141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég læt vera að gera athugasemdir við vel þekkt yfirlæti hv. þingmanns, menn þekkja hversu lítil innstæða er fyrir því. En ég ætla að gera athugasemdir við það sem hv. þingmaður sagði um þá vinnu sem hefur farið fram í þinginu við breytingar á stjórnarskrá fram að þessu.

Umræðan virtist byggjast á þeirri gömlu klisju að þingið hefði aldrei getað breytt stjórnarskránni. Það er búið að gera fjölmargar breytingar á stjórnarskránni fram til þessa, örugglega miklu fleiri breytingar en hv. þingmaður gerir sér grein, m.a. mjög umfangsmiklar breytingar á mannréttindakaflanum 1995. Ástæðan fyrir því að ekki náðist samstaða og sátt í þinginu um þá vinnu sem Jón Kristjánsson leiddi á sínum tíma var sú að deilt var um synjunarvald forsetans. Það voru ekki hvað síst Sjálfstæðisflokkur og Samfylking sem deildu um það. Að öðru leyti skilaði sú vinna heilmiklu og vonandi hefur verið tekið tillit til hennar, þess sér stað á nokkrum stöðum í frumvarpi stjórnlagaráðs.

Ég frábið mér þá umræðu sem stjórnarmeirihlutinn á þinginu, eins og hv. þingmaður, hefur viðhaft alveg fram á þennan dag og er ekki til þess fallin að gagnast í þessu máli heldur skemmir bara fyrir því, þ.e. umræðan um það að ef menn gera athugasemdir við vinnubrögðin og fari fram á að unnið verði skynsamlega og vel og faglega að breytingum á stjórnarskrá séu þeir á móti breytingum á stjórnarskránni og þá séu þeir á móti almenningi og á móti lýðræðinu og allt þetta rugl. Við verðum að komast upp úr þessari vitleysisumræðu og fara að ræða um að breytingar á stjórnarskrá gerist faglega, það sé ekki sama hvernig stjórnarskránni er breytt og að menn séu ekkert endilega á móti breytingum þó að þeir vilji vanda til verks.