141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:48]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna aðkomu hv. þm. Péturs Blöndals að þessari umræðu, bæði í dag í þeim ræðum sem hann hefur flutt og ekki síður þátttöku hans í því þegar málið kom inn á síðasta þingi. Ég tiltók það sérstaklega í ræðu minni að hann, einn þingmanna stjórnarandstöðunnar, hefði lagt inn málefnalega efnislega þætti í þá umfjöllun og hann gerði það af miklum myndarskap. Ég hef lesið þau gögn yfir og í þeim eru ýmis atriði sem ég get tekið undir.

Tilvísanir í lagasetningar eru fjölmargar og voru sumar í upphaflegum tillögum stjórnlagaráðs. Það er búið að gera ýmsar lagfæringar og breytingar á því en þar eru ýmis atriði sem er vert að hafa í huga og horfa til varðandi staðfestingu á stjórnarskrá og þau atriði sem þar hafa verið nefnd sérstaklega. Ég tel að það sem verið er að leggja inn í umræðuna með þeim tillögum sé af hinu góða. Ég auglýsti í ræðu minni áðan, og geri það enn og aftur, eftir efnislegum tillögum frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hafa því miður allt of margir komið upp í þessari umræðu nú, ég tala ekki um á fyrri stigum, til þess að eyða tíma sínum fyrst og fremst í formsatriði og umfjöllun um það að illa hafi verið farið með tímann. Ég sé ekki að þeir sömu hv. þingmenn hafi notað tímann sjálfir til mikils gagns nema þá með einstaka undantekningum til að koma fram með þau efnislegu atriði sem við þurfum á að halda til að geta farið saman yfir rök og tillögur um það hvað betur má fara í þessum efnum. Menn geta þá borið það saman við þær áherslur sem eru kynntar í því frumvarpi sem hér er til umræðu.