141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á það ekki að vera markmiðið að Íslendingar sem vilja fjárfesta í húsnæði eigi þess kost að fá lán á sem lægstum vöxtum? Er það ekki það sem allir stjórnmálamenn mundu vilja sjá? Er það ekki? Eigum við þá að vera óánægð með það þegar bankar geta boðið viðskiptavinum sínum upp á lága vexti? Eigum við þá að hlaupa upp til handa og fóta og segja: Ó, nei, það þarf að blása til stórsóknar af hálfu Íbúðalánasjóðs ríkisins til þess að stöðva þá hræðilegu þróun?

Ég skil bara ekki af hverju við ættum að vera að því. Og ég skil einfaldlega ekki af hverju skynsamir menn vilja ekki horfast í augu við að það kerfi sem við höfum byggt hér upp með Íbúðalánasjóð er eitthvað sem við þurfum að taka til gagngerrar endurskoðunar. Ég tel að allar þær skýrslur og þær upplýsingar sem við höfum um áhrif þess að ríkið hafði þessi miklu áhrif á fasteignamarkaði bendi okkur á þá staðreynd að hugsa þurfi málin upp á nýtt og setjast yfir þetta án þess að vera með einhverjar upphrópanir eða æsing um það að hinir og þessir séu með ómálefnalegar fullyrðingar. Ég einfaldlega hafna því.

Ég tel ræðu mína hafa verið mjög málefnalega. En það er stundum óþægilegt, ég veit það, að horfast í augu við staðreyndir. Það er mjög óþægilegt. Það er erfitt að gera breytingar, mjög erfitt oft og tíðum. En engu að síður lagast ekkert vandamálið þó að maður tali ekki um bleika fílinn sem trampar úti um allt í stofunni.