141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:38]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að 111. gr. þarf að skoða mjög gaumgæfilega. Eins og hún stendur þarna, og jafnvel með þeim breytingum sem eru komnar frá þessum lögfræðingahópi eða með þeirra viðbótum, er greinin enn of opin og mun opnari en gengur og gerist í okkar nágrannaríkjum. Hún tryggir möguleikana á framsali ríkisvalds en hún tryggir á engan hátt fullveldi þjóðarinnar og það er það sem greinin á að gera.

Eins og ég sagði hér áðan á greinin ekki að snúast um hvernig mögulegt sé að ná því fram að framselja ríkisvald. Hún á að snúast um hvernig mögulegt sé að verja fullveldið þegar kemur að því að við þurfum að gera þjóðréttarlega samninga því að öll ríki þurfa að gera samninga við önnur ríki. Ég treysti því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd muni skoða málið en muni ekki skoða það út frá einhverjum þröngum flokkshagsmunum eins stjórnmálaflokks á Íslandi. Með þröngum flokkshagsmunum á ég við að það verður að opna á þetta í stjórnarskrá vegna þess að Evrópusambandið hefur sent frá sér ályktanir um að það eigi að gera. Það er rétt þó að hv. þm. Lúðvík Geirsson hristi hér hausinn.

Evrópusambandið hefur sent frá sér ályktanir og samþykktir þess efnis að það verði að opna á aukið fullveldisafsal í stjórnarskrá annars sé Evrópusambandsumsóknin strand. Það hefur fyrrverandi og núverandi formaður þess ágæta flokks Samfylkingarinnar líka sagt. Ég treysti því að þess verði gætt og menn ráðist ekki í fullveldisafsal með þessum hætti til að þóknast þröngum, afmörkuðum sjónarmiðum eins stjórnmálaflokks á Íslandi.