141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

íslensk tunga á tölvuöld.

[15:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að vekja þessa umræðu. Ég vil taka það fram að ég var sammála þeirri tillögu sem hann nefndi í upphafi máls síns, tillögunni sem hann bar fram í fyrra, um að Alþingi ræddi þessi mál reglubundið einu sinni ári í tengslum við Dag íslenskrar tungu. Ég held að rétt væri að við kæmum þessu máli í einhvern formlegan farveg þannig að þessi umræða væri ávallt tekin og tengdist þá ályktun Íslenskrar málnefndar eins og hv. þingmaður hefur áður lagt til.

Hann nefndi svokallaðan stafrænan dauða og það er alveg ljóst að á síðustu árum höfum við orðið vitni að stafrænni byltingu, getum við sagt, sem hefur haft gífurleg áhrif á samskipti og samfélag, valdið róttækum breytingum. Frá þessu er til að mynda greint í hvítbókinni Íslensk tunga á stafrænni öld sem er hluti af viðamikilli könnun á stöðu 30 Evróputungumála. Ekki sér fyrir endann á þessum miklu breytingum í stafrænni upplýsinga- og samskiptatækni. Það má kannski líkja þessu við það þegar Gutenberg fann upp prentverkið. Þetta eru svo gríðarlegar breytingar á því hvernig við eigum samskiptin, í gegnum hvaða miðla og með hvaða hætti. Hv. þingmenn þurfa ekki annað en leiða hugann aftur um svona 15 ár til að átta sig á því að allt hefur breyst.

Ég hlustaði á þann ágæta rithöfund Pétur Gunnarsson lesa upp úr nýrri skáldsögu sinni á dögunum. Hann hóf ritun hennar árið 1992 og nú þegar hún kemur út árið 2012 kemur á daginn að það skrifar enginn lengur ávísanir, það notar enginn lengur heimasímann, fólk notar bara tölvupóst, SMS og kort og allt hefur þetta gerist á ekki lengri tíma en þetta. Þetta eru því ótrúlegar breytingar sem við kannski erum ekki alveg meðvituð um í dagsins önn.

Þau 80 tungumál sem við eigum í Evrópu eru, og ég held að það sé óumdeilt, ein ríkulegustu og mikilvægustu menningarverðmæti álfunnar. Þó að tungumál eins og enska og spænska haldi áfram stöðu sinni á hinu stafræna markaðstorgi sökum þess fjölda sem talar þau tungumál gætu mjög mörg evrópsk tungumál horft fram á, ef við getum sagt að tungumál geri það, að missa gagn sitt í næsta netvæddu samfélagi. Samkvæmt nýrri skýrslu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins nálgast 57% evrópskra netnotenda vörur og þjónustu með því að nota annað tungumál en móðurmál sitt þannig að við sjáum alveg hver þróunin er.

Í nýrri evrópskri könnun á stöðu 30 Evróputungumála gagnvart tölvu- og upplýsingatækni kom í ljós að íslenska stendur þar höllum fæti á sviði máltækni. Þegar sú könnun er skoðuð má sjá að þar stöndum við mjög aftarlega með Maltverjum. Auðvitað eru þetta lítil tungumál, málnotendur eru fáir og í skýrslunni má lesa að þeir stærstu og fjölmennustu hafi bestu stöðuna.

Í ályktun Íslenskrar málnefndar er greinargóð lýsing á stöðu íslenskunnar gagnvart tölvu- og upplýsingatækni. Farið er yfir horfurnar og málnefndin leggur til átak til að tryggja framtíð Íslands í stafrænum heimi. Nefnd um íslensku í tölvuheiminum skilaði lokaskýrslu sinni til ráðuneytisins í sumar og þar er líka góð greining á stöðu mála og tillögur um aðgerðir. Auðvitað skiptir máli að fólk sé meðvitað um þessi mál og við höfum sent skólum á öllum skólastigum bréf og hvatt þá til að taka upp stýrikerfi á íslensku í tölvum sínum. En þó að íslenskar þýðingar hafi fengist án endurgjalds fyrir eigendur kerfanna hafa þær ekki fengið þá útbreiðslu sem vænta mætti. Í könnun sem við létum gera hjá öllum grunnskólum landsins kom fram að 70 grunnskólar af 170 nota ekki íslenskt notendaviðmót þó að það sé þeim að endurgjaldslausu. Við munum hins vegar hvetja þá skóla til að leita úrlausna því að það skiptir máli að við venjumst á að hafa íslensku í þeim stafræna búnaði sem við notum dagsdaglega. Aðgerðir til að tryggja þetta snúast kannski að mestu leyti um að sannfæra skólastjórnendur um að skipta yfir í íslenskt viðmót, að það sé ekkert síðra tæknilega. Tungumál í notendaviðmótinu hefur ótvíræð áhrif á málnotkun og hv. þm. Mörður Árnason nefndi hér umdæmisflóttann, þ.e. að ef við hættum að tala um farsímann okkar á íslensku þá glötum við því umdæmi og sama má segja um tölvutæknina.

Svo er það tæknin sem er að ryðja sér til rúms í skólastarfi og ég nefni spjaldtölvur sem eru orðin vinsæl kennslutæki. Við ákváðum að bregðast við því í ráðuneytinu með því að auglýsa sérstaklega styrki til þróunar á rafrænu náms- og kennsluefni á íslensku því að það sem skortir til að mynda í þessum nýju kennslutækjum er bæði að notendaviðmótið sé á íslensku og efnið sé á íslensku sem börnin nota. Það hefur vakið athygli mína að verið var að auglýsa spjaldtölvur og þeim fylgdi kennsluefni á ensku og samkvæmt enskum námskrám. Mér líst ekki á ef það á að verða aðalkennsluefnið í íslenskum skólum.

Síðan er það efling máltækninnar — og nú er tíminn hlaupinn frá mér — en ég tel að það sé eitt af forgangsverkefnum okkar. Hv. þingmaður fór vel yfir stöðuna í þeim málaflokki. Þar vil ég nefna að ég hlýt að horfa til þess að nú er aðeins rýmra um vik í fjármunum á þessu sviði ef næst fram að samþykkja hér nýja fjármuni til markáætlunar (Forseti hringir.) á sviði vísinda og tækni. Það væri áhugavert að heyra sjónarmið (Forseti hringir.) hv. þingmanna, hvort ekki væri unnt að nýta hluta þeirra í rafræna innviði og máltækni.