141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er kannski ágætt að taka bara upp þráðinn frá því að hv. þingmenn tókust á áðan, um Íbúðalánasjóð. Vonandi berum við gæfu til að læra af því sem þar er á ferðinni. Það hefur verið algjört tabú fram til þessa að gagnrýna fyrirkomulagið á húsnæðislánamarkaði og Íbúðalánasjóð.

Allir þeir aðilar sem hafa gert það, sem eru ekki margir, og vöruðu til dæmis við því að það væri of geyst farið þegar menn fóru í 90% lánin hafa aldeilis fengið að heyra að þeir væru hið versta fólk.

Ég veit ekki hvaða samlíkingu maður á að nota en það er alltént sérstakt þegar spunameistarar ríkisstjórnarinnar reyna núna að koma þessu máli alfarið yfir á alla aðra en þá sem eru nú við stjórnvölinn. Það er enginn vafi að það var miklu verra að fara í 90% lánin en þeir spáðu sem þó vöruðu við því 2004. Þetta hafði miklu stærri og verri áhrif en menn ætluðu þá. Það voru mistök hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að fara þá leið og uppfylla kosningaloforð Framsóknarflokksins um 90% lánin, en hv. þingmenn bæði Samfylkingar og Vinstri grænna vildu ganga miklu lengra. Hver sem gerir svo lítið sem að kynna sér umræðurnar í þinginu, umræður í nefndinni voru eðli máls samkvæmt ekki bókfærðar en hér voru umræður í þinginu, getur séð að hv. þáverandi þingmaður, núverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, gagnrýndi það harðlega að ekki væri gengið lengra í að hækka hámarkslánin. Hæstv. forsætisráðherra, þá hv. stjórnarandstöðuþingmaður Jóhanna Sigurðardóttir, gagnrýndi það harðlega að ekki væri gengið lengra í að hækka hámarkslánin. Hið sama gerðu hv. þingmenn Vinstri grænna. Þeir vildu hækka hámarkslánin meira og þá er ég ekki að vísa í að 90% færu í 100%, heldur snerist þetta líka um það hversu mikið átti að lána fyrir hverri íbúð.

Frá þessum orðum, gjörðum og stefnu geta Samfylkingin og Vinstri grænir ekki hlaupið nú. Á sama hátt geta vinstri flokkarnir ekki hlaupið frá þessari skuldastefnu sem hefur haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar, þeirri stefnu sem hefur verið í gangi um að hvetja fólk til skuldsetningar við íbúðakaup. Stjórnvöld hafa gengið á undan bæði með því að hækka hámarkslánin og með því að leggja áherslu á vaxtabætur sem leið til að hjálpa fólki við að eignast húsnæði. Þessar tvær leiðir eru stærstu einstöku ástæðurnar fyrir því að íslensk heimili eru jafnskuldug og raun ber vitni.

Ég tók þessa umræðu fyrst árið 1995, ég hef að minnsta kosti ekki fundið eldri heimildir, og var þá kallaður öllum illum nöfnum af þáverandi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég fann umfjöllun í DV á netinu. Þegar við sem vorum þá í Sambandi ungra sjálfstæðismanna bentum á (Gripið fram í.) að ef þeim kostnaði sem hlaust af vaxtabótakerfinu, kostnaði við þáverandi Húsnæðisstofnun og annað slíkt, yrði deilt niður á þá sem væru að kaupa sína fyrstu íbúð á hverju ári samsvaraði það því að þeir sem væru að kaupa sína fyrstu íbúð fengju 2 millj. kr. á verðlagi þessa árs í styrk.

Vandinn er sá að við höfum nýtt fjármunina, og það eru ekki litlir fjármunir, til að hvetja til skuldsetningar því að vaxtabætur greiðast bara á vexti sem eru greiddir. Einhver gæti sagt: Hefði ekki verið skynsamlegra að styrkja fólk til að eignast húsnæði? Þegar farið var í 90% lánin var fólk sömuleiðis hvatt til að taka hærra hlutfall að láni. Þetta hefur án nokkurs vafa ýtt undir hækkun á húsnæðisverði.

