141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja í upphafi ræðu minnar að það er alltaf sama stemningin þegar við erum að ræða fjárlögin. Hér eru einungis örfáir hv. þingmenn í salnum og ég hef ekki orðið var við einn einasta hæstv. ráðherra við umræðuna í dag. Það er kannski spurning um … (BjörgvS: Fjármálaráðherra var hérna áðan.) Ég held að það væri hugsanlega æskilegt að hafa mætingarskyldu hér þegar verið er að ræða þessi mál.

Ég verð þá að segja í upphafi máls míns að ég hef dálitlar áhyggjur eins og hefur oft komið fram þegar ég ræði fjármál ríkisins. Miðað við þær ræður sem hv. stjórnarliðar hafa flutt í dag verð ég að viðurkenna að mér finnst að menn geri heldur lítið úr vandanum fram undan. Þeir hafa sagt að hér sé niðurskurði lokið og viðspyrnu náð og ekkert nema hagsæld og blóm í haga fram undan. Það er því miður ekki þannig, a.m.k. ekki að mínu mati. Ég hef af þessu töluverðar áhyggjur. Ég geri mér ekki grein fyrir hvort þessir hv. þingmenn fluttu ræður sínar af svona mikilli innlifun eða eru bara að að fara að ganga til kosninga. Trúa þeir þessu í raun og veru?

Hér erum við að ræða fjárlagafrumvarpið við 2. umr. og það hefur komið fram að það standi til að klára 3. umr. í næstu viku, jafnvel hefur verið talað um miðvikudaginn sem ég lít á sem hálfgerðan brandara. En hvað um það, það vantar tekjuhlið frumvarpsins. Þær breytingar sem þarf að gera á tekjuhliðinni hafa ekki verið lagðar fram, ekki einu sinni sem þingskjal. Ég hefði helst viljað að við færum ekki aftur inn í þá umræðu sem við áttum í fyrrahaust um að tekjuhlið frumvarpsins hefði ekki verið skoðuð vegna þess að menn vissu ekki hver átti að gera það eftir að þingskapalögunum var breytt. Mjög skiptar skoðanir voru uppi um það. Það eru ekki boðleg vinnubrögð. Ég gekk út frá því sem vísu að við þyrftum ekki að deila um það við þessi fjárlög líka. Það er mjög dapurlegt. Síðan hefur komið fram í fréttum, eins og allir vita, að jafnvel sé ekki stuðningur við sumar af þeim tekjutillögum sem er ætlað að standa undir þeim útgjöldum sem hér er verið að ræða. Það kannski segir allt um þá virðingu sem borin er fyrir þessari vinnu.

Ég hef áhyggjur af því hvernig sumir hverjir hæstv. stjórnarliðar tala. Í andsvörum við mig hélt hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson því fram að við gætum verið bjartsýn. Fleiri hafa talað á sömu nótum og hafa ekki sparað stóru orðin. Þingmaðurinn segir að árangurinn blasi við þegar menn lesa frumvarpið og síðan sé niðurskurðartímabilinu lokið og viðspyrnan hafin. Þá langar mig að setja okkur aðeins inn í núið eins og maður segir stundum, þá stöðu sem er núna í einu sveitarfélagi, Snæfellsbæ. Þannig er málum háttað þar núna, í tæplega 1.800 manna sveitarfélagi, að heilsugæslustöðin er lokuð aðra hverja helgi. Er það vegna þess að verið sé að spara mjög stórar upphæðir? Nei, ég held að það sé ekki vegna þess. Það mun ekki spara mjög stórar upphæðir að loka heilsugæslustöðinni aðra hverja helgi. Þetta segir mér þvert á móti að forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands séu búnir að leita það mikið í heystakknum að ekkert sé orðið eftir. Það er í raun farið að skrapa niður fyrir botninn. Íbúum Snæfellsbæjar er gert að sækja heilsugæslu til Grundarfjarðar aðra hverja helgi. Það vantar ekki að það er góð heilsugæslustöð á Grundarfirði, það er ekkert að henni, en sú um það bil 30 kílómetra vegalengd sem þarf að fara er því miður oft ófær og veður válynd. Ég spyr mig og hef verið spurður hvernig í ósköpunum standi á þessu, hvort fólk á hinu háa Alþingi sé orðið endanlega vitlaust. Ég hef engin svör nema að stjórnarmeirihlutinn er að taka kolvitlausar ákvarðanir. Það er hið augljósa svar, það gefur augaleið.

