141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að ræða um þetta mál, fjárlögin … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsalnum. Þingmaðurinn hefur orðið.)

Þakka þér, hæstv. forseti. Eins og fram kom í umræðunni eru skiptar skoðanir um frumvarpið og það er mjög langt á milli manna heyrist mér. Allt frá því að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar lýsa því yfir að á leiðinni sé algjörlega frábært frumvarp, það besta sem lagt hefur verið fram í áraraðir, og síðan komum við sem erum því ekki alveg sammála og bendum á þætti sem betur mættu fara. Ég ætla að fara yfir nokkur slík atriði.

Í fyrsta lagi tel ég að ef þetta væru algjörlega frábær fjárlög bæru þau ekki í sér þær staðreyndir að hallarekstur ríkissjóðs er of mikill. Áætlanir sem gerðar hafa verið um bata í þeim efnum hafa ekki gengið eftir og hér koma inn við 2. umr. gríðarlega miklar útgjaldatillögur í stað þess að við horfum til þess að sýna að við getum viðhaft einhvern aga í fjárhagsstjórn ríkisins á kosningavetri. Þess vegna er frumvarpið ekki frábært.

Við megum taka til nokkur atriði sem skipta miklu máli en manni virðist sem ríkisstjórnarflokkarnir geti ekki og vilji ekki horfast í augu við þau. Hvers vegna er í því frábæra frumvarpi ekki komið til móts við þann mikla vanda sem Íbúðalánasjóður glímir við? Hvers vegna birtist okkur ekki einhver heildstæð stefna um hvernig á að skipa þeim málum til framtíðar? Ef þetta væri algjörlega frábært fjárlagafrumvarp tel ég að það ætti að horfast í augu við það verkefni, koma til móts við vandann og sýna þjóðinni fram á hvernig við ætlum að tækla hann.

Hvers vegna er í því frábæra fjárlagafrumvarpi ekki gert ráð fyrir að við á þinginu séum búin að taka ákvörðun um hvort eigi að byggja nýjan Landspítala? Þora menn ekki að taka þá ákvörðun, vilja menn ekki taka þá umræðu og hvað er þá svona frábært við það?

Síðan er eitt mál sem talsvert hefur verið í umræðunni og varðar fasteign sem heitir Harpa. Þar eru nú ýmis atriði sem ég tel að ættu að koma fram í fjárlagafrumvarpinu en svo er ei og þess vegna spyr ég: Hvað er svona frábært við frumvarpið ef við horfum á það út frá því máli? Við höfum heyrt, eftir að fjárlagafrumvarpið var tekið út úr fjárlaganefnd, að til standi af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja fram 13 milljarða kr. framlag frá ríkinu inn í Íbúðalánasjóð og það eigi að koma inn í fjárlögin milli 2. og 3. umr.

Ef fjárlagafrumvarpið er svona frábært hvers vegna kemur það mál eins og þruma úr heiðskíru lofti, enginn hafi vitað neitt um stöðuna á Íbúðalánasjóði og það þurfi að bæta því inn í á milli 2. og 3. umr.? Hvers vegna? Eru vinnubrögðin þau að menn hafa gleymt Íbúðalánasjóði eða vildu menn ekki leggja það fram í upphafi vegna þess að þá hefði frumvarpið ekki verið nógu skemmtilegt og frábært þegar það var kynnt? Hvers vegna?

Við höfum í umræðunni ekki talað mikið um, eða ég hef ekki talað mikið um lífeyrisskuldbindingar. Lífeyrisskuldbindingar B-deildar LSR námu 373 milljörðum kr. Það er ekki ljóst hvernig eigi að fjármagna þær og ekki hefur verið lögð fram trúverðug greiðsluáætlun til fjármögnunar á þeim vanda. Hvers vegna er ekki horfst í augu við það í þessu frábæra fjárlagafrumvarpi? Hvers vegna ekki?

Ég hef talið upp nokkur atriði sem rökstyðja þá skoðun mína og annarra, heyri ég, sem eru ekki sammála því að frumvarpið sé frábært. Um að menn vilji ekki horfast í augu við þau verkefni sem fram undan eru. Það er afskaplega slæmt og ekkert frábært við þá afstöðu. Ekki neitt. Þegar maður á í vanda verður að átta sig á því hver hann er, horfast í augu við hann og koma síðan fram með tillögur til þess að mæta honum. Við erum ekki að horfa á slíkt fjárlagafrumvarp. Þvert á móti. Við erum að horfa á frumvarp sem ber öll þess merki að það eru kosningar í vor. Við erum að horfa á frumvarp þar sem menn innan ríkisstjórnarflokkanna hafa trommað upp með það að verið sé að leggja fram fjárfestingaráætlun. Um er að ræða verkefni sem munu til lengri tíma kalla á enn frekari útgjöld úr ríkissjóði.

