141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Erindið er fyrst og fremst að ganga úr skugga um að ég hafi skilið hv. þingmann rétt, því það gladdi mig ákaflega að heyra að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, skyldi lýsa því yfir í ræðu sinni að ríkisvaldið ætti að eiga virkan þátt í atvinnuuppbyggingu í landinu. Það er ekki hægt að skilja hv. þingmann öðruvísi en svo að hann telji að ríkið hafi hlutverki að gegna við atvinnusköpun, geti haft aðkomu að því að greiða fyrir uppbyggingu atvinnulífsins og markaðurinn geti ekki endilega leyst alla hluti sjálfur.

Ríkið getur haft áhrif á ólíkan hátt þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Það getur beinlínis þvælst fyrir eins og við höfum dæmi um, allt of mörg dæmi um á þessu kjörtímabili. Það getur haldið sig til hlés, gefið mönnum frið til að byggja upp, eða það getur tekið virkan þátt í uppbyggingunni með því að skapa nauðsynlegar forsendur. Ég efast ekki um að við hv. þingmaður séum sammála um að ríkið eigi ekki að skemma fyrir atvinnuuppbyggingu. Það hefur verið alveg óþolandi að sjá mörg dæmi um slíkt á undanförnum árum. Eflaust erum við líka sammála um að í mörgum tilvikum sé nóg að ríkið láti menn í friði, leyfi þeim að athafna sig. En er ekki rétt skilið hjá mér að við hv. þingmaður séum sammála um að í ákveðnum tilvikum eigi ríkið aðkomu að atvinnuuppbyggingu, ekki sé nóg að markaðurinn leysi alla hluti sjálfur?