Ég held að fólk þurfi eiginlega að líta svo til að þeir sem búa úti á landsbyggðinni, eins og í þessu sveitarfélagi, séu einhvers konar vinnudýr fyrir ríkissjóð. Það þarf að skapa tekjur fyrir ríkissjóð, skaffa gjaldeyri, og þarna er fólkið sem gerir það. En það fær ekki grunnþjónustu, það er ekki nógu gott til þess. Nei, það fólk skal bara skapa gjaldeyrinn, fara út á sjó, veiða fiskinn, vinna hann og skapa gjaldeyri. Síðan á hann að koma hingað í hítina. Það eru þau skilaboð sem felast í svona tillögu, niðurskurði og staðreyndum eins og þær blasa við fólki. Það er ekkert annað.

Á sama tíma eru tekin nokkur hundruð milljóna út úr sveitarfélaginu í svokölluðu auðlindagjaldi eða umframhagnaði í sjávarútvegi. Þetta eru ömurleg skilaboð inn í svona samfélag. Það er gert ráð fyrir því að á þessari heilsugæslustöð séu tveir starfandi læknar en núna er hún bara lokuð aðra hverja helgi. Svo koma hv. stjórnarliðar og segja: Þetta blasir við, hér er árangurinn, hér er jafnaðarstefnan, hér er réttlætið, við erum að verja barnafjölskyldurnar í landinu. Ég skil þetta ekki og þarf frekari útskýringar á því þegar verkin eru með þessum hætti. Það er óskiljanlegt að gera þetta svona.

Við vitum alveg hvað það þýðir að senda svona skilaboð inn í þessi samfélög, að þau eigi ekki einu sinni rétt á grunnþjónustunni. Fólk spyr: Ef við fáum ekki grunnþjónustu, hvaða þjónustu fáum við þá? Af þessu hafa hv. stjórnarliðar hreykt sér. Þetta eru verkin. Svo segja hv. stjórnarliðar: Hér er hin mikla fjárfestingaráætlun. Hér eru verkin sem tala.

Ég bið einhvern hv. stjórnarliða að koma hingað upp og svara mér spurningunni um hvernig hægt er að leggja í að byggja Hús íslenskra fræða fyrir tæpa 4 milljarða kr. á sama tíma og verið er að vinna svona verk. Eða að setja upp náttúruminjasýningu fyrir 500 millj. kr. (Gripið fram í: Þið eruð alltaf að biðja um hana.) Það er alveg furðulegt. Ég hvet hv. þingmenn til að flytja sérræðu til að reyna að útskýra hvernig þetta getur verið norræn velferð eða jöfnuður. (Gripið fram í.) Ég skil það ekki, því miður, og ég held að það skilji ekki nokkur heilvita maður.

Það væri líka ágætt að rifja upp síðustu verkin sem voru gerð þegar menn lokuðu E-deildinni á Akranesi í fyrrahaust, ráku þar 25 konur út úr húsinu. Þannig eru verkin og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir hv. stjórnarliða að gera sér grein fyrir því. Það er sama hvað er sagt hér, það er tekið eftir því sem er gert. Þess vegna hvet ég hv. stjórnarliða til að fara yfir þetta milli 2. og 3. umr. til að bregðast við þeim hættum sem steðja að í grunnþjónustu landsins.

Verkefnið fram undan er gríðarlega mikilvægt. Við drögum það upp í nefndarálitinu frá 1. minni hluta og ég mun auðvitað fara yfir einstaka kafla. Ég lít á verkefnið sem mjög brýnt og mjög stórt. Menn getur greint á um hvort náðst hafi svona mikill árangur eða aðeins minni árangur eða aðeins meiri árangur. Ég vil helst komast upp úr þessum pólitísku hjólförum og ræða verkefnið fram undan, eingöngu verkefnið fram undan sem er yfirskuldsettur ríkissjóður með gríðarlega miklum vaxtagreiðslum sem munu á næsta ári nema um 84 milljörðum. Það er þriðji stærsti útgjaldaliður fjárlaga. Þar fyrir utan eru öll önnur verkefni sem snúa að gjaldeyrisjöfnuði o.fl. Þess vegna er ég og hef verið með ákveðið ákall um að við stígum upp úr þessum hjólförum sem við höfum verið í og snúum okkur að því að leysa þennan brýna og mikla vanda áður en við höldum fagurgalaræður um hvað hafi verið gert vel og hvað ekki. Mín persónulega skoðun er að mönnum ætti að vera skylt að takast á við skuldsetningu ríkissjóðs og verkefnin fram undan þverpólitískt. Það er eina vitið. Og ekki bara það, auðvitað þarf að fá fleiri að því verkefni, hvort sem það eru Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands eða aðrir aðilar sem nauðsynlegt er að fá í þetta verkefni.

