141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

heilsutengd þjónusta.

[10:45]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er engu við það að bæta sem ég sagði áðan en ég get tekið undir að ástæða er til að skoða það. Það má segja að eðlilegt sé að málið hafi ekki komið inn á borð hjá mér vegna þess að við höfum verið í dúndrandi niðurskurði og aðlögun og ekki bætt mikið við endurgreiðslur. Sjúkratryggingar hafa heldur ekki niðurgreitt með sama hætti t.d. sálfræðiþjónustu, iðjuþjálfun og annað slíkt, en það er auðvitað engin ástæða til annars en skoða þessar leiðir sem hluta af heilbrigðiskerfi okkar og reyna að leggja mat á hvað af hinum óhefðbundnu eða heildrænu meðferðum, eins og hv. þingmaður kallaði það, eiga rétt á stuðningi.