141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:57]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samfélagslegar stofnanir ríkisins sem eru reknar þannig að þær standi undir sér og skili hagnaði eiga auðvitað að skila arði til ríkisins með eðlilegum hætti. Nákvæmlega á sama hátt og þau fyrirtæki sem sveitarfélögin halda úti, hvort sem það eru veitufyrirtæki eða annars konar rekstur í B-hluta. Það eru heimildir fyrir því að slíkur rekstur greiði allt að 7% arð til sveitarfélaganna. Auðvitað þarf það allt að vera í hófi og innan eðlilegra marka, en það er ekkert nema eðlilegt að stofnanir, hvort sem það eru bankar sem ríkið á hlut í eða aðrar mikilvægar þjónustustofnanir, sem eru reknar þannig að þær standi undir sér og eiga auðvitað að gera það, skili hluta af hagnaði sínum sem arði til samfélagsins. Við notum hann svo aftur til þess að útdeila í (Forseti hringir.) uppbyggingu og félagslega þjónustu, hvort heldur er fyrir landsbyggð eða þéttbýli.