141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mjög sérkennileg umræða hjá hv. þingmanni. Hann kallar eftir því að menn nefni hér einstakar tillögur. Ég bendi á það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þrígang lagt fram efnahagstillögur í heild sinni, sem bæði snúa að niðurskurði og tekjuöflun. Það er eins og sumir hv. stjórnarliðar — þó að ég saki ekki hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson um það — skilji ekki að það er hægt að auka tekjur með því að fara í framkvæmdir og með því að (Gripið fram í.) fara í skynsamlega uppbyggingu, hv. þingmaður. Það kemur fram í nefndaráliti okkar að það er til þess að styðja við þá atvinnuuppbyggingu og þann hagvöxt sem þarf að vera, það liggur alveg klárt fyrir. Síðan er hægt að fara að breikka skattstofna. Við ræðum þetta ekki hér á tveimur mínútum. Ég hvet hv. þingmann til að lesa tillögur okkar, ég er tilbúinn að ræða þær hvenær og hvar sem er.

Hv. þingmaður, við þurfum ekki að eyða miklum tíma í það að við viljum hlífa grunnþjónustunni. Hv. þingmaður segir: Jú, auðvitað verður að taka á þessum vanda að leysa vaxtagjöld ríkissjóðs. Við erum algjörlega sammála um það. Síðan koma hv. stjórnarliðar og hv. þingmaður þar á meðal og segja: Við erum að ná tökunum, viðspyrnan er hafin og þetta er allt saman komið í fínt lag, en samt eru vaxtagjöld ríkissjóðs áætlaðir 84 milljarðar á næsta ári, 84 milljarðar. Erum við búin að ná tökum á vandanum? Nei, ekki að mínu mati. Og á meðan við erum að borga 84 milljarða í vexti finnst mönnum sjálfsagt að fara að byggja hús íslenskra fræða fyrir 4 milljarða eða setja upp einhverja náttúruminjasýningu fyrir 500 milljónir eða einhverja stofnun fyrir 900 milljónir. Það er auðvitað ekki boðlegt að gera þetta með þessum hætti. Það er bara eintóm vitleysa og það er ekkert reiknað með neinum rekstri.

Svo koma menn og segja: Fjárfestingaráætlunin, hver á að framkvæma hana? Þetta er fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Hún mun í besta falli taka nokkrar skóflustungur, klippa á nokkra borða, svo verður það annarra að koma áætluninni í framkvæmd eða stoppa þessa vitleysu af.