Ég varaði við því í umræðum þegar þetta mál var flutt á þeim tíma og sagði að menn gætu ekki gert ráð fyrir því að húsnæðisverð hækkaði endalaust. Kerfið gengur bara upp ef húsnæðisverð hækkar endalaust. Ef það gerist hins vegar eins og gerðist hjá okkur, að það verði stöðvun í hækkuninni, lendir fólk í vandræðum. Ég vona að menn fari þá leið að skoða hvað var gert, hvaða afleiðingar það hafði og enn fremur umræðuna. Þessi gagnrýnislausa og slagorðakennda umræða gekk einhvern veginn út á að Íbúðalánasjóður og afskipti ríkisvaldsins væru með þeim hætti að húsnæðismarkaðurinn væri eingöngu af hinu góða og án galla og að þeir sem bentu á aðrar leiðir væru öfgafrjálshyggjumenn. Ég var kallaður ýmsum nöfnum.

Þegar ég skoðaði þessar umræður á sínum tíma hvöttum við í þáverandi hv. félagsmálanefnd til þess í nefndaráliti að sett yrðu lög um að Íbúðalánasjóður yrði undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Það varð ekki samstaða um það. Það þótti ekki gott. Af hverju ekki veit ég ekki, en eftir því sem ég kemst næst var mjög lítið eftirlit af hálfu Fjármálaeftirlitsins með Íbúðalánasjóði og ég veit ekki til þess að það hafi verið sett í lög að hafa eftirlit með Íbúðalánasjóði. Ef svo er hefur það farið fullkomlega fram hjá mér. Það var ekki fyrr en á árinu 2008 sem Fjármálaeftirlitið skoðaði Íbúðalánasjóð.

Ef við erum sammála um eitthvað ætti það að vera að það átti að hafa eftirlit með þessum ríkisbanka eins og öðrum bönkum. Allt þetta kjörtímabil hef ég spurst fyrir um Íbúðalánasjóð og það hefur ekki verið auðvelt að kalla eftir upplýsingum. Það segir manni að hlutirnir eru ekki eins og þeir eiga að vera.

Ég vek líka athygli á því, af því að ég er að fara yfir pólitíkina í þessu, að hæstv. forsætisráðherra var hæstv. félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar 2007–2009. Af hálfu hv. þingmanna Samfylkingarinnar var hún alltaf kölluð ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins þangað til í október 2008, þá breyttist það skyndilega og um tíma þurfti maður að kalla eftir opinberri rannsókn á því hverjir voru með Sjálfstæðisflokknum í þeirri ríkisstjórn. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar könnuðust eitthvað lítið við það en ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir að Samfylkingin var í umræddri ríkisstjórn. Ég hef líka áreiðanlegar heimildir fyrir því að hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra heitir Jóhanna Sigurðardóttir og er núna hæstv. forsætisráðherra.

Einhverra hluta vegna var sett útlánamet hjá Íbúðalánasjóði í júlí 2008. Útlánin voru nærri 7 milljarðar kr. og er það hæsti mánuðurinn alveg frá janúar 2007. Ég hef skoðað það aftur og held að þetta sé meira að segja toppurinn þótt aftar sé farið í tímann. Það er þó ekki aðalatriðið, aðalatriðið er að á þessum tíma var komið kul á lánamarkaðinn út af þeim óveðursskýjum sem hrönnuðust upp og þá var sett útlánamet hjá Íbúðalánasjóði. Það fólk sem tók lán hjá Íbúðalánasjóði í júlí 2008 er í mjög miklum erfiðleikum núna. Það er það fólk sem hefur farið verst út úr skuldamálunum, fengið harðasta skellinn.

Það er áhugavert að skoða þetta. Stjórnmálamenn eins og hæstv. forsætisráðherra sem hafa tilhneigingu til þess að lofa öllum því sem þeir vilja fá á tilteknum tímapunkti en huga ekki að afleiðingunum geta reynst fólkinu verst þegar allt er komið upp á yfirborðið og afleiðingar viðkomandi gjörða koma í ljós.

Þetta er fortíðin, þetta er sagan í mjög stuttu máli. Ég er búinn að vera að rifja upp og skoða hvernig umræðan hefur verið um Íbúðalánasjóð á þessu kjörtímabili og ég held að ég sé sá þingmaður sem oftast hefur tekið málið upp með fyrirspurnum, utandagskrárumræðum og sérstökum umræðum. Ástæðan fyrir því að ég hef lagt áherslu á þetta er sú að ég hef haft af þessu áhyggjur og mér hefur fundist vera mikill sofandaháttur hjá hæstv. ríkisstjórn. Því miður hef ég haft rétt fyrir mér.

