ekki séð að með þessu sé verið að auka agann vegna þess að agi næst ekki nema eftirlitið sé í lagi. Ríkisendurskoðun hefur einfaldlega eftirlit með okkur á Alþingi, sama hvaða persónulegar skoðanir menn hafa á þeirri stofnun. Í rauninni er Ríkisendurskoðun eina eftirlitsstofnunin sem getur sinnt þessu hlutverki og hefur til þess lagaleg völd. Hún hefur vissulega sinnt sínu starfi. Það má gagnrýna hana eins og aðrar stofnanir, að sjálfsögðu, á málefnalegan hátt, en hún hefur komið með fjölmargar ábendingar sem við höfum tekið upp í fjárlaganefnd og öðrum nefndum þingsins, skrifað skýrslur og lagt til úrbætur.

Þegar menn tala um að agi hafi aukist þyrftu þeir að leggja fram hvaða úrbætur hafa verið gerðar. Það hafa verið lagðar fram þingsályktunartillögur um að það eigi að gera útbæturnar en einhvern veginn bólar ekki á neinu efnislegu þar að lútandi. Ég hef talið þetta bagalegt fyrir íslenska ríkið og kannski miklu stærra mál en menn gera sér almennt grein fyrir.

Vert er að nefna að ráðuneytin sjálf fara með eftirlitshlutverkið gagnvart ýmsum stofnunum eins og menntamálaráðuneytið fór með eftirlitshlutverk gagnvart Menntaskólanum Hraðbraut. Það var núningur á milli Ríkisendurskoðunar og ráðuneytisins um hver hefði átt að sjá um að fylgjast með þeim fjármunum sem Alþingi setti þar inn og það er nokkuð sem verður að laga.

Þegar forstöðumenn stofnana fara fram úr heimildum virkar ráðherraábyrgðin ekki sem skyldi. Það er að mínu mati staðreynd. Stjórnsýslulög innihalda svokallað áminningarkerfi en ég held að reynsla síðustu ára sýni að þetta svokallaða áminningarkerfi virkar ekki sem skyldi vegna þess að ráðuneytin eru treg til að veita áminningar og það þykir kannski stærra og meira úrræði og í því fólginn meiri áfellisdómur en efni standa til. Eins og við bendum á í ályktun okkar virðist ráðherraábyrgð algjörlega gagnslaust verkfæri.

Af hverju skyldum við þurfa þennan aga? Ég held að þetta sé stærsta og brýnasta mál Íslands í dag, þ.e. að koma á aga í ríkisfjármálum. Við búum hér við gríðarlega verðbólgu sem enginn getur komið böndum á. Seðlabankinn sendir frá sér skýrslur með spám sem standast ekki. Þær eru oft og tíðum eins langt frá raunveruleikanum og hugsast getur. Það er alvarlegt og helgast kannski af því að fjárlögin breytast líka ótt og títt. Vaxtakostnaður ríkissjóðs breyttist um 7 milljarða milli 1. og 2. umr. um fjáraukalagafrumvarpið. Jafnvel þótt kostnaðurinn sé mikill, hátt í 100 milljarðar, er 7 milljarða sveifla gríðarleg. Við erum endalaust að setja fjármuni inn í Íbúðalánasjóð og við þurfum að gera meira af því, en þetta er fyrirséð og gerir það að verkum að það er erfitt að henda reiður á hvernig ríkissjóður stendur þegar ríkisreikningurinn verður svo gerður upp á endanum.

Ég er á því að hvort sem við ætlum að búa við íslenska krónu eða taka upp annan gjaldmiðil sé þessi agi nauðsynlegur. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við eigum að búa við íslenska krónu, hef marglýst því í ræðustól Alþingis, en við þurfum að koma á aga til að búa til stöðugleika í hagkerfinu.

Ég hef minnst á að það er nauðsynlegt að vera með sveiflur eins og Danir með sinn gjaldmiðil. Svíar sem eru aðilar að Evrópusambandinu kjósa að vera með eigin gjaldmiðil vegna þess að þeir vilja taka á sveiflunum í atvinnulífinu. Af hverju vilja menn takast á við sveiflurnar í hagkerfinu? Jú, til að koma í veg fyrir atvinnuleysi.

