141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er þingmanninum ósammála um að það séu sérstakir þjóðarhagsmunir fólgnir í því að klára þessar aðildarviðræður. Ég er hins vegar sammála þingmanninum í því að við eigum að halda áfram. Mér finnst við hafa staðið í stað eða farið aftur á bak einmitt vegna þess að við erum að eyða tíma, peningum og starfskröftum allrar íslensku stjórnsýslunnar í vonlaust aðildarumsóknarferli. Við eigum að taka stefnuna beint fram á við sem þjóð og klára að gera það sem við þurfum að gera, hvort sem menn ganga í Evrópusambandið eða ekki — hvort sem menn ganga í Evrópusambandið eða ekki — og það er að koma okkar eigin húsi í lag. Við þurfum að (Gripið fram í.) — Ég get fallist á að Maastricht-skilyrðin, sem eru skilyrði sem Evrópusambandið setur þeim ríkjum sem þar vilja ganga inn, séu ágætisskilyrði að stefna að en við þurfum ekki að stefna að þeim til þess að ganga í Evrópusambandið. Við þurfum að stefna að þeim vegna þess að það er skynsemi í því. Við getum það sjálf og eigum að gera það sjálf.

Fyrst það er þannig að við göngum hvort sem er ekki í Evrópusambandið fyrr en við erum búin að uppfylla þau skilyrði, fyrr en við erum búin að afnema gjaldeyrishöftin. Það kom einmitt skýrt fram á fundinum sem við sóttum til Strassburg, sem hv. þingmaður vísaði til og við vorum að ræða, að þrátt fyrir að Evrópusambandið sé búið að skipa einhverja sérfræðinga, nefnd til að aðstoða Íslendinga, hvað felst í því? Það var eitt af því sem ég spurði Stefan Füle um. Hann ætti svo sem að svara þeim spurningum okkar en hann sagði þó þarna að það eina sem sú nefnd gerði væri að skiptast á ráðleggingum. Evrópusambandið mun ekki hjálpa okkur við að afnema höftin. Við verðum sjálf að vera búin að afnema höftin til að ganga í Evrópusambandið. Þess vegna eigum við að hætta þessari vitleysu, taka stefnuna þráðbeint áfram með samstöðumátt okkar Íslendinga og nota alla okkar krafta (Forseti hringir.) til að koma okkur á réttan stað, setja efnahagslífið aftur á fulla ferð og hafa þau skilyrði (Forseti hringir.) sem við viljum best hafa.