Af þessu tilefni vil ég rifja upp umræðu sem ég var með á 43. fundi á 139. löggjafarþingi þar sem ég spurði þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, núverandi hæstv. velferðarráðherra, út í þessi mál. Það verður að segjast eins og er að hæstv. velferðarráðherra svaraði spurningunum. Þá var ég með skriflegar spurningar eins og á að vera í sérstakri umræðu og hann svaraði þeim. Það hefur verið undantekning frekar en regla, ekki hjá viðkomandi hæstv. ráðherra Guðbjarti Hannessyni heldur öðrum ráðherrum. Mér finnst rétt að hrósa hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir það.

Ég spurði um mat ráðherra á fjárþörf Íbúðalánasjóðs á næstu árum og hæstv. ráðherra svaraði með því að vísa í greinargerðina sem birt hafði verið í félags- og tryggingamálanefnd og fjárlaganefnd föstudaginn fyrir þessa umræðu. Þar segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Þar kemur meðal annars fram að leggja þurfi Íbúðalánasjóði til 22 milljarða kr. fyrir árslok 2010 til að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði ekki undir 5% í lok árs 2011. Þá þarf líka að leggja til til viðbótar 2,2 milljarða kr. fyrir árslok 2011 til að það markmið náist að weiginfjárhlutfallið fari ekki undir 5% fram til ársins 2013.“

Virðulegi forseti. Þarna segir hann að það þurfi 24,2 milljarða. Staðreyndin er sú að það voru ekki settir í Íbúðalánasjóð 22 milljarðar heldur 33 milljarðar og síðan þarf ekki að setja 2,2 milljarða til viðbótar heldur 48 milljarða. Það þarf ekki 24,2 milljarða heldur 81 milljarð. Það munar nærri 60 milljörðum kr., virðulegi forseti, og við hljótum að spyrja: Hvað er í gangi? Hvernig getur munað svona gríðarlega miklu á þessum áætlunum?

Ég er með stóran bunka af fyrirspurnum út af Íbúðalánasjóði og þótt hæstv. ríkisstjórn hafi verið fullkomlega sofandi getur enginn haldið því fram að hér hafi ekki verið veitt aðhald og menn ekki bent á þetta. Svo sannarlega gerði ég það svikalaust, virðulegi forseti, allt kjörtímabilið en samt sem áður sjáum við að núna, korteri fyrir kosningar, hlaupa menn til og segja frá því að hér þurfi jafnvel meira en 48 milljarða kr. Þetta tengist fjárlögunum mjög mikið, þetta eru risaupphæðir. Ef menn hefðu gert grein fyrir stöðunni, sem menn hefðu átt að gera vegna þess að þetta hefur verið í umræðunni og til skoðunar, getur maður spurt hvort við hefðum getað komist af með minni fjármuni. Almenna reglan er sú að ef maður tekur á vandanum strax er það betra og ódýrara. Ef maður seinkar vandanum, frestar honum, ýtir honum á undan sér verður kostnaðurinn meiri og afleiðingarnar alvarlegri.

Hér er svo sannarlega um slíkt dæmi að ræða, menn hafa ýtt vandanum á undan sér og gert lítið úr honum þegar spurt hefur verið. Ég held að það sé ekki hægt að halda öðru fram en að hér hafi verið gert lítið úr vandanum. Að minnsta kosti sjáum við hér gríðarstóra upphæð sem farið er fram á og samt er lítið búið að ræða hana. Þetta er bara rétt komið í umræðuna. Eftir því sem ég best veit ætla menn að klára fjárlögin á miðvikudaginn. Og hér hreykja menn sér af bættum vinnubrögðum. Ef við tökum samþykkt frumvörp 2010 og 2011 og berum saman við endanlega niðurstöðu munar 100 milljörðum. Menn geta sagt, benda örugglega á og halda því fram, að hér sé fyrst og fremst um einhvers konar einskiptiskostnað að ræða en það var samt sem áður kostnaður, m.a. út af Byr og SpKef, málum sem hefur verið afskaplega erfitt að fá niðurstöðu í. Þá er ég að vísa í niðurstöðu um upplýsingar.

