141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, fór yfir breytingartillögur meiri hlutans varðandi fjárlagafrumvarpið fyrir 2. umr. Ég saknaði þess nokkuð að heyra ekki minnst meira á lögreglumálin en gert var í því yfirliti hans. Einungis var nefnt að um nokkurt framlag væri að ræða til lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt þá hafa málefni lögreglunnar og fjárskortur hennar verið til umræðu á þinginu í allt haust og raunar miklu lengur. Fyrir liggja skýrslur sem sýna verulega fjárþörf, trúlega sem nemur hundruðum milljóna, sem nauðsynlegt er að bæta í starfsemi lögreglunnar til að hún geti sinnt sínu grundvallarhlutverki.

Þess vegna saknaði ég þess að hv. þingmaður nefndi þetta ekki og þess að það skyldi ekki koma fram í breytingartillögum nú við 2. umr. málsins.