141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:35]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru nokkuð margar spurningar en ég skal reyna að svara þeim. Hvað varðar grein Þórodds Bjarnasonar var það leiðrétt strax daginn eftir að sú grein birtist og sýnt fram á að hann hefði einfaldlega rangt fyrir sér. Þorkell Helgason leiðrétti þessa útreikninga hans. Þetta getur ekki skeð. (Gripið fram í.)

Hvað varðar litlu kjördæmin, eins og ég sagði áðan lít ég á mig sem þingmann alls landsins og ég held að með jöfnu vægi atkvæða muni þingmenn einfaldlega taka í auknum mæli upp þau vinnubrögð að menn líti á sig sem þingmenn allrar þjóðarinnar, ég tala nú ekki um ef þetta verður eitthvað í samræmi við svæðaskiptingu sveitarstjórna. Þá munu menn líka vinna saman.

Ég heyri menn oft tala um Reykjavík andspænis landsbyggð, en þeir þingmenn sem tala þannig eru eingöngu þingmenn landsbyggðarinnar. Ég heyri þingmenn höfuðborgarsvæðisins aldrei tala svona. Ég lít á þá orðræðu að hluta til sem tilbúning þingmanna í kjördæmum úti á landi til að reyna að ná endurkjöri og búa sér til einhvern óvin sem heitir höfuðborgarsvæðið. Mér fellur sú umræðuhefð illa.

Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðslur er verið að tala um takmarkanir vegna laga sem stafa af þjóðréttarskuldbindingum, þ.e. Ísland getur ekki gengist undir þjóðréttarskuldbindingar og samið svo lög í kjölfarið og þeim lögum verið kollvarpað. Það þarf að kollvarpa þjóðréttarskuldbindingunum sjálfum. Það er ekkert sem segir að þar á séu takmarkanir. Þetta er einfaldlega til að gera mönnum kleift að undirgangast slíkar skuldbindingar en það má ekki eyðileggja þær vegna þess að lögin sem þurfa að fylgja þeim séu gerð ógild.

Hvað varðar auðlindir og erlenda aðila verður það svar að bíða næsta umgangs ef ég kem því að.