141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:34]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka fram í upphafi að ég hef margoft gagnrýnt þá útþenslu ríkisfjármála eða ríkisbáknsins sem varð hér um tíð meðan minn flokkur var í ríkisstjórn, ég hef gert það bæði í þessum þingsal og á opinberum vettvangi þannig að það sé nú sagt, og það er ekki til eftirbreytni.

Hv. þingmaður byrjaði á að tala um að samfellan til stúdentsprófs og umræðan um það ætti að bíða betri tíma. Við höfum haft heilt kjörtímabil til að ræða það. Það er áætlun, það eru lög sem máske hefðu skilað að jafnaði 2–3 milljörðum eða jafnvel meiru árlega inn í ríkissjóð. Auðvitað áttum við að fara í þetta um leið. Í staðinn fyrir að fresta gildistöku laganna áttum við að fara í það strax. Það er mín skoðun, og þá hefðum við fengið árin 2010, 2011 og 2012 sirka eða að lágmarki 10 milljarða, ef ekki 12 milljarða, inn til ríkissjóðs vegna þess að það hefði þá ekki farið út úr honum, þannig að við getum litið á það sem ágóða ef nota má það orð.

Ég nefndi í ræðu minni áðan, og þótti það ekki ljúft, byggingu húss íslenskra fræða vegna þess að það kallar á aukin útgjöld Háskóla Íslands. Ég held að í því árferði sem er megi það bíða. Ég nefndi sýningu fyrir Náttúruminjasafn upp á 500 milljónir, ég tel að það megi bíða. Mér þykir líka sérstakt að setja núna inn til næstu þriggja ára 300 milljónir á ári í byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri samhliða því að heimila ekki því sveitarfélagi að virkja eða reka sorpbrennslu. Þannig gæti ég talið upp, virðulegur forseti, ýmislegt sem er örugglega þarft og gæti verið gaman en þegar maður á ekki (Forseti hringir.) pening og þarf að kaupa sér bíl kaupir maður sér frekar Skoda en Porsche.