Ég hef það fyrir reglu núna að biðja á hverjum fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar um svör við spurningum sem ég er margoft búinn að bera fram og nú síðast senda formlega beiðni, enn og aftur, vegna þess að ég fékk ekki svör við þeim 31. október á þessu ári. Það er fullkomlega óskiljanlegt í ljósi allrar umræðu um að það hafi verið fyrirhyggjuleysi fyrir bankahrun o.s.frv. Það er enginn vafi að gerð voru mistök í fortíðinni, menn voru ekki nógu forsjálir, ekki nógu gagnrýnir og ýmislegt var að en ekkert bendir til þess að hlutirnir séu að lagast, þvert á móti.

Það hefur komið í ljós á þeim fjórum árum sem þessi tæra vinstri stjórn hefur verið við stjórn að menn hafa verið í því að ýta vandanum á undan sér, verið að fresta honum. Það liggur alveg fyrir að hlutverk nýrrar ríkisstjórnar verður að takast á við þann mikla vanda sem hefur verið frestað og ýtt áfram í fjögur ár. Ég skil ekki af hverju menn hafa ýtt vanda Íbúðalánasjóðs á undan sér. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að samkvæmt mínum bestu heimildum barst fjárlaganefnd bréf frá stjórn og forstjóra sjóðsins í júlí á þessu ári þar sem sagt var að það yrði að gera eitthvað í hlutunum strax. Samt sem áður bíða menn með þessi mál alveg þangað til núna, til mánaðamóta nóvember/desember, og vilja að við klárum þetta á nokkrum dögum.

Virðulegi forseti. Ég spyr: Af hverju? Vonast menn til þess að það verði minni umræða um þetta, að þetta fari inn í jólin eins og stundum er sagt, að fólk fylgist ekki með því sem er í gangi vegna þess að það sé of mikið að gera við jólaundirbúning? Er það ástæðan fyrir frestuninni? Það getur ekki verið nein málefnaleg ástæða fyrir henni. Það er ekkert sem mælir með því að ekki verði strax unnið vel úr þeirri stöðu sem er hjá Íbúðalánasjóði.

Maður hlýtur að spyrja: Hvaða aðrar ástæður liggja að baki? Hverjar sem ástæðurnar eru er niðurstaðan alltaf sú sama, þessi vinnubrögð koma beint niður á skattgreiðendum þessa lands. Það er fullkomlega útilokað að hlutirnir verði betur unnir, kostnaðurinn minni og í þessu tilfelli að menn vinni betur úr þeirri stöðu sem er í sjóðnum með því að vinna það á elleftu stundu á miklum hraða. Það er útilokað.

Ég hef allt kjörtímabilið vakið athygli á stöðu Íbúðalánasjóðs og það liggur alveg fyrir að það hefur þurft að skilgreina betur hlutverk hans. Það hefði þurft að gera fyrir löngu. Ég vek athygli á því að þetta er séríslenskt fyrirkomulag. Þegar ég skoðaði þetta á sínum tíma þegar ég sat í hv. félagsmálanefnd man ég að markaðshlutdeild sambærilegra sjóða á Norðurlöndunum var 10–20%. 10–12% var algengt á Norðurlöndunum en stefnan þar er nákvæmlega sú sama og á Íslandi, þ.e. að hjálpa fólki að eignast húsnæði og líka að gæta jafnræðis milli hinna dreifðu byggða miðað við þéttbýlin. Við hefðum getað og getum enn náð þeim markmiðum án þess að vera í þeirri miklu bankastarfsemi sem Íbúðalánasjóður er í.

Hins vegar var ekki betur unnið í þessum málum á sínum tíma sem er miður. Allir flokkar bera ábyrgð á því. Ef menn vísa í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins var sannarlega engin pressa frá vinstri flokkunum að gera það, þvert á móti. Það er alveg ljóst að menn vildu að Íbúðalánasjóður gerði meira, lánaði meira, hærri upphæðir, hærra lánshlutfall, með öðrum orðum kæmi sjálfum sér og lántakendum í meiri vanda. Það var stefna vinstri flokkanna. Hver sem vill getur skoðað það alveg sérstaklega. Sá þingmaður sem gekk fremst í því var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Hún hafði mikla þekkingu á þessum málaflokki, að menn töldu. Það var örugglega rétt þar sem hún var fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra.