Gjaldeyrisjöfnuðurinn dregst mjög mikið saman, hann minnkaði um 40% á einu ári. Við erum með 48 milljarða í afgang og ég spyr: Hvernig ætlum við að standa skil á öllum þessum útgreiðslum á gjaldeyri? Það eru um það bil 3 þús. milljarðar í eigu erlendra kröfuhafa, tæplega 2 þús. milljarðar til í gjaldeyri og 1.200 milljarðar í svokölluðum jöklabréfum. Það hefur verið í umræðunni á undanförnum dögum að það verður vandasamt að leysa þennan vanda en það verður að sjálfsögðu að gera það. Þess vegna segi ég: Við megum ekki detta í þann farveg að pexa og rexa um hvort árangurinn hafi verið örlítið meiri eða minni nema menn ætli að ganga út í vorið og kosningar til að berja sér á brjóst. Ég hræðist mjög að það sé með þeim hætti.

Af því að ég á sæti í hv. fjárlaganefnd er ég mjög hugsi yfir því að ég hafi heyrt það fyrst í fréttum þegar seðlabankastjórinn sagði að það væri gríðarlega mikilvægt hvernig haldið yrði á greiðslum út úr skiptingu á þrotabúinu í gömlu bönkunum. Það er hárrétt og gefur augaleið en þegar menn tala um að það ógni fjármálastöðugleika landsins og forustumenn í Seðlabankanum segja að hafa þurfi áhyggjur af því er maður auðvitað mjög hugsi yfir því að hv. þingmenn í fjárlaganefnd þurfi að heyra það í fréttum, að menn skuli aldrei hafa komið fyrir hv. fjárlaganefnd til að gera henni grein fyrir þessari stöðu eða ræða hana á nokkurn hátt. Þessi vinnubrögð verðum við að leggja af.

Ég veit eiginlega ekki hvernig þetta fer fram því að nú starfar svokallaður ríkisfjármálahópur. Ég veit ekki hvort hann er í einhverri samvinnu við Seðlabankann um það hvernig staðið er að þessu, en eins og maður getur skilið þetta er það algjörlega í höndum Seðlabankans. Þegar þessi verkefni eru hugsanlega ekki unnin í mjög nánu sambandi við stjórnvöld veltir maður auðvitað fyrir sér hvernig þetta sé. Þau eru að minnsta kosti ekki unnin í nánu samstarfi við hv. fjárlaganefnd. Það getur vel verið að málin séu rædd við hæstv. ríkisstjórn, en hvert er þá hlutverk hv. fjárlaganefndarmanna? Hvað þurfa þeir að fara djúpt í málin og hvað eiga þeir að bera inn í þingið? Ég verð að viðurkenna, og geri það fúslega, að ég átta mig ekki alveg á heildarmyndinni. Ég vona að ekki sé gerð krafa um það miðað við þær upplýsingar sem við höfum að við skiljum heildarmyndina. Við verðum að ræða þessi mál af skynsemi í stað þess að vera með upphrópanir.

Ég tel það líka skyldu okkar að snúa bökum saman til að ráðast í þessi verkefni og vinna þau faglega. Það er mín skoðun að hér mætti taka mjög góðan tíma til að fela hv. fjárlaganefnd að vinna að þessum verkefnum í nánu samstarfi við stjórnvöld og kalla líka aðra að. Skammtímaminnið er dálítið — eða ég veit ekki hvað maður á að segja, það er eins og menn þurfi ekki að fara nema yfir ein, tvenn áramót og þá eru þeir búnir að gleyma því sem hafði gerst á undan. Ég sagði í umræðunni um fjáraukalögin að það kæmi mér ekkert sérstaklega á óvart að eftir tvö, þrjú ár, eða eitt ár jafnvel, yrði hér annað hrun.

