141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við höldum áfram með 2. umr. um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem hefur tekið einhverjum breytingum á milli umræðna, sumum ágætum, öðrum vondum. Það sem vekur náttúrlega mesta athygli er að það er búið að leggja fram tekjuhlið frumvarpsins, hæstv. fjármálaráðherra hefur gert það en það er ekki enn þá búið að mæla fyrir því. Ég vil byrja ræðu mína á að tala um þau vinnubrögð sem eru í kringum öll fjárlögin.

Það er eins og það sé sama hvaða athugasemdir bæði stjórnarandstaðan og hinir faglegu aðilar, til dæmis Ríkisendurskoðun, hafa lagt fram varðandi vinnubrögðin í tengslum við fjárlög, það er eins og ekki sé á þær hlustað. Það má reyndar ekki hlusta á Ríkisendurskoðun, einhverra hluta vegna, það sem frá henni kemur virðist vera afar viðkvæmt. Þó að það séu nú ýmsir sem hafi orðið fyrir gagnrýni, þar á meðal undirrituð og fleiri, frá Ríkisendurskoðun, þá er það nokkuð sem við eigum frekar að læra af og reyna að byggja upp og vinna með, en ekki hjóla í starfsfólkið sem þar vinnur og gegnir sínu starfi með sóma.

Vinnubrögðin eru bara hluti af því sem ég vildi koma inn á í annarri ræðu minni. Það er algjörlega ófært að við skulum vera að ræða hér, við 2. umr. fjárlaga, þróunina og hvernig við ætlum að útdeila fjármunum almennings, ríkissjóðs, þegar ekki liggur fyrir nákvæmlega hvernig við ætlum að afla þessara tekna. Þá segi ég líka: Það liggja ekki fyrir stóru atriðin sem ég kom inn á meðal annars í fyrri ræðu minni, varðandi Hörpu, varðandi strandsiglingar, varðandi Íbúðalánasjóð, þar sem er náttúrlega um gríðarlegar fjárhæðir að ræða. Ég heyrði í fréttum áðan að hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri nú bara rétt byrjunin að setja inn 13 milljarða kr. í eigið fé, það væri ekki verið að uppfylla 5% kröfuna. Þannig að við eigum þá væntanlega von á því að sjá fleiri tillögur varðandi Íbúðalánasjóð.

Þetta allt sýnir okkur fram á að við fáum tækifæri hér á þingi, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, til þess að ræða heildarmyndina sem blasir við okkur fyrir árið 2013. Varðandi tekjuhliðina þá er ljóst að það er verið að fara leið grímulausra skattahækkana. Ég hef sagt og ítreka það enn og aftur að það er alveg ótrúlegt að fletta í gegnum plaggið sem þar er sett fram. Ekki bara að enn og aftur sé verið að ráðast að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar eins og ferðaþjónustunni — þar sem er verið að leggja til verulega hækkun á virðisaukaskatti. Mér er alveg sama þó það sé búið að draga að einhverju leyti úr þessu. Það er verið að koma í bakið á ferðaþjónustunni, sem er búin að kynna áætlun sína, fara út í heim til að laða ferðamenn til landsins á þeim grunni sem við búum við núna, ekki sem verður væntanlega samþykktur af stjórnarmeirihlutanum, Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni — grænu framboði.

Ég vil líka benda á, sem ég hef komið inn á áður, að það er alveg með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin ætlar að hækka skatta, til dæmis með sykurskattinum svokallaða. Að reyna að neyslustýra fólki og hafa ekki meiri trú á einstaklingunum en svo að það þurfi að ná í peninga í gegnum sykurskattinn er náttúrlega ekkert annað en fyrirsláttur. Á sama tíma og ríkisstjórn Íslands hefur ekki leyst skuldavanda heimilanna, ekki með einum eða neinum hætti, er hún að boða stórfelldar skattahækkanir. Hækkanir sem hafa bæði bein og óbein áhrif á verðlagið, sem þýðir það að við sjáum fram á hækkanir á ákveðnum nauðsynjum, á ákveðnum tegundum, hvort sem það eru mjólkurvörur eða kex. Við erum að tala um margs konar iðnaðarvöru á sviði matvæla sem mun hafa þau áhrif að verðlag mun hækka, sem mun síðan hafa áhrif á það að lán heimilanna munu hækka.

