141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að fyrirbyggja misskilning er ég ekki andvígur hugmyndinni um að jafna atkvæðavægi í landinu, ég hef verið baráttumaður fyrir því á vettvangi míns flokks í langan tíma. Ég hef fyrst og fremst áhyggjur af þeirri útfærslu sem þarna er að finna. Ég held að við getum lent í nokkrum ógöngum með þetta kerfi ef við erum að tala um þessa blöndu af landskjöri og kjördæmakjöri. Ég vildi gjarnan fá skýrari línur í þetta áður en breytingar af þessu tagi eru gerðar, að við áttuðum okkur betur á því hvaða áhrif þær breytingar sem þarna er að finna hafa.

Ég vil hins vegar taka það fram að ég er enginn sérstakur aðdáandi núverandi kjördæmafyrirkomulags og tel að á því séu margir gallar. Ég hef í gegnum árin velt upp ýmsum hugmyndum um aðrar breytingar og jafnvel róttækari á því sem þarna er að finna. Hrifnastur er ég af hugmyndinni um einmenningskjördæmi en ég tel að það sé heldur langt í land að við náum einhverjum slíkum breytingum fram.