141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Allt er þetta í áttina hjá hv. þingmanni. En getum við ekki líka verið sammála um að í litlu landi eins og Íslandi geti ríkið þurft að koma að verkefnum sem eru kannski ekkert rosalega stór? Nú skal ég nefna dæmi, dæmi sem hefur verið til umfjöllunar í dag í fjölmiðlum.

Það stóð til að flytja verksmiðju frá Noregi á Seyðisfjörð. Verksmiðjan átti að framleiða álkapla í rafstrengi og var gert ráð fyrir að hún mundi skapa 35 störf til langs tíma á Seyðisfirði og afleidd störf hefðu getað orðið álíka mörg. Störfin hefðu því kannski getað orðið 70 á Seyðisfirði þar sem heildaríbúafjöldinn er innan við 700. Það hefði mikil áhrif á þeim stað þótt fyrirtækið sé ekkert gríðarlega stórt, með 35 starfsmenn. Það vantaði aðeins upp á eigið fé til að bankar fengjust til þess að lána fyrir framkvæmdinni vegna þess að gerðar eru óhemjumiklar kröfur til slíkrar uppbyggingar á landsbyggðinni á Íslandi. Meðal annars var nefnt að veðhæfi fasteigna á Seyðisfirði væri ekki nógu gott, þess vegna þyrfti svona hátt eiginfjárhlutfall, 50%. Það vantaði ekki mikið upp á það.

Hefði ríkið ekki átt að stíga þarna inn í, t.d. í gegnum Byggðastofnun, eftir að í ljós kom að framtakssjóður lífeyrissjóðanna var ekki reiðubúinn að taka þátt í þessu verkefni eins og hæstv. atvinnuvegaráðherra lýsti fyrr í dag? Var þá ekki einboðið að ríkið hefði frumkvæði að því að stíga þarna inn í svo að af þessari framkvæmd og uppbyggingu yrði, framkvæmd sem hefði að öllum líkindum ekki aðeins skapað störf heldur heilmikil verðmæti til lengri og skemmri tíma?