Ég verð þá að segja, svo ég snúi mér að einstaka atriðum í frumvarpinu sjálfu, að það er mjög sérkennilegt að við erum með mjög stór mál sem eiga eftir að koma til 3. umr. Svo öllu sé til haga haldið hefur verið haldinn einn fundur í hv. fjárlaganefnd til að fara yfir málefni Íbúðalánasjóðs og það er búið að boða fund í fyrramálið til að fara frekar yfir þau. Það er auðsjáanlega mál sem kemur inn við 3. umr.

Ég geri athugasemdir við að Íbúðalánasjóður skuli vera búinn að vera í sambandi við velferðarráðuneytið í tæpt ár til að gera grein fyrir vanda sjóðsins en að ekkert hafi gerst í málinu fyrr en skipaður var starfshópur í september. Við erum búin að vera með bréf frá sjóðnum í hv. fjárlaganefnd í mjög langan tíma þar sem varað er við öllum þessum hlutum, að lánshæfismatið verði fellt og allt þetta, en síðan er einhvern veginn ekkert gert í því og það er tekið á því með krampaköstum. (SER: Það var settur peningur inn.) Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kallar: Það var settur peningur inn. Það hefur ekki verið settur peningur inn í Íbúðalánasjóð síðan 2010, um 33 milljarðar, en bréfið frá Íbúðalánasjóði sem ég er að vitna í er síðan í desember 2011. Bréfið sem hv. fjárlaganefnd fékk er síðan í júlí í sumar þannig að allir hafa verið meðvitaðir um þetta. Það er mjög umhugsunarvert hvernig stendur á því að við skulum þurfa að gera þetta í þessu krampakasti. Ég hefði talið eðlilegra og æskilegra að vinna það með mun meiri fyrirvara þannig að við hefðum rýmri tíma.

Það er auðséð að það vantar inn miklu fleiri hluti en þessa. Menn eru að ræða þá sín á milli. Það hefur að minnsta kosti verið reynt á undanförnum árum, það getur hafa verið áður fyrr en ég þekki það ekki, að menn hafi litið á 3. umr. fjárlaga sem einhvers konar uppsóp, að öll stærstu og þyngstu málin væru komin í gegnum 2. umr. sem væri þunga umræðan og 3. umr. væri frekar uppsóp, eins og stundum hefur verið sagt, með fullri virðingu fyrir þeim verkefnum sem þar koma inn. En því er ekki þannig háttað núna. Við erum hér við 2. umr. og það eru ekki einu sinni komnar fram þær breytingar sem þarf að gera á tekjuhlutanum. Og í fréttum hefur komið fram að jafnvel hluti af því öllu sé í uppnámi.

Síðan skulum við fara í það sem snýr að því sem auðsjáanlega vantar líka, eins og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það er hægt að telja upp endalaust, t.d. lögregluna, og margt hefur meira að segja komið fram í umræðunni í dag sem þarf að koma inn í fjárlögin. Auðvitað hefði verið betra að það hefði verið gert fyrr. Löggæslumálin eru dæmi um mál sem hafa verið rædd við nokkrar umræður, meira að segja ekki í eintölu heldur fleirtölu. Það hefði auðvitað verið betra að ræða fyrr um stöðu lögreglunnar.

Síðan eru líka teikn á lofti sem geta haft áhrif á að þetta gangi eftir eins og við vonumst til. Það kemur fram í varnaðarorðum þeirra sem hafa verið með hagvaxtarspána, hvort heldur sem það er Seðlabankinn, Alþýðusambandið eða Hagstofan. Það sem er merkilegt við það og blasir við er að alltaf er verið að draga úr væntingunum, það er alltaf verið að minnka, alveg sama hvort við förum í árið í fyrra eða núna, hagvaxtarspárnar eru alltaf réttar aðeins aftur til baka þegar frá líður, þegar spáin er endurskoðuð.

