141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal bara játa að ég hef nokkrar áhyggjur af þessu máli vegna þess að mér hefur fundist viðbrögðin í umræðunni hafa gefið manni tilefni til að hafa áhyggjur af því hvort það verði nokkuð hlustað á gagnstæð sjónarmið. Þá er ég ekki bara að vísa til þess sem við segjum úr ræðustólnum, heldur ekki síður þess sem kemur væntanlega fram í umsögnum þegar þær fara að berast. Þess vegna hef ég nokkrar áhyggjur af þessu.

Við skulum sjá til. Ég vek athygli á því að menn hafa fagnað því að þessi málefnalega umræða fari fram og hún hlýtur þá að leiða til einhverrar niðurstöðu. Stjórnlagaráðsfulltrúinn Þorvaldur Gylfason skrifaði hins vegar í DV 12. nóvember, með leyfi virðulegs forseta:

„Tíminn til efnislegrar umræðu um stjórnarskrármálið er liðinn. […]

Krafan um efnislega umræðu um frumvarpið á Alþingi nú er í reyndinni krafa um að drepa málinu á dreif.“

Þetta er hans sjónarmið. Hann telur með öðrum orðum að við þingmenn höfum ekki rétt á að tala um þessi mál, (Forseti hringir.) að við ættum að þegja um þau, það væri búið að segja það síðasta orð sem þyrfti að segja í þessum efnum. Ég hef litið þannig á að þessu fáránlega sjónarmiði (Forseti hringir.) hafi verið hafnað í umræðunni en menn verða þá að taka sjálfa sig alvarlega og ætlast til þess að þær málefnalegu ábendingar sem (Forseti hringir.) koma fram verði teknar til málefnalegrar athugunar.