Þetta er lausn ríkisstjórnar hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur til þess að leysa skuldavanda heimilanna, að fara með bæði beinum og óbeinum hætti inn í verðlagið til þess að reyna að afla tekna fyrir ríkissjóð. Það er mjög umhugsunarvert hvaða leiðir hún er að fara í þessum efnum.

Talandi um vinnubrögðin þá er af mörgu að taka. Ég er í allsherjar- og menntamálanefnd og það kemur þangað inn kostnaðarfrumvarp sem við vitum öll að muni kosta eitthvað — við vorum síðast í gær að afgreiða lítið frumvarp sem skiptir máli um skuldbindingar Íslands varðandi vímuefnaneyslu, ólöglega lyfjanotkun í íþróttum. Við vitum að slíkar skuldbindingar kosta og hvað er sagt í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins? Þar er sagt: Jú, þetta mun væntanlega kosta eitthvað en ráðuneytið verður að forgangsraða innan síns ramma.

Svona kemur hvert frumvarpið á fætur öðru. Hvort sem það er af hálfu hæstv. innanríkisráðherra varðandi löggæslumálin — og nú er verið að plana að Happdrættisstofa eigi að vera sett á laggirnar og hvaðan á að taka það? Jú, þeim sem stunda happdrættisrekstur eins og Háskóla Íslands og Íslenskri getspá, sem styður bæði Öryrkjabandalagið og íþróttahreyfinguna. Þessar stofnanir eiga að greiða fyrir þessa nýju ríkisstofnun sem er alveg með endemum. Á sama tíma og við erum að ræða við 2. umr. fjárlaga um hvernig við ætlum að brúa bilið þá er ráðherra í ríkisstjórn Íslands að leggja fram hugmyndir um nýja ríkisstofnun; Happdrættisstofu Íslands, ekkert minna, ekkert meira. Það er alveg með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli hleypa svona málum í gegn og er bara dæmi um þessi vinnubrögð.

Ég talaði áðan um ábendingu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Hægt er að taka sem dæmi eitt risastórt mál sem við erum með til umfjöllunar sem tengist Ríkisútvarpinu. Þar er bullandi ágreiningur milli fjármálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins um hvernig eigi að skilgreina útgjöldin í tengslum við Ríkisútvarpið og enn og aftur sagt að viðkomandi ráðuneyti, í þessu tilviki menntamálaráðuneytið, eigi að huga að þessu innan síns ramma.

Hvað þýðir það? Það þýðir að ráðherrar eru að koma með sín óskaplögg, vekja upp falskar væntingar og falskar vonir, af því að það er ekki til fjármagn. Hér koma ráðherrar ekki upp og segja: Ég er með rosalega gott mál hérna, ég hef engan pening í það en ég ætla samt að setja það fram. Það mundi þýða að menn næðu ekki að fylgja slíkum málum eftir og þess vegna er verið að byggja upp falskar vonir og væntingar sem eru ekki í takti við það sem er til, meðal annars í ríkiskassanum. Þetta eru dæmi um þessi vondu vinnubrögð sem við erum enn og aftur að takast á við af hálfu ríkisstjórnarinnar, alla daga, allt árið um kring.

Ég minntist á það áðan að það er hver erlendi fjárfestirinn á fætur öðrum sem kemur hingað til landsins — hvort sem þeir eru á ráðstefnum eða að segja fjölmiðlum frá samskiptum sínum varðandi það hvernig ríkisstjórnin hefur tekið á málum þeirra á sviði orkumála, við getum einnig talað um gagnaverin eins og ég hef bent á. Forustumenn slíkra fyrirtækja segja að ýmsar ástæður hafi orðið til þess að þeir hafi ekki komið með fjárfestingar sínar hingað til landsins, einfaldlega af því að margt af því sem ríkisstjórnin segir stenst ekki eða menn eru gerðir afturreka með ákvarðanir sem var búið að taka. Við erum búin að upplifa þetta aftur og aftur, hvort sem við getum bent á umhverfisráðherra eða fjármálaráðherra hvað þá forsætisráðherra.

