141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:17]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég óttast helst að formaður nefndarinnar hafi misskilið mál mitt aðeins, ég er ekki að leggja til að bætt verði inn í 2. gr., um að Alþingi fer með löggjafarvaldið, að sveitarstjórnin geri það líka eða eitthvað slíkt. Við eigum ekkert við löggjafarvaldið. Þetta snýst um 3. mgr. 2. gr. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Forseti Íslands, ráðherrar og ríkisstjórn og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið.“

Það er nákvæmlega það sem málið snýst um, sveitarstjórnirnar fara með dágóðan slatta af framkvæmdarvaldinu á Íslandi og mér fyndist ekki til of mikils mælst að þetta litla orð fengi að fara þarna inn þannig að sveitarfélögunum yrði gert hærra undir höfði en verið hefur til þessa í stjórnarskrá Íslands.