141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig á því þegar hv. þingmaður nefndi hér tóman sal að eftir því sem mér skilst standa yfir þingflokksfundir í það minnsta í öðrum stjórnarflokknum. Ég hlýt að gera athugasemd við að hér sé þingfundur meðan þingflokkar eru að funda. Ég fer því fram á það við hæstv. forseta að gert verði hlé áður en næsti maður fer í sína ræðu og á meðan þingflokkurinn klárar sinn fund. Það er í það minnsta óhefðbundið að halda áfram umræðu meðan slíkt er.

Það er annað mál sem mig langar að nefna sem hv. þingmaður kom inn á í sinni ræðu og er hallinn á ríkissjóði. Hv. þingmaður nefndi réttilega að hallinn er vel á níunda tug milljarða samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Við sjáum, og það kemur fram í nefndaráliti hv. þingmanns, að vöruskiptajöfnuðurinn er um 49 milljarðar sem er 40% samdráttur frá árinu 2011. Það kemur fram í nefndarálitinu að jöklabréfin séu líklega í kringum 1.200 milljarðar eða 75% af þjóðarframleiðslu. Margir telja að það sé meira, 100% þjóðarframleiðsla jafnvel. Áfram mætti halda.

Ég spyr því hvernig hv. stjórnarþingmenn geta staðið hér og haldið því fram að allt sé í lukkunnar velstandi og framtíðin brosi á móti okkur þar sem allt muni fara batnandi, þegar tölurnar eru svona. Þegar við sjáum af samanburði og línuritum úr nefndaráliti hv. þingmanna að vaxtakostnaður stóreykst milli ára. Svo virðist sem sá kostnaður sé eingöngu á uppleið. Hvernig eigum við að fara að því að standa undir öllum væntingunum sem gerðar eru í fjárlagafrumvarpinu? Hvernig eigum við að standa undir öllum skuldbindingunum, sem við svo sannarlega berum, ef við höldum áfram að safna skuldum og fáum ekki tekjur til að greiða niður kostnað sem hlýst af skuldunum? Og hvað þá að geta staðið undir öllum loforðunum sem er að finna í þessu undarlega frumvarpi.