141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:30]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Eins og ég sagði áðan að jafnvel þótt þessi dýrmætu svæði á Reykjanesskaganum séu ekki sett í bið þar sem þeim ber að vera þá stend ég með þessari niðurstöðu. Ég hef þá tilfinningu að jafnvel meiri hluti þingmanna sé mér sammála innst inni um þetta bara ef fólk er einlægt og hreinskilið í afstöðu sinni og setur allt annað til hliðar.

Þótt breytingartillagan nái ekki fram að ganga, breytingartillaga sem ég styð, um að þessi svæði fari í bið, stend ég samt með niðurstöðunni. Mér er það sárt og mér finnst það mjög erfitt en um leið er það niðurstaða mín að það sé mun betra og heillavænlegra fyrir málaflokkinn í heild sinni að sú niðurstaða standi og rammaáætlun haldi áfram og að við höldum áfram með sömu aðferðafræði og vinnu og bætum í þau mörgu göt sem vissulega eru fyrir hendi og þarf að laga og efla hvað rannsóknir, skilning og þekkingu okkar varðar á svo mörgu sem lýtur að landnýtingu og landi, hvernig við förum fram gagnvart landinu okkar og lifum með því. Ég tel að þetta sé betri niðurstaða og það sé margt sem horfi til framfara og til bóta þarna og að það sé mun skárri niðurstaða en að málið sé fellt. Ég stend því með niðurstöðunni en vonast svo sannarlega eftir því að þingmenn greiði atkvæði samkvæmt hjarta sínu þegar þar að kemur og styðji breytingartillögu sem varðar Reykjanesskagann sérstaklega en einnig hvað varðar ýmis háhitasvæði sem áhöld eru um.