141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:55]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ábendingar lögfræðinganefndarinnar mjög skynsamlegar hvað þetta snertir. Ég tel fulla ástæðu til að við skoðum málið í heild sinni og náum þannig utan um það. Til að nýta tímann sem best í þeim efnum hafa verið kynntar tillögur um að setja verkefnið í hendur fastanefnda þingsins þannig að hver fastanefnd taki sinn part fyrir og fari ítarlega yfir þá þætti sem að þeim lúta. Þar undir heyra mörg atriði, hvort sem eru umhverfismál, mannréttindi eða kosningalöggjöfin ein og sér og hvernig stjórnkerfið á að virka og staðan gagnvart Alþingi, þannig að ég held að því fleiri sem koma að málinu þeim mun betra sé það einmitt.

Feneyjanefndin mun fara yfir ákveðna álagsþætti, hvernig stjórnkerfið mun virka saman og hefur auðvitað víðtækan samanburð í þeim efnum og þekkir það af sínum störfum í gegnum árin hvernig hún getur lesið út úr þeim efnum. Það liggur fyrir að þeir eru tilbúnir að ljúka sinni vinnu í lok janúar. Það sem ég hins vegar benti á og vara við er að menn mæti í upphafi fyrsta dags í umræðu loksins þegar þetta frumvarp er komið inn. Það var ekki svo lítið gert úr því í allt vor og sumar að ekki væri hægt að ræða málið efnislega í þingsalnum af því að frumvarpið lægi ekki fyrir, það væri í skoðun, yfirferð, mati og undirbúningi einhvers staðar annars staðar en í þingsalnum. Þess vegna hrekkur maður illilega við að þegar málið er komið í frumvarpsformi inn í þingið stilla menn málinu upp á þann veg, eins og ég var að benda á, að eiginlega sé ekki hægt að ræða það í þinginu af því að það þurfi að álagsprófa það, meta, skoða og kanna á alla kanta lengur og áfram áður en hægt er að taka það fyrir. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að stilla málinu upp eins og mönnum hentar. Auðvitað eru menn með þessum hætti að reyna að halda aftur af umræðunni og tefja það að málið fái framgang. Við hljótum að geta komið okkur saman um að vinna þetta sameiginlega (Forseti hringir.) í nefndum þingsins og ná fram þeim heildaráhrifum með slíkri yfirferð og samvinnu.