141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi stöðu þjóðarbúsins almennt; skuldastöðu, hagvöxt og annað því um líkt, held ég að þeir sem leggja rammaáætlunina til verða að svara því. Það liggur alveg ljóst fyrir að þetta mun hafa einhver áhrif. Þegar málið kom til umsagnar síðasta vor voru nokkrir aðilar sem skiluðu inn umsögnum um það og gerðu ráð fyrir að þær breytingar sem gerðar hefðu verið mundi ábatinn minnka um 270 milljarða, hagvöxturinn yrði 4–6% minni og það yrði fimm þúsund ársverkum færra. Þeir sem gera þær breytingar verða auðvitað að tala fyrir því hvernig þeir ætla að efla hagvöxt. Það eru möguleikar að gera það á ýmsan hátt, en það hlýtur að vera hlutverk þeirra sem mæla fyrir þeim.

Ég held að það hafi komið skýrt fram í umræðunni að hin faglega nálgun á málið hefði verið skynsamlegri frá upphafi til enda og ég hamra á því sem ég hef sagt hér áður að það að ná sátt milli verndunar og nýtingar kostar eftirgjöf allra aðila, hvaða skoðun sem þeir hafa á þeim málum. Ég hef áhyggjur af því að staðreyndin sé sú að rammaáætlunin sem við erum að samþykkja hér verði einungis til sex mánaða vegna þess að ekki muni nást um hana víðtæk sátt. Það var gripið inn í hana, þess vegna leggur 1. minni hluti reyndar til að þessu máli verði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar og að komið verði fram með þingmál sem byggi á þeirri faglegu vinnu sem verkefnisstjórnin gerði svo vel og allir hafa komið hér inn á að hafi verið faglega unnin, vel unnin og enginn finni neitt að þeirri vinnu.