Við erum enn ekki komin með fyrirkomulag sem hjálpar fólki við að eignast húsnæði. Í rauninni er vonlítið fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð. Ég hef verið þeirrar skoðunar, í ein 20 ár fer ég að geta sagt, að við ættum að beina aðstoðinni í að hjálpa fólki að eignast frekar en að hvetja það til að skulda. Ég er enn þeirrar skoðunar. Ég tel að við getum farið margar leiðir til þess. Við gætum veitt skattafslátt sem mundi nýtast til inngreiðslu á íbúð. Við gætum sömuleiðis farið í nýtt viðbótarlífeyrissparnaðarkerfi og hef ég lagt það til. Þá gætu menn notað það kannski til 30 eða 35 ára aldurs, greitt inn í það og fengið mótframlag frá atvinnurekandanum sem útborgun í fyrstu íbúð.

Ef það væri gert mundum við án nokkurs vafa ýta undir að fólk nýtti það í ríkara mæli en nú er. Örugglega má gera ýmislegt annað en aðalatriðið er að við verðum að hjálpa fólki til að eignast og eiga íbúðina þannig að menn geti tekist á við áföllin þegar þau verða. Þau verða alltaf og þá eiga menn ekki að þurfa að sitja í þeirri stöðu sem blasir núna við.

Virðulegi forseti. Við verðum að hverfa frá þeirri stefnu sem hefur verið á Íslandi og svo sem á öllum Vesturlöndum. Ég held að það skipti ekki máli hvorum megin Atlantsála við erum, það má færa rök fyrir því að það hafi verið stefna á Vesturlöndum alveg frá lokum seinni heimsstyrjaldar að hvetja fólk til þess að taka lán sem ýta undir skuldsetningu hjá einstaklingum og svo sem fyrirtækjum líka. Það er bara einn galli við lán og hann er sá að það kemur að skuldadögum. Og það kom svo sannarlega að skuldadögum hjá okkur Íslendingum.

Þá hefði verið æskilegt að menn hefðu nýtt tímann eftir að við fengum svo harkalega lendingu til að vinna okkur út úr þessu og skapa grunn að öðruvísi samfélagi þar sem ekki væri ýtt undir skuldsetningu eins og við þekkjum. Það hefur ekki verið gert, a.m.k. ekki fram til þessa. Stærsti einstaki vandinn núna í skuldamálum þjóðarinnar er ríkisábyrgðin á Íbúðalánasjóði. Það er hætt við því að leiðréttingar á lánum þar séu í rauninni tilflutningur á milli vasa hjá sömu einstaklingunum. Það þýðir aukin útgjöld hjá ríkissjóði að öllu óbreyttu. Þetta er afskaplega alvarlegt mál.

Mér finnst alltaf áhugavert að sjá hvernig spunameistarar vinstri flokkanna spinna úr hverju máli fyrir sig. Núna er verið að reyna að finna einhvern blóraböggul í þessu. Ég sé í einhverjum fjölmiðlum að menn hafa fundið hann í hæstv. fyrrverandi félagsmálaráðherra, Árna Magnússyni, en við skulum bara þakka fyrir það, virðulegi forseti, að sá hæstv. ráðherra skyldi ekki hlusta á stjórnarandstöðuna á þeim tíma, a.m.k. ekki að öllu leyti. Ef það hefði verið gert væri vandinn enn þá stærri núna.

Hins vegar er óskiljanlegt af hverju ekki var farið í ákveðnar aðgerðir, eins og til dæmis að auka eftirlit með sjóðnum þar sem menn eru með Fjármálaeftirlit hér í landi og það hefði verið fullbúið til að taka á þeim málum.

Virðulegi forseti. Við erum að tala um Íbúðalánasjóð og hvernig við erum að vinna með hann á elleftu stundu í staðinn fyrir að gera eins og við ættum að gera. Svo er annað mál sem við eigum alveg eftir að ræða, nýr Landspítali. Það er eitt af því sem er fullkomlega óskiljanlegt, stefnuleysið hjá hæstv. ríkisstjórn hvað það mál varðar. Mér sýnist að með stefnuleysinu og vandræðaganginum sé ríkisstjórnin að gera þetta þarfa og skynsamlega verkefni að einu óvinsælasta verkefninu á Íslandi í dag.

