141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

rannsóknarnefndir.

416. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir þetta meðsvar og láta þess getið að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er einn af fyrrverandi varaforsetum þingsins og tók þátt í þeim breytingum á frumvarpi sem hér liggja fyrir. Vil ég fyrir hönd forsætisnefndar þakka þingmanninum það.

Þingmaðurinn spyr um 1. gr., með leyfi forseta:

„Verði nefndarmaður forfallaður eða ef hann getur ekki af öðrum ástæðum sinnt starfinu getur forsætisnefnd skipað annan mann til þess að taka sæti í nefndinni.“

Forseti Alþingis hefur skipað nefndina. Orki það tvímælis og sé annars vegar forsætisnefnd og hins vegar forseti getur verið um mistök að ræða og þá fel ég hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að lesa saman og samræma þannig að það sé í raun forseti þingsins sem skipi starfsmennina komi til þess að einhver forfallist.