141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi umræða og þeir fáu stjórnarliðar sem hér hafa tekið til máls, þeir virðast ekki vera mikið í því — það liggur við að maður sé með tárin í augunum af þakklæti þegar maður sér stjórnarliða í ræðustól þannig að maður geti haft orðaskipti við viðkomandi og reynt að átta sig á því hvað hv. stjórnarliðar eru að fara.

Við tókum sjávarútveginn um daginn og nú er það ferðaþjónustan. Það er talað eins og hér sé um að ræða fyrirtæki sem lifa í slíkri velmegun að þau viti ekki hvað gera á við fjármagnið. Þrátt fyrir öll varnaðarorðin um að litlu og meðalstóru sjávarútvegsfyrirtækin fari verst þá er ekkert hlustað á þau. Þrjú fyrirtæki eru núna að segja upp starfsfólki, eitt hérna í Reykjavík, í Þorlákshöfn í gær og eitt á Siglufirði. Ef starfsfólki er sagt upp, ég tala nú ekki um er það verður atvinnulaust, þá greiðir það ekki skatta, eða alla vega mjög litla. Aftur á móti þiggur það bætur. Ég hef áhyggjur af nákvæmlega sömu þróun í ferðaþjónustunni af þessum ástæðum sem ég nefndi. Ég þekki ferðaþjónustuaðila, ekki jafnmarga eins og hv. þingmaður, en almenna reglan er sú að þetta eru lítil fjölskyldufyrirtæki, þessir menn eru að bjarga sér. Það hefur sem betur fer gengið þokkalega vegna þess að ferðamönnum hefur fjölgað hér, meðan annars staðar í álfunni hefur þeim fækkað. Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar er nú þegar búið að fækka ferðamönnum á næsta ári. Hvað þýðir það þegar Schultz í Þýskalandi ákveður að fara eitthvað annað en til Íslands? Hann er að skaffa vinnu í öðrum löndum en á Íslandi. Það sem mér finnst sárast er viðhorf ríkisstjórnarinnar sem telur það hættulegasta sem hægt væri að gera í íslensku þjóðfélagi að lækka skatta, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar ræddi hér áðan, og núna á að eyðileggja vaxtarbroddinn.