Það er óskiljanlegt af hverju þetta er unnið svona og ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því hvað menn ætla að gera með það mál í þinginu. Á morgun er 1. desember og enn er ekkert komið um málið inn í þingið, ekki gert ráð fyrir útgjöldum eða neinu slíku og ekki kynntar neinar áætlanir um verkið. Það er afskaplega mikilvægt verkefni, ekki bara að kynna það í þinginu heldur fyrir þjóðinni. Það er mikilvægt að fólk sé meðvitað um hvað þetta þýðir. Ég hef farið víða og heyri mjög miklar áhyggjur af þessu. Ýmsir róa svo sem undir því, telja að hér verði einhverjar grundvallarbreytingar í heilbrigðisþjónustunni og að heilbrigðisþjónusta um allt land flytjist á einn stað, til Reykjavíkur. Því fer auðvitað fjarri nema menn hafi breytt um skoðun og stefnu í þeim málaflokki. Það eru ýmsar sérkennilegar hugmyndir í gangi. Þetta er bara til komið vegna þess að þeir sem eru í pólitískri forustu hafa ekki sinnt hlutverki sínu. Þetta er ekkert flóknara. Það er alveg ömurlegt að sjá hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur haldið á þessu máli.

Það eru tvær forsendur fyrir því að hér séum við með heilbrigðisþjónustu eins og við viljum hafa hana, með því allra besta sem gerist í heiminum, annars vegar hæft starfsfólk og hins vegar aðstaða. Að öllu óbreyttu er hætt við því að við séum á hraðri leið þangað að aðstaðan verði ekki fullnægjandi. Við þurfum að bæta úr því. Ef einhvern tímann hefði verið hagkvæmt að fara í fjárfestingu eins og þessa er það væntanlega þegar minnst er að gera í byggingargeiranum. Þá eru mestar líkur til að við gætum fengið gott verð. Við vitum að á þenslutímum kosta hlutirnir miklu meira.

Nú gengur fólk um atvinnulaust og er sumt farið til annarra landa vegna þess að það vantar verkefni og þá ekki síst iðnaðarmenn, að vísu heilbrigðisstarfsfólk líka. Það er að hluta til út af stefnuleysi í þessum málaflokki.

Það er dýrt að missa fólk úr landi, ekki bara að það þýði fórnarkostnað vegna þess að menn fái þá ekki skatttekjur heldur eru miklar líkur á að það komi sér fyrir annars staðar, skjóti þar rótum og komi ekki til baka. Við þekkjum það hjá vinum vorum Færeyingum, sem eru vinir í raun, að þeir misstu í kjölfar svipaðs áfalls og við lentum í kynslóðirnar úr landi og þær komu ekki til baka.

Hér voru áðan orðaskipti um að nú væri komið meira aðhald, meiri agi og regla í rekstur stofnana. Ég vek athygli á því að í dag var dreift frumvarpi um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Það snýr að Fjármálaeftirlitinu. Það er áhugavert að lesa fylgigögn með því frumvarpi. Þar segir til dæmis:

„Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2007 var velta Fjármálaeftirlitsins um 600 millj. kr. og er því útlit fyrir að þau hafi hækkað um nálægt 1.470 millj. kr. eða um hátt í 350% gangi rekstraráætlun ársins 2013 eftir.“

Við afgreiðslu sambærilegs máls fyrir ári kom fram að íslenska bankakerfið er 3% af danska bankakerfinu. Íslenska fjármálaeftirlitið er hins vegar 43% af danska fjármálaeftirlitinu. Menn gætu ætlað að þá þyrftum við ekki að gera neinar athugasemdir við það, en við erum að horfa á það núna — við fáum að vísu Fjármálaeftirlitið á fund efnahags- og viðskiptanefndar á mánudaginn og vonandi kemur það þá með upplýsingar um hvað er í gangi hjá slitastjórnunum sem því ber lögum samkvæmt að hafa eftirlit með. Fjármálaeftirlitið hefur fengið hundruð milljóna til að hafa eftirlit með þeim eða þannig má í það minnsta ráða í orð þáverandi hæstvirts ráðherra. Ráðherrarnir hafa verið nokkrir en í máli þessa ráðherra kom fram gagnrýni á það hversu mikil aukning varð á útgjöldum til Fjármálaeftirlitsins og hann sagði að hefði orðið til að hafa sérstaklega eftirlit með slitastjórnunum sem er lagaskylda. Það hefur komið fram að ekki hefur verið neitt eftirlit með launagreiðslum til þeirra eða viðskiptum þeirra við eigin félög. Það er mjög stórt mál og það hefur verið upplýst vegna þess að lífeyrissjóður fór fram á upplýsingar um greiðslurnar hjá einni slitastjórn en ekki í neinu öðru.

