141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningar sínar.

Spurningin um hvort Alþingi getur breytt tillögunni, svarið er í tvennu lagi. Annars vegar er svarið já. Ef Alþingi fær mál til umfjöllunar getur það auðvitað fleygt því, samþykkt það óbreytt eða breytt því eins og því sýnist. Það er ósköp einfaldlega grundvöllur stjórnskipunar í landinu að það sé hægt.

Hins vegar er svarið að Alþingi á helst ekki að breyta miklu í sjötta verkþætti. Það á að láta reyna á rökin og aðferðirnar og forsendurnar í hinum fimm verkþáttunum. Ef Alþingi vill breyta einhverju tel ég að sú breyting eigi fyrst og fremst að vera úr verndarnýtingarflokki í biðflokk eða úr orkunýtingarflokki í biðflokk þannig að menn segi að af ástæðum upplýsingaskorts eða vegna almannahagsmuna, eins og iðnaðarnefnd samþykkti sem ég hygg að hv. þingmaður hafi verið í á þeim tíma, viljum við láta það bíða og athuga það betur. Það er mín afstaða í því. Ég viðurkenni að hún stendur hvergi skýrum stöfum í lögum, en ég tel að hana leiði af því ferli öllu saman.

Í öðru lagi hef ég líka hlustað á hv. þingmann ræða um biðflokkinn og fundið að það eru sameiginlegir tónar í umræðu okkar beggja um það mál þótt við nálgumst það kannski úr ólíkum áttum. Ég vona að við fáum tækifæri til þess að ræða það seinna. Það er smákafli um það í nefndarálitinu sem lýsir að einhverju leyti því sem ég er að hugsa en þetta er nefndarálit sjö þingmanna og ekki eins, svo að auðvitað gat ég ekki tjáð mína hugsun einungis í því.

Um Hólmsárvirkjun, gögnin hafa komið fram en þau hafa ekki verið metin þannig að við getum ósköp einfaldlega ekki kveðið upp úr um hversu góð þau eru. Ég tek undir með hv. þingmanni, þótt það sé kannski á öðrum forsendum, að hin samfélagslegu atriði hafa ekki verið nægilega metin í rammaáætluninni. (Forseti hringir.)