141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef maður les 111. gr. bókstaflega, sem við hljótum að þurfa að gera, segir þar, með leyfi virðulegs forseta:

„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu.“

Það er með öðrum orðum verið að opna á mjög mikið framsal fullveldis, það er ótvírætt. Þetta hefur oft verið rætt vegna þess að við vitum það ef við gerumst aðilar t.d. að Evrópusambandinu mun það fela í sér fullveldisframsal sem allir eru sammála um að rúmast ekki innan núverandi stjórnarskrár. Þess vegna hafa menn sagt að samhliða aðild að Evrópusambandinu þyrftum við einmitt að gera breytingar á fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar. Hér er það komið. Hér er búið að opna á það.

Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af er það að þetta mál er dálítið óljóst. Í skýringargögnum, þ.e. í athugasemdakaflanum, segir t.d., með leyfi virðulegs forseta:

„Á hinn bóginn verður að ætla að á þessum grundvelli geti verið heimilt að framselja vald til stofnunar …“ Og svo framvegis.

Með öðrum orðum, (Forseti hringir.) þetta er dálítið óljóst að mati þeirra sem skrifuðu athugasemdakaflann sjálfan. Í þessum efnum getur ekkert, má ekkert vera óljóst. (Forseti hringir.) Við verðum að gera þá kröfu að fullveldiskaflinn sé alveg skýr í þessum efnum. (Forseti hringir.)