141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar rýnt er í fjárlagafrumvarpið og forsendur þess blasa við ógnvænlegir hlutir. Skuldir ríkissjóðs í árslok síðasta árs námu í kringum 1.915 milljörðum og þar af voru lífeyrisskuldbindingar rúmir 400 milljarðar; það sem ekki var fjármagnað í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Það er ljóst að þessar stóru upphæðir munu falla á ríkið í framtíðinni þannig að það er óhætt að segja, eins og segir í nefndaráliti minni hlutans, að óbókfærð lífeyrisskuldbinding sé, með bókhaldsæfingum ríkisstjórnarinnar, fegruð mynd sem blasir við þegar þetta er skoðað náið.

Eitt eru þessar svokölluðu innri skuldir, annað eru ytri skuldir, þ.e. skuldir sem íslenska ríkið skuldar bæði hér á skuldabréfamarkaði og erlendis í lánum. Það er ljóst að skuldabyrðin er þung. Ef lífeyrisskuldbindingarnar eru dregnar frá nema skuldir ríkisins um 95% af landsframleiðslu ársins í fyrra. Þá er ekki búið að taka tillit til vandamála eins og Íbúðalánasjóðs og fleiri hluta sem leynast í ríkisbókhaldinu.

Ef við skoðum hvaða vexti allar þessar skuldir bera sjáum við að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir því að vaxtagjöldin verði 84 milljarðar. Það eru gríðarlegir fjármunir. Til samanburðar er þetta meira en menntakerfið fær. Vaxtagjöldin eru næststærsti liðurinn, eini liðurinn sem er hærri en þau eru útgjöld til heilbrigðismála.

Það sem meira er, á meðan ríkissjóður er rekinn með halla bætist við skuldirnar, þær eru ekki borgaðar niður og vaxtagjöldin bætast við höfuðstólinn á skuldunum. Bara vextirnir af vöxtunum sem féllu á í fyrra geta numið milli 4 og 5 milljörðum kr. Það sem er alvarlegt í þessu er að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla og vaxtagjöld hafa safnast upp í nokkur ár, eða allt frá árinu 2009.

Ef við skoðum vaxtajöfnuðinn, þ.e. vexti að frádregnum vaxtatekjum er ljóst að það eru að safnast upp gríðarlegar skuldir, en það eru ekki bein tengsl á milli vaxtagjalda og vaxtatekna þrátt fyrir að það séu nokkur tengsl milli einhverra upphæða. Hér er okkur því mikill vandi á höndum. Ríkisstjórnin hefur hrósað sér af því að hafa náð að snúa ríkissjóði úr miklu tapi í það að vera í jafnvægi á þessu ári, en eins og ég rakti í ræðu minni fyrr í dag eru allar líkur til þess að rekstur ríkissjóðs verði mun verri en gefið er til kynna í frumvarpi til fjárlaga. Ég rakti hérna að í forsendunum er gert ráð fyrir hagvexti sem er ríflegur að mínu mati. Ekki er gert ráð fyrir útgjöldum sem geta numið kannski tugum milljarða, þannig að það er mjög ólíklegt að þessi niðurstaða náist. Enda hefur verið sagt að þetta fjárlagafrumvarp sé kosningaplagg og glansmynd af rekstri ríkissjóðs, ætluð til að fegra myndina fyrir komandi kosningar.

Staðan er því grafalvarleg og hvað er þá hægt að gera? Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin hafi vanrækt að taka á raunverulegum rekstri ríkissjóðs. Það er vissulega rétt að það hefur tekist að halda aftur af ríkisútgjöldum en það hefur verið gert með því að fara ekki út í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum samfélagsins. Það hefur verið gert með því að halda niðri launum hjá opinberum starfsmönnum þannig að við erum að sjá hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum segja upp svo hundruðum skiptir. Það hefur verið gert með því að vanrækja fjárfestingar og það hefur verið gert með því að vanrækja viðhald.

Það hefur safnast upp mikil þörf á fjárfestingum, launahækkunum og öðru slíku sem mun skella á af fullum þunga á næstu mánuðum og árum, þannig að það er skammgóður vermir. Ekki hefur verið á neinn á hátt reynt að fara út í það sem þarf að gera, þ.e. kerfisbreytingar hjá hinu opinbera. Það kom til dæmis ein hugmynd fram í skýrslu sem var birt á dögunum sem er kerfisbreyting sem ég tel að sé til fyrirmyndar. Þar var mælt með því að stytta framhaldsskóla um eitt ár og jafnvel grunnskóla um annað. Þar af leiðandi mundu íslensk ungmenni útskrifast á svipuðum aldri og ungmenni í nágrannalöndunum. Það mundi spara peninga.

Annað dæmi er í háskólakerfinu. Hér höfum við sjö háskóla, 320 þúsund manna þjóð. Í heilbrigðiskerfinu er hægt með endurskipulagningu að spara peninga með því að nota önnur rekstrarform og í velferðarkerfinu sjáum við óræk merki um að þar hafa verið settar fátæktargildrur sem halda fólki á bótum um lengri tíma sem leiðir til útgjalda fyrir ríkissjóð og lélegrar lífsafkomu fyrir þá sem eru á bótum. Það hefur ekki verið tekið á þessum hlutum. Það er lengst komið með skólakerfið, þar liggja fyrir hugmyndir og skýrslur sem hægt er að hrinda í framkvæmd, en vandamálið er að ekki er gerð nein tilraun til að gera það.

Mín skoðun er því sú að ríkisstjórnin hafi heykst á því verkefni að gera kerfisbreytingar á ríkissjóði þar sem hlutirnir eru gerðir fyrir minna fé og gerðir betur, þannig að þjónustan skerðist ekki en peningar sparist. Það er hægt, ég er sannfærður um það, það er hægt að sýna fram á það og það er verkefni næstu ríkisstjórnar að losna undan kostnaði, ekki með handahófskenndum niðurskurði heldur endurskipulagningu og endurhugsun (Forseti hringir.) á opinberum rekstri.