Það er áhyggjuefni sem óþarft er að gera lítið úr að hagvöxturinn er drifinn mikið áfram á einkaneyslu og þessum litlu fjárfestingum sem fram undan eru. Það þarf ekki að rífast mikið um það nema menn vilji vera í einhverjum pólitískum debatt um að auðvitað væri miklu skynsamlegra og betra ef hagvöxturinn stafaði af atvinnusköpun. Það segir sig sjálft, auðvitað vita það allir. Við erum að ganga á framtíðarsparnaðinn. Við erum nú þegar búin að taka um 80 milljarða út úr séreignarsparnaðinum og nú er ein af tekjutillögunum að opna aftur á úttekt séreignarsparnaðar frá og með 1. janúar 2013. Það segir okkur að við erum að ganga á framtíðartekjur ríkissjóðs.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er að spá í það að ég er hér með mjög þykka bunka og er enn á fyrstu síðu. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, ég á eftir að halda nokkuð margar ræður.

Það er gríðarlega mikilvægt að við tölum um þessa hluti og þess vegna sagði ég áðan að það væri að mínu mati lífsnauðsynlegt að menn settust niður og færu yfir málið. Þó tek ég undir það sem kemur fram í varnaðarorðum Seðlabankans. Ég hef sagt áður að ég held að það sé mjög mikilvægt að Alþingi setji sér fjármálareglur. Þá er ég ekki að tala um akkúrat þennan stjórnarmeirihluta eða einhvern annan, það skiptir bara engu máli. Ég held að við verðum að setja okkur ákveðnar reglur, við verðum að fara að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Ég hef áhyggjur af því að það er ekki verið að hugsa um það, það blasir við manni hér. Í umræðum um fjárlögin er alltaf verið að tala um að þegar heildarjöfnuði verður náð verði áfanganum náð. Það er mikilvægt skref, en þá erum við ekki farin að ræða neitt um að við þurfum að hafa jákvæðan heildarjöfnuð til að geta farið að greiða niður skuldirnar. Það er gríðarlega mikilvægt.

Þetta er það sem Alþingi setti sjálft í hendur sveitarfélaganna. Mér finnst hljóðið hafa batnað í mörgum sveitarstjórnarmanninum sem ég hef heyrt í eftir að fjármálareglurnar voru settar. Efasemdir þeirra sem höfðu þær mestar finnst mér hafa minnkað mjög mikið. Í fyrsta lagi er markmiðið að veita aðhald. Í öðru lagi veitir þetta líka ákveðna vernd. Þetta gerir mun meiri kröfur til hv. þingmanna um að raða inn í rammann. Það á að ákveða að það eigi að vera þetta mikill afgangur af ríkissjóði og síðan verða menn bara að raða inn í rammann. Það er krefjandi verkefni án þess að ég sé að gera neitt lítið úr þeim verkefnum sem hafa verið unnin, það má ekki skilja mig þannig. Ég tek heils hugar undir þetta af því að það kemur fram hjá Seðlabankanum að hann hafi áhyggjur af þessu, það séu að koma kosningar og það sé slaki. Síðan varar bankinn við, eins og ég rakti áðan, ákveðnum þáttum. Það eru markaðsmál í Evrópu og þar fram eftir götunum sem ég ætla ekki að eyða tíma í að telja upp hér. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því.

Í sambandi við gjaldeyrisjöfnuðinn kom ég aðeins inn á það áðan hvernig við eigum að standa skil á öllum þessum gjaldeyri. Ég hefði talið það mjög eðlileg og æskileg vinnubrögð að hv. fjárlaganefnd væri upplýst um það nákvæmlega og það yrði unnið í meira samstarfi við þingið eins og mörg önnur mál. Framkvæmdarvaldið matar þingið allt of mikið. Við eigum að vera miklu sjálfstæðari. Við höfum sýnt ákveðið frumkvæði í hv. fjárlaganefnd og eflaust í fleiri nefndum. Ég þekki bara til þar enda á ég bara sæti í henni. Þar höfum við sýnt ákveðna samstöðu og ákveðið frumkvæði og við þurfum að þróa það frekar. Það er komið að þeim tímapunkti að það sé ekki nóg að tala um að gera breytingarnar heldur fari þær að sjást í framkvæmd, meira en verið hefur.

Við sjáum aðvaranir frá mörgum, síðast í blöðunum í morgun, um það hve margir hafa áhyggjur af þessum gjaldeyrisjöfnuði. Þetta höfum við til að mynda ekkert rætt eða stúderað að ráði í hv. fjárlaganefnd. Við hefðum átt að gera miklu meira af því. Við sjáum að sérfræðingar á þessu sviði tala um að við þurfum að gera samninga um að þrotabúin fái hugsanlega bara greitt út í íslenskum krónum og gjaldeyririnn verði færður inn í Seðlabankann með afföllum þannig að menn eru að fara yfir þessi vandamál.