Sumum dettur í hug að taka upp evru til að koma á einhvers konar föstu gengi en ég held að þær sveiflur sem óhjákvæmilega yrðu á Íslandi sökum smæðar hagkerfisins og stórra pósta sem sveiflast, því miður, eins og fiskurinn í sjónum og álverð á heimsvísu, gætu leitt til mikils atvinnuleysis. Fyrirtæki verða einhvern veginn að bregðast við minnkandi eftirspurn og þá er eina ráðið að segja upp mannskap meðan gengið er fast.

Svo er eitt sem menn gleyma, því að til að við getum tekið upp evru verðum við að uppfylla hin svokölluðu Maastricht-skilyrði. Við erum því miður ansi langt frá því að uppfylla þau. Við erum með lán langt umfram það sem þykir eðlilegt og Maastricht-skilyrðin gera ráð fyrir. Í raun segja Maastricht-skilyrðin að hér þurfi að komast á mikill agi. Þeir sem eru hlynntir því að ganga í Evrópusambandið ættu að koma hreint fram og viðurkenna að ef eina löngun þeirra er að ná sér í þennan nýja gjaldmiðil er afar langt í að Ísland geti uppfyllt þau skilyrði sem sett eru fyrir inngöngu í gjaldmiðilssamstarfið.

Þá komum við að því sem skiptir öllu máli, því að við þurfum að koma á aga í hagstjórn ríkisins til að geta búið við íslenska krónu. Við getum vel búið við íslenska krónu ef við sammælumst um það. Hvernig náum við því? Jú, eftirlitið með fjárreiðum ríkissjóðs verður að vera skýrt og Alþingi verður að bera traust til þeirra stofnana sem sjá um það hlutverk. Upplýsingar verða að liggja fyrir. Alþingi er ekki með svokallaða rannsóknardeild. Upplýsingadeild Alþingis eins og hún er í dag aflar gagna og upplýsinga fyrir alþingismenn en hún vinnur ekki úr þeim. Í Noregi fær rannsóknarnefnd nafnlausar fyrirspurnir frá alþingismönnum, aflar allra gagna og vinnur úr þeim fyrir þingmenn þannig að allir þingmenn geti séð svart á hvítu á hlutlausan hátt hvernig mál og tölur standa. Menn eru ekki endalaust að rífast um það þar eins og er því miður raunin á Alþingi. Umræðan um fjáraukalög hefur bara snúist um það að við höfum ekki fengið álit frá Ríkisendurskoðun, enginn ráðherra hefur verið kallaður fyrir nefndina og við höfum ekki fengið þau gögn sem minni hlutinn óskaði eftir. Því miður er það veruleikinn.

Það sem skiptir kannski mestu máli er að ramminn utan um fjárlögin sé skýr. Í nýjum fjárreiðulögum skilst mér að það eigi að búa þau þannig úr garði að ramminn verði ákveðinn sérstaklega á vorin. Fyrsta mál Alþingis á hverju hausti er fjárlagafrumvarpið en ef þessi breyting næði í gegn mundum við ákveða rammann að vori. Við mundum takast á um hvort hann ætti að vera meiri eða minni en þegar menn eru búnir að ákveða rammann eins og í Svíþjóð hvarflar ekki að nokkrum þingmanni að lofa fjárheimildum sem færu út fyrir rammann. Það væri merki um ábyrgðarleysi og þætti pólitískt ekki gott að menn lofuðu fjármunum sem einfaldlega væru ekki til.

Ég batt vonir við að fjáraukalög eins og við erum að ræða núna mundu heyra sögunni til. Ég hafði heyrt að það ætti að leggja það til í þessari vinnu þó að við getum að sjálfsögðu kvittað upp á að þegar eitthvað óvænt gerist eigi að vera hægt að veita auknar fjárheimildir í það en það er líka nokkuð sem menn ættu að gera ráð fyrir innan rammans og hafa þá liðinn óvænt útgjöld stærri en hefur verið.

