141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

tollvernd landbúnaðarafurða í ESB-samningnum.

[10:51]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé óþarflega djúpt í árinni tekið að menn hafi gengið af fundi. Eins og mér var sagt frá þessu þá upplýstu tilteknir nefndarmenn að þeir teldu sig þurfa að ráðgast við sitt bakland um framhald málsins og gætu því ekki haldið áfram fyrr en það hefði verið gert. En það er auðvitað hægt að dramatísera þetta ef menn kjósa svo. Ég er ekki til frásagnar um það hvernig þetta gekk nákvæmlega fyrir sig á þessum téða fundi en svona var þessu lýst fyrir mér, að staða málsins væri einfaldlega sú að þessir nefndarmenn hefðu talið sig þurfa að ráðfæra sig við bakland sitt til að átta sig á því hvaða umboð þeir hefðu þaðan til að halda þessu starfi áfram.

Það hefur engin breyting orðið á því að við viljum standa fast á hagsmunum landbúnaðarins og verja stöðu hans í þessum samningaviðræðum. Ég held að öllu sé samviskusamlega til haga haldið sem dregið hefur verið upp sem mikilvægustu hagsmunamál landbúnaðarins. Þar er tvennt sem hefur sérstaklega haft vægi, það eru vissulega varnarlínur Bændasamtakanna eins og þau hafa mótað þær, en það er þeirra gjörningur, og svo er það auðvitað nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar Alþingis sem ég fullyrði að farið er eftir í einu og öllu og reyndar gengið lengra í sumum tilvikum.

Varðandi tollverndina hefur hún ekki verið gefin eftir heldur þvert á móti er áskilinn réttur til þess að hafa hana með í viðræðunum. Það er tengt þannig saman að tollamálin eru á einum stað og landbúnaðarmálin á öðrum og í drögum að samningsafstöðu er því lýst yfir af hálfu samninganefndar að þessu tvennu þurfi að ljúka saman, ekki sé hægt að loka öðrum kaflanum fyrr en niðurstaða í heild liggi fyrir. Ísland áskilur sér rétt til þess að taka tollverndarmálin upp hvenær sem er háð því hvernig viðræðum miðar um landbúnaðarkaflann.