Síðan verðum við að vara við því, því að það er reynslan, hinn blákaldi veruleiki, að á undanförnum tveimur árum — ég skal ekkert fara aftar, tökum bara síðustu tvö ár þar sem við erum að ræða fjárlög — hef ég orðið að líta þannig á að fjárlög séu í raun bara væntingar. Ákveðinn halli er innbyggður í fjárlögin og við vitum af honum. Hann er ekki leiðréttur, það eru mörg dæmi um það, upp á marga milljarða. Hallinn er byggður inn í fjárlög og ekki tekið á honum. Síðan kemur það fram í ríkisreikningi þegar hann verður birtur. Tökum bara tvö síðustu ár. Þegar meira að segja var búið að samþykkja fjáraukalögin í lok hvors árs, bæði 2010 og 2011, var gert ráð fyrir því að á árinu 2011 yrði hallinn 46 milljarðar. Niðurstaðan varð 90 milljarðar. Á árinu 2010 var gert ráð fyrir að hallinn yrði 70 milljarðar. Hann varð 123 milljarðar. Þetta eru engar smátölur og það má ekkert bregða út af. Við sjáum það í þróuninni. Það kemur mjög skýrt fram í áliti 1. minni hluta hvernig vaxtajöfnuðurinn er að breytast, þ.e. mismunurinn á milli vaxtatekna og vaxtagjalda. Hann var 46 milljarðar á árinu 2011. Hann fer á árinu 2012 í 55 og á næsta ári fer hann í 63 milljarða en samt erum við í skjóli gjaldeyrishafta. Vextir á hinum alþjóðlega markaði eru líka í algeru lágmarki, a.m.k. mjög lágir.

Það er mjög mikilvægt að átta sig á skuldsetningu ríkissjóðs. Nú skuldar ríkissjóður með lífeyrisskuldbindingum upp undir 2.000 milljarða og skuldirnar eru að aukast. Það sjá allir, vita og eiga að vita að örlítil hreyfing er ekkert smáræði. Það hleypur strax á milljörðum og jafnvel tugum milljarða. Hvað þarf að gera þá? Skera niður eða reyna að auka tekjur. Það liggur alveg fyrir, mjög lítil hreyfing færir þessa tölu alveg svakalega. Þess vegna verðum við og eigum að taka á þessu.

Síðan verða menn að átta sig á því að þegar skuldir ríkissjóðs eru komnar í 1.900 milljarða með lífeyrisskuldbindingunum þýða örlitlar breytur mjög háar upphæðir.

Síðan geta menn pexað og rexað um hvort skynsamlegt hafi verið að fresta jöfnuði í ríkisfjármálum um eitt ár. Ég lít svo á að það hafi verið mistök en verð að segja að mér finnst að við eigum að horfa á það eitt sem er fram undan. Hættum að pexa um það sem er liðið, gerum okkur grein fyrir fjallinu fram undan og hugsum um hvernig við ætlum að klífa það. Hættum að rífast um hvort ríkisstjórnin hafi farið ranga leið eða rétta leið, við erum bara stödd hérna og horfum á þetta verkefni sameiginlega. Þetta er ekki ríkissjóður Samfylkingar og Vinstri grænna eða einhverra annarra, þetta er ríkissjóður okkar allra. Síðan geta menn pexað og rexað um það. Varnaðarorð hjá þeim aðilum sem ég nefndi áðan sem gera hagvaxtarspána eru eðlilega bara vegna ástandsins á hinum erlendu mörkuðum. Við sjáum til að mynda það sem er að gerast í Evrópu. Við heyrðum síðast í gær frétt um 20% verðlækkun á þorski. Hvaða áhrif hefur það? Margir hafa sagt að svokölluð sjávarútvegsvísitala eða viðmiðin sem eru tengd við sjávarútveginn í hagspá Hagstofunnar séu allt of há.

Síðan kemur annað til viðbótar, á sama tíma eru Norðmenn að bæta við veiðiheimildir sínar í þorski sem eru jafnmikið og heildarkvóti Íslendinga. Á síðasta ári gerðu þeir nánast það sama. Það segir sig sjálft að það er að koma miklu meira magn plús að markaðsaðstæður eru að verða erfiðari. Auðvitað eru samt sóknarfæri. Ég held ekki öðru fram. Það má ekki skilja mig þannig að það sé bara svart fram undan. Ég er að reyna að fá umræðu um það hvert verkefnið er og við eigum ekki að pexa og rexa um þetta með þessum pólitíska hætti.

