141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:40]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mig langar enn og aftur að reyna að útskýra fyrir glottandi hluta þingheims hvað mér finnst vera hér í húfi. Ég geri ráð fyrir að einhverjir eigi við þetta þegar þeir kalla fjárfestingaráætlunina gæluverkefni, en hvað er sem sagt í húfi?

Hér er verið að ræða um að íslensk hljómsveit getur þurft nokkur hundruð þúsund krónur í styrki til að kaupa flugmiða til að geta farið í tónleikaferðalag eða til markaðssetningar sem getur ráðið úrslitum um það hvort slík hljómsveit slær í gegn. Í kringum slíka hljómsveit sem slær í gegn á heimsvísu vinna tugir manna, það skapast tugir starfa. Ef eitt fyrirtæki í fatahönnun nær fótfestu á erlendum mörkuðum getur öll ullarframleiðsla Íslands farið í hana.

Það eru þessar stærðir sem eru í húfi og hér erum við að reyna að (Forseti hringir.) dreifa fjármununum þannig að þeir nýtist til þessara sprota og skapi okkur umtalsverðar tekjur í framtíðinni.