141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki að ástæðulausu sem ég spyr, þótt yfirleitt teljist það sjálfgefinn hlutur að menn leiti til sérfræðinga þegar verið er að vinna að svona viðamiklum breytingum á stjórnarskránni.

Ég spyr vegna þess að frumvarpið er lagt fram án þess að menn hafi haft fyrir því að leita til þeirra fjölmörgu sérfræðinga sem hafa gert athugasemdir við það og viljað leggja til ýmsar úrbætur. Hvernig stendur á því að frumvarpið er lagt vanreifað fram í stað þess að byrja á því að fara í gegnum hin fjölmörgu álitamál áður? Svo yrði að sjálfsögðu í framhaldinu unnið í frumvarpinu áfram og leitað enn frekari ráðgjafar um þau atriði sem kæmu upp í úrvinnslu nefndarinnar. Hefði ekki verið skynsamlegra að fara í þá vinnu áður en frumvarpið var lagt fram? Ef ekki, hvers vegna? Hvers vegna taldi hv. þingmaður æskilegt að leggja frumvarpið fram án þess að búið væri að fara í þá yfirferð sem svo fjölmargir hafa bent á að væri nauðsynleg?