Það er einfaldlega ekki verið að byggja upp trúverðugleika Íslendinga þegar kemur að fjárfestingum hér innan lands. Við erum ekki að byggja upp þann trúverðugleika sem við þurfum á að halda, í þeirri miklu samkeppni sem við erum í við önnur lönd, til þess að laða að erlenda fjárfesta. Það er ansi blóðugt að sjá að ef við hefðum verið nægilega vel undirbúin, verið búin að gera okkar heimavinnu til dæmis á sviði orkusölu og klára rammaáætlun með sóma, þá hefðum við getað séð fram á að hér hefðu verið byggð öflug gagnaver sem eru risastór á heimsmælikvarða. Þau hafa farið til Svíþjóðar af því að Svíþjóð lagði sig fram um að laða til sín erlenda fjárfesta og byggja þannig upp störf. Ekki veitir nú af, ekki síst hér innan lands.

Það er ýmislegt sem má velta fyrir sér og ég ætla að halda áfram að tala um vinnubrögðin. Ég er ekki sammála því sem hefur komið fram varðandi safnliðina, bæði af hálfu sumra stjórnarþingmanna en líka stjórnarandstæðinga. Ég er algjörlega á því að það fyrirkomulag sem viðgekkst hér var algjörlega ónothæft. Það hefur ekkert með það að gera að menn treysti ekki að þingmenn séu allt eins góðir og embættismenn ráðuneyta eða ráðherra til þess að útdeila fjármunum, enda eru þingmenn það. Þeir útdeila fjármunum með stóru myndinni, með þeim áherslum sem þeir leggja í fjárlögum hverju sinni, en fyrirkomulagið er ekki boðlegt eins og það var. Allt frá því að ég hóf störf hér á þingi 1999 hefur verið sagt að þingmenn geti dreift niður á safnliði og þá eingöngu þeir þingmenn sem eru í fjárlaganefnd. Þeir sem eru með mestu tengingarnar inn í fjárlaganefnd á þeim tíma fá sitt í gegn. Aðrir sem eru í öðrum nefndum ekki. Er það sanngjarnt? Er það gegnsæi? Nei, mér finnst það ekki.

Þess vegna fagnaði ég sérstaklega þeirri vinnu, hún var ekkert fullkomin, ég tek alveg undir það, en hún var viðleitni í þá átt að sýna fram á ný vinnubrögð af hálfu þingsins. Þess vegna finnst mér miður — og það voru allir, bæði stjórn og stjórnarandstaða, sem komu að þessu, það var þokkalegur samhljómur í verkefninu en ekki alger. Það er rétt að draga það fram að Framsóknarflokkurinn vildi ekki taka þátt í þessu verkefni. Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar voru ósáttir við það líka, en þetta var engu að síður viðleitni til þess að gera hlutina gegnsærri, gera stóru myndina skarpari og auka jafnræði meðal allra landsmanna í því að sækja um fjármuni inn í ríkissjóð, en ekki þannig að það væri háð því hver væri best tengdur hvaða þingmanni.

Þess vegna var reynt að fara þessa leið og ég hef bent á að það er ekki þannig að það sé verið að ýta öllu inn í ráðuneytin. Það er verið að ýta þessu inn í ákveðinn farveg sem meðal annars þingið kemur að. Sem dæmi: Menningarsamningar. Menningarsamningarnir eru mjög vel skilgreint verkefni sem er almenn ánægja með og ég held að það sé eitt mikilvægasta byggðaverkefni sem við höfum staðið fyrir á síðustu árum. Ég trúi ekki öðru en að menn taki undir það. Innan þess eru verkefni sem hafa verið byggð sérstaklega upp á landsbyggðinni og auknum fjármunum varið í menningarsamninga.

Ef menn ætla að segja af hálfu þingsins: Já, við viljum styrkja þetta safn á Austfjörðum, þetta safn fyrir vestan, þá vesgú, þá einfaldlega auka menn fjármunina til menningarsamninganna. Af því að hverjir eru það sem eiga aðild að menningarsamningunum? Það eru sveitarfélögin, það eru heimamenn fyrst og fremst, í samvinnu við menntamálaráðuneytið og síðan hefur Alþingi eftirlit með þessu. Þetta kallar maður að hafa heimamenn með sér inn í útdeilingu verkefna til þess að gera þetta gegnsærra og það eru mjög skýrar verklagsreglur sem fylgt er eftir í menningarsamningunum.