Ég er búinn að fara yfir það sem snýr að hagvaxtarspánni og varnaðarorðunum í henni. Síðan er það sem kom fram áðan í andsvörum hv. þingmanna og hefur verið bent á. Það kom líka mjög skýrt fram á fundi fjárlaganefndar þegar forustumenn í Norðurþingi komu á fund fjárlaganefndar. Það er ákveðinn grunnur í hagvaxtarspánni um uppbyggingu í stóriðju, þar á meðal að sjálfsögðu á Bakka eins og allir vita. Það vantar 2,6 milljarða af hálfu ríkisins til að sveitarfélagið geti skrifað undir samningana í vor. Það verður ekki skrifað undir samningana öðruvísi. Þessu var mjög skýrt komið á framfæri í hv. fjárlaganefnd. Það er enginn vafi og ég meira að segja spurði um það sérstaklega þannig að ég væri alveg öruggur á því. Og það var alveg skýrt, sveitarfélagið mun ekki skrifa undir neina samninga nema þetta verði tryggt sem vantar inn í innviðina. Það er alveg klárt. En það er grunnur og stoð í hagvaxtarspánni.

Ég talaði í upphafi um hvernig eiginlega væri litið á, eins og ég sæi það fyrir mér og margir aðrir, suma staði á landsbyggðinni og jafnvel alla, að þar væru í raun og veru vinnudýr til að skapa gjaldeyri. Núna virðist manni að það sé verið að leita í allar holur, að með því að breyta eignasölunni og arðsölunni sé farið að leita í allar holur. Ég hef það á tilfinningunni að það verði að ná aðeins meiru hér og miklu þar og meira að segja var farið inn í Orkubú Vestfjarða og þar teknar út 60 milljónir. Við vitum hvert þetta fer, það blasir við okkur, það fer út í raforkuverðið, gefur augaleið. Þó að það sé kannski ekki arðgreiðslunni út úr þessu að kenna er Landsnet að fara að hækka verðskrána á sama tíma. 10% af þjóðinni búa við þau skilyrði að borga upp undir þrefalt meira en þeir sem búa við gjaldskrá hitaveitunnar sem er dálítið sérkennilegt þegar maður fer að skoða það. Það eru Vestfirðingar sem versla við Orkubú Vestfjarða. Leikum okkur aðeins að því að setja þetta í tölulegt samhengi. Ef maður tekur Rafmagnsveitur ríkisins annars vegar og Orkubú Vestfjarða hins vegar þýðir þetta gjald upp á tæpar 7 þús. kr. á hvern íbúa á Vestfjörðum en þetta er mun lægra á Stór-Reykjavíkursvæðinu, innan við 1 þús. kr. Það sjást alveg förin á þessu.

Síðan verð ég að segja að ég gef ekki mikið fyrir þessa fjárfestingaráætlun. Ég deili ekki á verkefnin sem slík, þetta eru allt ágætisverkefni, en á meðan erum við með ástandið sums staðar í ólestri. Við þurfum meiri grunnþjónustu og ég nefndi dæmi sem ég þekki vel úr mínum heimabæ þar sem þarf að loka heilsugæslustöðinni aðra hverja helgi og fólki er gert að sækja þjónustuna þar sem stundum er því miður ófært vegna vályndra veðurskilyrða. Þar þarf að fara veg sem liggur hátt.

Á sama tíma byggjum við Hús íslenskra fræða fyrir 3,4 eða 3,7 milljarða. Það kom fram á fundi fjárlaganefndar að kostnaðurinn væri áætlaður 3,4, það væru 2,4 úr ríkissjóði og 1 úr happdrættinu sem má kalla eitt og hið sama, en síðan væru áhöld um 300 milljónir í undirbúningskostnað sem væru viðbótarkostnaður. Við erum að tala um 3,7 milljarða. Þetta er kapítuli út af fyrir sig og ég held að við höfum, því miður, ekki efni á að fara í svona framkvæmdir núna. Það mun ekkert gerast þótt við frestum þessari byggingu um eitt ár eða tvö. Það mun ekkert gerast. En mun alvarlegri hlutir geta gerst ef við byggjum ekki innviðina. Það eru ekki pólitískar deilur um að reyna að hlífa velferðarþjónustunni. Markmiðin sem eru skrifuð inn í fjárlögin um jöfnuðinn í ríkisfjármálum eru þannig að ekki verður hvikað frá þeim en það er strax farið að gera það þó að það standi pósitíft ákvæði í fjárlögunum.

