141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef margoft lýst yfir áhyggjum af því að því vinnulagi væri beitt varðandi þær stjórnarskrárbreytingar sem hér um ræðir. Það eru margir þættir sem ég hef áhyggjur af í því sambandi, það er of langt mál að fara yfir það, en ég hef frá upphafi þessa máls vakið athygli á því að það væri á margan hátt óráðlegt og ekki góð vinnubrögð að ætla sér að breyta öllu í einu, einfaldlega vegna þess að það gefur okkur miklu erfiðari aðstæður til að fjalla í grunninn um einstök atriði. Ef við værum að fjalla um afmarkaðri atriði í stjórnarskránni ættum við þess kost að fara dýpra í hvert atriði. Ég held að það væri út af fyrir sig betra. Þess vegna hef ég, og kemur kannski engum á óvart, verið þeirrar skoðunar að við ættum frekar að vinna þetta mál út frá því að gera endurbætur á núverandi stjórnarskrá, taka fyrir ákveðna þætti frekar en að fara í að endurskrifa stjórnarskrána frá A til Ö og bæta við fjöldamörgum atriðum. Ég held að það leiði til óvissu á mörgum sviðum og ég er svo sannarlega ekki einn um þá skoðun.

Varðandi hins vegar það vinnulag að verið sé að klippa búta úr mismunandi stjórnarskrám, eins og hv. þingmaður lýsti því, skella þeim saman og bæta svo við atriðum úr einstaka mannréttindasáttmálum er það allt í lagi á fyrri stigum svona verks, þ.e. að sækja hugmyndir annað. Auðvitað er allt í lagi að sækja hugmyndir annað en hins vegar er ekki fullnægjandi rökstuðningur fyrir því að gera einhverja tiltekna breytingu að slíkt ákvæði megi finna í einhverri stjórnarskrá einhvers staðar án þess að það sé hugsað í hvaða samhengi það er. Það eru ekki næg rök fyrir því að setja eitthvað inn í stjórnarskrá Íslands að það standi í stjórnarskrá Suður-Afríku, næsta atriði komi úr stjórnarskrá Kanada og þriðja úr stjórnarskrá Vestur-Þýskalands. (Forseti hringir.) Það er ekki fullnægjandi rökstuðningur en auðvitað gætum við sótt hugmyndir víða.