Þess vegna finnst mér algjörlega miður og í rauninni óþolandi að upplifa það að ríkisstjórnin sjálf kemur með beinar tillögur, þegar við förum yfir það, og gefur fyrrverandi fjármálaráðherra Íslands Oddnýju Harðardóttur þar með langt nef í þeirri vinnu sem hún leiddi varðandi breyttu vinnubrögðin innan fjárlaganefndar. Það er ríkisstjórnin sjálf sem er að kollvarpa þessu nýja fyrirkomulagi, þessari viðleitni okkar til þess að breyta vinnubrögðum á þingi. Það er hún sem ber fyrst og fremst ábyrgð á þessu en ekki aðrir og mér finnst það miður. Þetta er dæmi um það sem ég er að segja um vonlaus vinnubrögð af hálfu þessarar ríkisstjórnar.

Svo er náttúrlega hlálegt að hér komi menn og tali um: Já, það er verið að auka um þrjúhundruð og eitthvað milljónir til framhaldsskólanna. Fínt, frábært. Þegar maður les síðan tillögurnar, 325 millj. kr. inn í framhaldsskólana, þá hefði maður haldið að þær væru meðal annars til þess að koma til móts við það sem er samþykkt í lögum og menn eru sammála um að gera, efla iðn- og starfsnám, reyna að koma í veg fyrir brottfall og stytta námstíma til stúdentsprófs. Þetta plagg sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa talað um á umliðnum árum. Nei, alls ekki, það er engin stefnumótun sem liggur fyrir á bak við þessar 325 millj. kr. sem er verið að leggja í framhaldsskólana. Bara engin. Það er beinlínis hallærislegt að menn ætli sér að tala í eina röndina um að það þurfi að efla iðn- og starfsnám þegar við sjáum í hina röndina að ríkisstjórnin er að skera niður til framhaldsskólanna á sviði iðn- og starfsnáms, þegar kemur að reiknilíkaninu.

Ríkisstjórnin heldur öllu sínu í reiknilíkaninu varðandi bóknámið en ekki varðandi iðn- og starfsnám. Hún reynir síðan á milli umræðna að bjarga andlitinu, bæði á ráðherrunum og ríkisstjórninni sjálfri. Alls staðar þar sem borið er niður eru þversagnir í því sem ríkisstjórnarflokkarnir segja varðandi uppbyggingu menntamála.

Með leyfi forseta, það er meðal annars hægt að vitna í það sem Jón Már Héðinsson, rektor Menntaskólans á Akureyri, einn af okkar allra fremstu skólamönnum, sagði varðandi þann niðurskurð sem blasti við framhaldsskólanum þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Jón Már sagði, með leyfi forseta: Þegar skorið er niður í menntun þarf ráðherra að fá meiri skilning fyrir því í samfélaginu að það er ekki farsæl leið. Niðurskurðurinn mun ekki bíta okkur strax, heldur mun hann koma í ljós að nokkrum árum liðnum.

Þarna er ég innilega sammála þessum góða rektor hjá Menntaskólanum á Akureyri, ráðherra menntamála þarf að fá meiri skilning af hálfu þeirra ráðherra sem sitja í ríkisstjórn og þeirra stuðningsmanna sem hún hefur hér innan þingsins. Það er ekki boðlegt að skilja ráðherra menntamála einan eftir í þeirri baráttu að efla menntakerfið, efla rannsóknir og vísindi. Þess vegna segi ég fullum fetum að það vantar skilning á meðal ríkisstjórnarráðherranna til að forgangsraða raunverulega í þágu menntunar. Umbótastjórnun, hvort sem hún er á sviði menntamála eða annarra, tekur tíma og oftar en ekki kostar hún ákveðnar fjárhæðir í byrjun, en hún skilar okkur síðan miklu. Ekki síst í formi hagvaxtar eftir nokkur ár og því er það þolinmæðin sem skiptir máli í þessu. Ef stefnumótunin og markmiðssetningin er skýr þá eigum við að stíga þessi skref fastar og ákveðnar en við höfum verið að gera á umliðnum árum.

