141. löggjafarþing — 36. fundur,  19. nóv. 2012.

öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum.

92. mál
[15:50]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um hreina innleiðingu ESB-tilskipunar að ræða. Seðlabankinn benti á í umsögn sinni að nauðsynlegt væri að fara í heildarendurskoðun á lögum um greiðslukerfi en það var ekki gert. Alþingi er enn á ný komið í hlutverk afgreiðslustofnunar fyrir ESB.

Markmiðið með lagabreytingunni sem við erum að fara að greiða atkvæði um er að tryggja heildstæða réttarvernd fyrir notendur greiðslukerfa en engin tilraun er gerð til að tryggja að notendur sem verða fyrir skaða eða töfum á greiðslum fái skaðabætur. Það sem gerðist hérna í hruninu var að mörg fyrirtæki urðu fyrir því frá október 2008 fram í júní 2009 að greiðslur týndust í greiðslukerfi okkar og Evrópusambandsins. Engin þessara fyrirtækja eða einstaklinga hafa fengið skaðabætur og ekki er einu sinni gerð tilraun til að tryggja að svo verði í framtíðinni.

Ég er ósátt við það, frú forseti, að við skulum ekki vera að innleiða löggjöf þar sem við lærum af hruninu.