141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram, það voru allir einhuga um það í fjárlaganefnd að óska eftir frestun á 2. umr. fjárlaga um eina viku, þ.e. að hún færi fram á sömu dögum og hafði staðið í starfsáætlun en viku síðar og lyki þannig. Þannig var gengið frá því í fjárlaganefnd og með þau skilaboð fór starfandi forseti og fjárlaganefndarmaður, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, út af fundinum.

Við það samkomulag hefur ekki verið staðið, það liggur alveg ljóst fyrir. Nú er komið fram undir miðnætti á síðari deginum sem átti að vera atkvæðagreiðsludagur áður en málið færi til 3. umr. samkvæmt því samkomulagi. Við það hefur ekki verið staðið. Stjórnarandstaðan hefur enn og aftur allt kjörtímabilið hagað sér svona, dregið hin ýmsu mál af ýmsum stærðum og gerðum niður í svaðið, lítilsvirt þingið með málflutningi sínum og háttalagi og þau ætla að halda áfram (Forseti hringir.) á þeirri vegferð núna í kvöld. (Gripið fram í: Hver er …?)