Við þekkjum það að almenna reglan, og ég held að það sé sama hvaða opinbera stofnun á í hlut, er sparsemi. Menn telja að of litlum fjármunum sé varið til rekstursins. Þess vegna er áhugavert að sjá ýmsar tölur og ég leyfi mér að vísa í nefndarálit frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar á síðasta ári. Þar segir á bls. 5, með leyfi forseta:

„Húsnæðiskostnaðurinn er um 88 millj. kr. á ári, eignakaup, svo sem húsgagnakaup eru 54 millj. kr., það eru um 400 þús. kr. á hvern einasta starfsmann að því gefnu að þeim fjölgi, og sérfræðikostnaður hækkar verulega. Hann er nú kominn í 155 millj. kr. Rekstur tölvubúnaðar kostar 109 millj. kr. á árinu 2012. Hækkunin á þessum lið er 12% á milli ára. Gjafir og risna fyrir starfsfólk er áætluð 7 millj. kr. eða sem nemur um 55 þús. kr. á hvern starfsmann.

Þegar skoðuð eru laun til stjórnarmanna sem eru ekki í föstu starfi heldur sinna hlutverki sem stjórnarformenn og stjórnarmenn kemur eftirfarandi meðal annars fram: Fyrrverandi ráðherra hækkaði greiðslu til stjórnarformanns um næstum 175%, úr 220 þús. kr. á mánuði í 600 þús. kr. á mánuði. Núna eru stjórnarlaunin fyrir stjórnarformann 600 þús. kr. á mánuði, 200 þús. kr. fyrir aðalmann og 200 þús. kr. fyrir varamann. Minni hlutinn hefur leitað eftir skýringum á því hvers vegna fyrrverandi ráðherra hækkaði launin svona mikið og hvort einhverjar sambærilegar greiðslur tíðkist hjá opinberum fyrirtækjum þar sem stjórnir eru. Minni hlutinn er hins vegar þeirrar skoðunar að sjálfsagt og eðlilegt sé að greiða fólki fyrir að sinna hlutverkum sem þessum. Þá skipti máli að samræmi sé milli ríkisstofnana sem telja má sambærilegar. Það er ábyrgðarhluti að þingmenn fari gaumgæfilega yfir kostnaðartölur sem liggja til grundvallar í þessu máli og sambærilegum málum.“

Hér sjáum við alveg gríðarlega aukningu hjá opinberri stofnun. Samt sem áður hefur að mínu áliti ekki verið sinnt risamálum sem skyldi. Ég nefni gengislán, sem ég hef ekki tíma til að fara yfir núna en er búinn að gera oft áður, og neytendavernd sem mér hefur fundist vera í skötulíki og er samt sem áður að hluta til hjá Fjármálaeftirlitinu.

Þetta eru ekki stórar tölur, rúmlega 2 milljarðar kr. á síðasta ári, en þegar ég sé þessar tölur þó að það séu litlu tölurnar eins og 55 þús. kr. í risnu á hvern starfsmann koma þær flatt upp á mig. Ég hef aldrei séð þetta neins staðar hjá hinu opinbera. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvernig mönnum hefur dottið þetta í hug. Þarna orkar fleira tvímælis en meðan verið er að þrengja að heilbrigðisstarfsfólki og opinberum starfsmönnum almennt er mjög sérstakt að sjá svona hjá einni opinberri stofnun, sérstaklega í ljósi þess að ýmislegt hefur verið gagnrýnisvert þarna. Ég hef ekkert farið í eftirlit FME á Byr og SpKef en þar voru brotin lög um eiginfjárhlutföll og ekki hafa enn fengist svör við því þótt ítrekað hafi verið farið fram á það hvers vegna Fjármálaeftirlitið lét það viðgangast.

Slitastjórnir áttu að vera undir sama eftirliti og bankaráð samkvæmt lögum, það voru sett sérstök lög til að tryggja að haft yrði eftirlit með því af hálfu stofnunarinnar, en það hefur ekki verið gert. Við þurfum að fara sérstaklega yfir þetta ásamt ýmsu öðru í þessu fjárlagafrumvarpi.