141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:59]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum togast á um það fram á nótt hvað er heildarmat og hvernig eigi að túlka það og meta. Ég bendi á að mjög gott teymi lögfræðisérfræðinga hefur farið yfir þetta mál og lagt upp þann grunn að stjórnarskránni sem honum var falið að gera. Hann hefur bent á ýmsa þætti sem hann telur sjálfur að þurfi að skoða betur og er vel inni í þeim málum.

Ég leit þannig á að við hefðum tækifæri til þess núna að fara yfirvegað yfir málið, grunda það, kalla hingað inn álit, skoðanir og umsagnir og eiga samtöl við ýmsa sérfræðinga sem hafa tjáð sig um þessi mál í þeim fastanefndum sem ákveðnir málaflokkar falla undir. Við getum dregið saman niðurstöðu úr því inn á eitt borð og haft til ráðgjafar og samráðs í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem mun auðvitað leiða þetta mál, þá sérfræðinga sem hafa verið okkur innan handar og þekkja þetta mál betur en aðrir. Þeir vinna sitt álit og gera mat á því með okkur sem eigum að leiða þetta mál hingað inn til frekari umræðu og afgreiðslu í þinginu. Ég tel að það sé vel gerlegt að ljúka því verki svo vel sé á þeim tíma sem við höfum til stefnu.