141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að staldra fyrst og fremst við eitt atriði sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, þ.e. endurgreiðsla til kvikmyndagerðar. Ég fagna því að um 500 milljónum verði bætt í þann pott á næsta ári og þá væri það um einn milljarður. Svo það fari ekki á milli mála er ég hlynntur því að menn séu með skattaívilnanir til atvinnurekstrar eins og kvikmyndagerðar. En fyrirkomulagið eins og það er núna er að mínu viti algjörlega galið að því leyti til að í raun og veru er búið að taka fjárstjórnarvaldið af Alþingi, það má eiginlega segja það, þ.e. þetta er í raun og veru opinn tékki og það er nánast engin stjórn á því hvað gerist af því að skuldbindingin er með þessum hætti.

Farið er með þetta með þeim hætti að sérlögin um niðurgreiðsluna eða endurgreiðsluna ganga framar fjárlögunum þó svo að skuldbindingin — það er hægt að fresta fjárveitingunum, ég geri mér fulla grein fyrir því. En þetta er að mínu viti algjörlega galið. Skynsamlegra væri að gera það á þann hátt, eins og ég benti á í þeirri umræðu sem átti sér stað fyrir um ári, að þeir sem væru til dæmis í þessum atvinnurekstri, kvikmyndagerð, þyrftu þá ekki að standa skil á til dæmis tryggingagjaldi, svo ég nefni eitthvert dæmi, þ.e. að skattaívilnanir væru þá með þeim hætti að eftir því sem umsvifin væru meiri þyrftu menn ekki að standa skil á skattgreiðslunum, þannig að ekki væri þessi óvissuliður inni í fjárlögum.

Að mínu viti er þetta ekki nógu gott fyrirkomulag og staðfestir það kannski að skattumhverfi þessara fyrirtækja er ekki hagstætt. Það væri mun skynsamlegra að menn, eins og ég nefndi, þyrftu til dæmis ekki að greiða tryggingagjald í staðinn fyrir að vera með opinn tékka fyrir því hvernig staðið er að endurgreiðslu á kostnaði. Ég vil spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort hann geti tekið undir þá skoðun mína.