141. löggjafarþing — 44. fundur,  3. des. 2012.

uppbygging iðnaðar við Húsavík.

[15:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem kemur fram í orðum hans að þarna var farið í þá vegferð að fara í sameiginlegt umhverfismat til að skapa þá heildarsýn sem nauðsynleg er fyrir áform af þessu tagi. Ég vona að hv. þingmaður sjái kosti þess þó að á þeim tíma hafi verið uppi ágreiningur um þessa aðferðafræði. Hins vegar er þarna í raun og veru steypt saman umhverfismati fyrir orkuöflun, línulagnir og síðan viðkomandi atvinnustarfsemi, álver í þessu tilviki, sem er hægt að meta sérstaklega síðar ef forsendur breytast og leggja við sameiginlega matið.

Það er rétt sem hv. þingmaður talar um að mengunaráhrif eru mjög mismunandi eftir því hvaða starfsemi er á ferðinni. Ég gerði ráð fyrir því að hvert fyrirtæki um sig mundi undirgangast allar ýtrustu kröfur um mengunarvarnir o.s.frv. og lúta þeim reglum sem við setjum fyrir atvinnulífið hér og það mundi gilda hvort sem væri um kísilbræðslu eða aðra starfsemi að ræða. Það er auðvitað afar dýrmætt og mér hefur alltaf fundist það mikilvægast þegar rætt er um atvinnuuppbyggingu að hún sé fjölbreytt. Það er kannski ástæðan fyrir því að hv. þingmanni er það ofarlega í huga að ég hafi einhvern tíma goldið varhuga við taumlausri uppbyggingu álvera einna saman um landið, að ég telji rétt af efnahagslegum og umhverfislegum ástæðum að setja ekki öll eggin í sömu körfuna.

Fjölbreytt atvinnulíf er eitt af okkar leiðarljósum og vonandi tekst okkur að byggja hér upp samfélag á grundvelli þess en ekki einsleitra verkefna eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur því miður allt of oft staðið fyrir, en forgangsröðun fjármagns er líka viðfangsefni sem hv. þingmaður vill væntanlega (Forseti hringir.) láta sig varða líka og þá þarf að gera það í þágu þeirra verkefna sem brýnust eru hverju sinni.