141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að ég hafi vakið athygli á því að svo virðist sem EBITDA hjá landsbyggðarhótelunum sé talsvert hærri en í tilviki Reykjavíkur hef ég engu að síður meiri áhyggjur af afleiðingunum fyrir hótelin á landsbyggðinni einfaldlega vegna þess að nýtingin á þeim svæðum er mun lakari en hér á höfuðborgarsvæðinu og við sjáum líka að vöxturinn í komum erlendra ferðamanna hefur fyrst og fremst verið að skila sér inn á höfuðborgarsvæðið. Sem betur fer hefur orðið talsverð fjölgun erlendra ferðamanna utan þess sem menn kölluðu hér einu sinni háannatímann og það er mjög vel. En það eru fyrst og fremst ferðamenn sem fara ekki mjög langt út fyrir höfuðborgarsvæðið.

Það er engu að síður þannig að hvernig sem við horfum á þetta er greinilegt að reksturinn er tiltölulega veikur. Menn hafa verið að veðja á aukna tekjumöguleika fram í tímann en þá er verið að horfa til þess að smám saman gætu menn, með því að sýna þolinmæði gagnvart sínu eigin fjármagni, gert það að verkum að meiri nýting yrði á hótelunum með komu fleiri erlendra ferðamanna og komu fleiri erlendra ferðamanna yfir vetrartímann og þannig nýtt þessa fjárfestingu.

Það sem er síðan alvarlegt í þessu er að þetta skellur svona hratt yfir og það að hafa lækkað þessi áform úr 25,5% niður í 14% en að hafa haldið sig við þessa hugmynd að skella þessu á engu að síður 1. maí þýðir að þegar háönnin er að hefjast eru menn að taka á sig þessa hækkun. Það mun þýða að stærri hluti af þeim útgjöldum sem menn verða fyrir fellur á viðkomandi fyrirtæki. Mun eðlilegra hefði verið að lengja í þessu enn lengra fram á haustið ef menn hefðu ætlað að fara þessa leið. Kannski það verði þó niðurstaðan þegar búið verður að semja um þessi mál, auðvitað ekki við ferðaþjónustuna eða aðila atvinnurekstrarins heldur fyrst og fremst við hjálparkokkana í Bjartri framtíð sem greindu frá því að þeir væru í miklum samningaviðræðum við hæstv. fjármálaráðherra til að finna lausn á þessu. (Forseti hringir.) Þetta vitum við ekki en áhyggjuefnið er engu að síður til staðar.