Til stendur að setja af stað ýmis verkefni eins og til dæmis byggingu húss íslenskra fræða fyrir 3,4 milljarða á þremur árum. Engar upplýsingar hafa verið lagðar fram um hvað muni kosta að reka húsið til framtíðar. Ég taldi nú að menn mundu reyna að átta sig á því, svona miðað við að hafa lært eitthvað af byggingunni Hörpu, en svo er ekki. Það veldur mér miklum vonbrigðum og af því hef ég miklar áhyggjur. Menn taka ekki eingöngu ákvarðanir fyrir næsta ár, að geta tekið skóflustungu að nýjum stórum verkefnum á kosningavetri, heldur taka þeir ákvarðanir sem munu hafa mikil áhrif á fjárlög komandi ára.

Frú forseti. Ég leyfi mér að fullyrða að menn hafa ekkert lært. Við sjáum og horfum upp á kosningafjárlög sem eru bara eins og hver önnur kosningafjárlög. Þótt menn hafi margtuggið það úr ræðustól að íslensku bankarnir hafi hrunið og við á þinginu verið að takast á við mikinn vanda ríkissjóðs síðan það gerðist, er eins og menn hafi gleymt því. Nú eru að koma kosningar og þá þarf auðvitað að fara að taka skóflustungur. Hvers vegna? Ef fjárlagafrumvarpið væri frábært tel ég að menn hefðu byrjað á því að horfa til þess hvernig ætti að greiða niður skuldir, minnka vaxtakostnað ríkissjóðs og reyna að stuðla að því að í gang færu frekari verkefni sem gætu stutt við öflugra atvinnulíf hér á landi. Þá mundi ég kannski geta sagt að það væri eitthvað frábært á ferðinni en þvert á móti er ekki verið að gera það.

Af því hef ég miklar áhyggjur, tel fulla þörf á því að benda á það í umræðunni og tel mig hafa allan rétt á því að nota mitt málfrelsi til þess, hvað svo sem hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, finnst um það. Miðað við umræðuna áðan telur hann ekki mikla þörf á að ræða frumvarpið þar sem það sé frábært. Ég er algjörlega ósammála því.

Stjórnvöld settu fram áætlun og markmið um hallalausan ríkissjóð árið 2014. Frumvarpið segir okkur að fallið hafi verið frá þeirri stefnu. Hvar hefur umræðan um það farið fram? Fór hún fram í fjárlaganefnd? Var það þess vegna sem formaður fjárlaganefndar óskaði eftir því að umræðunni yrði frestað um viku? Hvers vegna óskaði formaður fjárlaganefndar eftir því að umræðunni yrði frestað um viku og kemur svo hingað grátandi yfir því að málinu hafi verið frestað um viku?

Frú forseti. Ég skil hvorki upp né niður í þeim málflutningi og vonast til að einhverjir fjárlaganefndarmenn sjái nú sóma sinn í því að koma upp og útskýra það fyrir mér. (SER: Það er búið að útskýra þetta.) Það er ljóst að viðvarandi halli verður áfram á ríkissjóði. Auknar skuldir og hærri vaxtagreiðslur muni skaða samfélagið, rýra þjónustuna og draga úr krafti atvinnulífsins. Það er nú allt sem málið inniheldur og ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst það ekki frábært. Menn úr fjárlaganefnd kalla framan úr salnum og þora ekki að koma upp í pontu til að útskýra mál sitt, það hafi nú allt verið útskýrt. Ég hef einfaldlega ekki heyrt það. Ég hvet hv. þingmann Sigmund Erni Rúnarsson til að hætta að fela sig á bak við eitthvert dagblað og koma upp í pontuna til að útskýra það fyrir mér. Það er algjörlega óásættanlegt að menn sitji með yfirlætisfullan svip, haldi því fram að frumvarpið sé frábært en komi ekki hingað til að benda á hvernig þeir rökstyðja mál sitt. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega þannig að menn eiga að þora að horfast í augu við vandamálin. Hvers vegna blasir við okkur hér, og öllum í samfélaginu, að menn þora ekki að takast á við verkefni Íbúðalánasjóðs? Hvers vegna ræða menn það ekki í þessari umræðu hvernig eigi að tækla málefni Hörpu? Hvernig er það með Landspítalann? Hvar á það að koma inn? Á það að koma inn í fjáraukanum? Eða á kannski að lauma því inn í lokafjárlög löngu eftir kosningar? Ætlar ríkisstjórnin að gera það til að klára og loka þessum frábæru fjárlögum?