Mér finnst sorglegt að sjá fjárlagafrumvarpið bera þess merki að ekki er verið að taka menntamálin og rannsóknirnar fastari tökum en raun ber vitni. Ég ítreka það að ég er ekki að gagnrýna eingöngu hæstv. ráðherra menntamála í þessu, ég hefði viljað sjá hana fá miklu meiri stuðning af hálfu samráðherra sinna í ríkisstjórn, en þekkjandi suma sem ég hef setið með í ríkisstjórn innan þeirrar sem nú er þá er ekki mikils skilnings að vænta varðandi menntun og rannsóknir af þeirra hálfu.

Það er líka hægt að spyrja um hagræðingu. Í allsherjar- og menntamálanefnd erum við að fjalla um ýmis mál, eins og ég gat um, Bókmenntasjóð og fleiri. Um þau skilar fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins enn og aftur frá sér umsögn. Umsögnin felur í sér að þetta muni væntanlega hafa áhrif, ef menn ætli að auka fjármagn til sjóðsins þá þurfi ráðuneytið að gera það innan síns fjárlagaramma. Hvern er verið að blekkja hér?

Síðan koma tillögur núna milli 1. og 2. umr. um að auka fjármagn í Bókmenntasjóð. Gott og vel. Ég hefði hins vegar viljað sjá markvissar og skarpar stigið niður varðandi sameiningu og hagræðingu sjóða á sviði menningarmála. Við erum með öfluga starfsemi á sviði kvikmyndamála sem hefur skilað okkur miklum fjármunum. Við erum með góða reynslu af því hvernig það fyrirkomulag hefur skilað okkur bæði auknum tekjum og auknum umsvifum hér innan lands og af hverju þá ekki að líta til þess ef við getum nýtt það inn í aðrar menningargreinar? Ég hefði viljað sjá eina regnhlíf strax, þá ákvörðun tekna, og ég veit ekki betur en að slík stefnumótun til framtíðar liggi fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Af hverju er það þá ekki gert núna? Reynt að hagræða, sameina sjóðina, sameina yfirstjórnina á öllum þessum sjóðum; Bókmenntasjóði, Kvikmyndasjóði, Sviðslistasjóði, Tónlistarsjóði og þeim sjóðum sem fyrir eru til þess að reyna að ná fram sem mestu út úr hverri krónu. Af hverju er það skref ekki stigið?

Af hverju ekki? Er verið að rugga einhverjum bát þar? Ég veit að það er mjög erfitt, en menn ætluðu sér að sjálfsögðu í að klára slíka hagræðingu til þess að nýta fjármagn og skattfé almennings sem allra, allra best.

Ég hef minnst á það — og ég á reyndar eftir stóran part sem tengist lögreglunni og ég sé að tíminn sem eftir er er ekki nægur fyrir það þannig að ég bið hæstv. forseta að setja mig nú þegar á mælendaskrá. Ég vil aftur koma að rannsóknum og því hvað það er alvarlegt fyrir okkur að hafa ekki fjárfest betur og forgangsraðað betur í þágu rannsókna og vísinda. Í viðtali við Morgunblaðið bendir Björn Zoëga meðal annars á þær gríðarlega miklu rannsóknir sem við höfum staðið fyrir á sviði heilbrigðisvísinda. Ef miðað er við stór háskólasjúkrahús á Norðurlöndum kom Landspítalinn út best allra samkvæmt skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árið 2011 en þá voru sérstaklega árin 2000–2008 skoðuð. Endaði Landspítalinn meðal annars hærra en Háskólasjúkrahúsið í Kaupmannahöfn og Karolinska háskólasjúkrahúsið í Svíþjóð.

Samkvæmt Birni hefur birtum greinum síðan 2008 fram til 2009 fjölgað aðeins en síðan má sjá raunverulegan samdrátt varðandi umsóknir (Forseti hringir.) vegna nýrra rannsókna. Það segir okkur að það er ekki nægilega mikill stuðningur við vísindi og rannsóknir. Við erum að missa það forskot, (Forseti hringir.) missa þá forustu sem við vorum búin að byggja upp. Slíka forustu tekur mörg ár að vinna upp og við erum að sólunda henni í vanhugsuðum ákvörðunum sem vinstri ríkisstjórnin hefur tekið.