Það er ekki talað um reksturinn.

Svo á að fara að setja upp sýningu fyrir Náttúruminjasafn Íslands fyrir 500 milljónir. Á sama tíma erum við að fjalla um það hér að það verði að bæta við framlögin til Hörpu. Síðan kemur skýringin að setja þurfi upp sýninguna og svo á aðgangseyririnn að standa undir rekstrinum. Næsta tillaga þar á eftir er um að bæta nokkrum hundruðum milljóna inn í Hörpu. Ég spyr mig bara: Getum við alltaf sett hendurnar einhvern veginn fyrir bæði augun? Ég er mjög hugsi yfir þessu.

Virðulegi forseti. Ég sé að það gengur mjög hratt á tíma minn en mig langar að fjalla aðeins um svokallaða safnliði. Þar varð ég fyrir afskaplega miklum vonbrigðum og ég verð að játa mig sigraðan. Ég hafði rangt fyrir mér. Sú ákvörðun var tekin að færa svokallaða safnliði sem búið er að pexa og rexa um í mörg ár og setja í svokallaðan faglegan farveg, setja inn í sjóði, inn í menningarsamninga og þar fram eftir götunum, reyna að gera þetta þannig að það væri ekki duttlungum háð hver fengi hvað. Það var hugmyndin og hugsunin. Ég varði þessa hugmynd mjög einarðlega og talaði fyrir henni í mínum þingflokki, en sumir hv. þingmenn vöruðu mig við. Ég sagðist bara ekki trúa því að þetta yrði gert eins og blasir við mér akkúrat núna. Núna er akkúrat farið í þveröfuga átt. Hv. meiri hluti fjárlaganefndar er farinn að úthluta sérstaklega sjálfur inn í safnliði og líka einstaka ráðherrar. Trú mín á verkefnið, það að menn gerðu þetta eins og að var stefnt, að það yrði tekið úr höndum hv. fjárlaganefndar og sett í þennan faglega farveg, er brostin. Hugsunin var að setja þetta inn í menningarsamninga og aðra þá sjóði sem gætu haldið utan um þetta og fært inn í heimabyggðina. Ég viðurkenni að ég hafði of mikla trú á þessu verkefni miðað við það sem hér kemur á daginn. Auðvitað ber ég þá von í brjósti að menn snúi ekki endanlega af brautinni en ég hræðist það mjög, því miður. Ég tel það akkúrat merki um það að fara í þveröfuga átt, sem ég hef talað lengi fyrir hér, að vinna betur faglega þverpólitískt og hætta þessu karpi. Við getum haft einhverja klukkutíma í viðbót þar sem menn geta verið í pólitísku argaþrasi og tekið svo aðra þingfundi í að ræða eitthvað faglega og almennilega þar sem eru þó einhverjir til að taka þátt í umræðunum en ekki tómur salur. Svo þegar þarf að afgreiða — hálftómur, hér sitja einstaka hv. þingmenn svo ég geri ekki lítið úr því — pínulítil mál þurfa menn að ryðjast upp í ræðustól í þrjú korter í atkvæðaskýringar og um atkvæðagreiðsluna til að minna á sig. Þetta kalla ég ekki fagleg vinnubrögð. (Gripið fram í: Rétt.) Ég skil þetta ekki.

Það vil ég segja að lokum, virðulegi forseti, að yfir margt þarf að fara betur í þessu fjárlagafrumvarpi og ég mun gera það í þeim ræðum sem ég mun halda í framhaldinu, taka einstaka þætti fyrir, en ég ætla að enda á þeirri yfirlýsingu að ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum með þá breytingu sem var gerð núna, það stílbrot sem varð á því samkomulagi og þeirri sátt um breytingar á safnliðunum sem var ekki staðið við. Ég hafði of mikla trú á verkefninu þannig að það gefur augaleið að ég harma að það skuli gert með þessum hætti. Mín skoðun er sú að þeir ættu að vera í þeim faglega farvegi sem stóð til að setja þá í.