Í Svíþjóð varð hrun fyrir um 20 árum sem í rauninni helgaðist af því að þensla ríkissjóðs var óhófleg, ekki ósvipað því og þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin voru í ríkisstjórn 2007–2009 og byrjuðu á því að auka útgjöld ríkisins um 20%. Það er gaman að geta þess þegar fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sitja í þingsalnum. Ég tel að þetta hafi verið einhver mestu hagstjórnarmistök sögunnar, hvorki meira né minna. Ég veit að ég tek stórt tekið upp í mig en menn vita, t.d. hv. þm. Illugi Gunnarsson sem hefur ýjað að því að menn hefðu kannski séð þetta fyrir að einhverju leyti sem og margir aðrir sjálfstæðismenn, að það var óráðsía að auka útgjöldin í allri þessari miklu þenslu.

Ég man eftir að fulltrúi framsóknarmanna, Bjarni Harðarson, lagði fram tillögur um að útgjöld yrðu ekki aukin. Það var á þeim tíma þegar ríkisstjórnin ætlaði að gera allt fyrir alla en það heyrir væntanlega sögunni til, hv. þingmaður.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Ég hvet félaga mína í fjárlaganefnd eða þá sem vinna að nýju frumvarpi til fjárreiðulaga að koma fram með það. Ég tel mjög mikilvægt að það nái fram að ganga á þessu þingi. Við getum rætt það á vormánuðum og reynt að klára það fyrir kosningar. Nýtt þing ætti að koma að nýju skipulagi. Auðvitað eru einhverjir liðir sem mun taka tíma að innleiða en ef stefnan liggur fyrir held ég að fjárlaganefnd og Alþingi hafi unnið mikið og gott starf, starf sem ég held að flestir þingmenn séu sammála um að sé brýnt. Ég hef trú á að það muni efla vald Alþingis, minnka vald embættismanna, gera eftirlit betra og auka gegnsæi í fjárlagagerðinni. Við þurfum svo sárlega á því að halda.

Við 2. umr. um fjáraukalagafrumvarpið um daginn var talað um að áætlanir ríkisstjórnarinnar um auknar tekjur mundu standast. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það lægi fyrir að tekjuáætlanir ríkissjóðs hefðu staðist og aukin skattheimta hefði skilað tekjum. Í nýjum fjárlögum virðist hins vegar eins og sumir tekjustofnar séu að minnka. Þetta verður til umræðu hérna í næstu viku. Það stendur til að leyfa aftur úttekt á séreignarsparnaði. Ég held að það sé ágætt að við veltum aðeins fyrir okkur hvað við erum að gera þegar við leyfum úttekt á séreignarsparnaði vegna þess að við erum einfaldlega að gera kröfur banka sem ekki eru aðfararhæfar — bankarnir og innheimtumenn hafa ekki haft leyfi til þess að innheimta séreignarsparnað eða sparnað einstaklinga — aðfararhæfar. Stór hluti af þessum séreignarsparnaði fer í að greiða lán í bönkunum. Það sem við erum líka að gera og er áhyggjuefni er að við erum að búa til hagvöxt sem er ekki keyrður áfram af atvinnulífinu og framþróun þess. Við erum ekki að búa til raunverulegan hagvöxt eins og fæst með því að auka atvinnu og efla verðmætasköpun. Það er alvarlegt, virðulegi forseti, ef hagvöxtur í landinu er knúinn áfram af úttektum á séreignarsparnaði og þá einkaneyslu sem helgast af úttektinni á sparnaðinum og kannski hækkunum í kjarasamningum. Þetta mun bitna á komandi kynslóðum, virðulegi forseti.

Við eigum í vanda með þau lán sem Ísland hefur tekið. Vaxtakostnaðurinn er kominn langt úr hófi fram og því miður virðist hann aðeins eiga eftir að aukast ef eitthvað er.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, virðulegi forseti. Eins og áður þakka ég fyrir ágætt samstarf í fjárlaganefnd. Það var góð samvinna um marga hluti og menn hafa reynt að stilla saman strengi eins og hægt er. Ég mundi vilja sjá í framtíðinni að við legðum ekki fram hver sitt nefndarálitið heldur væri bara eitt nefndarálit fyrir alla nefndina þar sem menn gætu verið sammála um einhvern megintexta en komið svo inn athugasemdum um hluti sem þeir væru ósammála um eða kannski með mismunandi túlkun á einstaka lagagreinum. Ég held að þetta mundi einfalda alla vinnu á Alþingi og gera hlutina skýrari og skilmerkilegri fyrir þá sem fylgjast með og þurfa svo að vinna með þau lög sem við sendum frá okkur.