141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

fræðsla í fjármálalæsi.

[15:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um fjármálalæsi ungs fólks og hvernig ráðherrann telji best að skólakerfið bregðist við. Viðfangsefni er að tryggja að ungt fólk sé vel upplýst og hafi góða grunnþekkingu og færni í fjármálalæsi þegar það kemur út í lífið að skyldunámi loknu.

Fjármálalæsi íslensku þjóðarinnar var verulega ábótavant fyrir hrun og ábyrgðarleysi fjármálastofnana í útlánastarfsemi fyrir hrun beindist ekki síst að ungu fólki. Lánað var þótt ekki lægju fyrir upplýsingar um greiðslugetu eða hverjar ábyrgðirnar raunverulega væru með lántöku fólks og var hugsunin sú sem loðað hefur við íslenska þjóðarsál: Þetta reddast.

Samkvæmt rannsóknum fá flestir þekkingu sína á fjármálum frá fjölskyldunni og þar á eftir í gegnum bankana sjálfa og internetið. Þá hefur komið fram í könnunum að meiri hluti svarenda telji sig ekki hafa mikla þekkingu á fjármálum.

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn og hæstv. ráðherra um að virða ræðutíma þess ræðumanns sem er í pontu og hafa einn fund í salnum.)

Ég tel því mikilvægt að við tökum þessi mál föstum tökum og byrjum frá grunni hjá börnum á grunnskólaaldri svo að unga fólkið verði í framtíðinni ábyrgir neytendur. Þá þarf líka að huga að menntun kennara til að sinna því hlutverki. Við búum í neyslusamfélagi sem einkennist um of af áreiti og sölumennsku og er því mikilvægt að ungt fólk og raunar allur almenningur hafi skilning og þekkingu á fjármálahugtökum og eðli fjármála og hvaða fjárhagslegar skuldbindingar geta í raun þýtt.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig er skólakerfið í stakk búið til að taka við fræðslu nemenda í fjármálalæsi og þarf að styrkja menntun kennara til að mæta því hlutverki?

Í öðru lagi: Telur ráðherra að ungmenni séu nægilega varin í lögum gagnvart almennri markaðssetningu og ásókn fjármálafyrirtækja og annarra söluaðila í að gera ungt fólk að virkum neytendum strax í æsku?